Fyrirtækið heitir því að verðið á ákveðnum vörum muni ekki fara yfir ákveðið þak fram til loka október. Um 100 vörur er að ræða í Netto og 200 í Bilka og Føtex. Heitir fyrirtækið því að þótt innkaupsverðið hækki á þessum tíma muni það ekki skila sér út í verðlagið. Aðallega verður um vörur að ræða sem falla undir eigið vörumerki fyrirtækisins.
Matvörur hafa hækkað mikið í verði í Danmörku síðustu mánuði og mælist verðbólgan nú rúmlega sjö prósent. Þetta er mikil breyting fyrir Dani sem hafa búið við mjög stöðugt verðlag og kaupmátt áratugum saman.
Í tilkynningu Salling Group segir að ef það óvænta gerist og innkaupsverðið á vörunum lækki þá muni það strax skila sér til neytenda.
Fyrirkomulagið verður tekið til endurskoðunar í byrjun nóvember.