Myndband sem tekið var upp á dyrabjöllumyndavél hér á Íslandi hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlinum Twitter. Í myndbandinu má sjá konu á sjötugsaldri sem er að ganga í hús á vegum Samfylkingarinnar. Hún býður manninum sem svarar rós en maðurinn segir henni að setja rósina frekar í ruslatunnuna við húsið.
Umrætt myndband hefur verið harðlega gagnrýnt og sér í lagi maðurinn sem birti myndbandið á Twitter. Sá kveðst þó ekki vera sá sem tók það upp heldur hafi hann bara dreift því áfram. „Hef ekki hugmynd um hvaða aðili var að eyða tíma í þetta en það var ekki ég. Var einmitt að gera grín af því að hafa eytt tíma í þetta rugl,“ segir maðurinn sem dreifði myndbandinu og uppskar í kjölfarið mikla gagnrýni.
Fjölmiðlamaðurinn Helgi Seljan er á meðal þeirra sem lætur manninn heyra það. „Ahh já þetta var svona forvarnarmyndband,“ segir Helgi í athugasemd við útskýringu mannsins – að öllum líkindum skrifað í kaldhæðni. „Þið sjomlarnir eruð svo ævintýralega miklir vesalingar, þegar á reynir,“ segir hann nefnilega svo.
Ahh já þetta var svona forvarnarmyndband. Þið sjomlarnir eruð svo ævintýralega miklir vesalingar, þegar á reynir.
— Helgi Seljan (@helgiseljan) May 12, 2022
Maðurinn sem birti myndbandið heldur þá áfram að afsaka sig og segir Helga að slaka á. „Hélt að þetta væri 100% sviðsett atriði enda hljóðið í dyrasímanum eins og það væri tekið úr stúdíói. Slaka á í hrokanum Helgi minn og anda,“ segir hann.
Helgi gefur þó lítið fyrir þessar útskýringar mannsins. „Já akkúrat. Þú varst bara að sýna hvernig svona deepfake virkaði… Grow a pair maður. Þér fannst þetta fyndið. Deal with it,“ segir hann.
Kennarinn Elín Soffía Harðardóttir, konan með rósina í myndbandinu, hefur nú stigið fram í samtali við Vísi og segir hún að sér hafi verið brugðið að sjá myndbandið af sér í dreifingu á Twitter. „Ég er ekki einu sinni á Twitter. Ég er búin að vera í sjálfboðaliðastarfi fyrir flokka og í forsetakosningum síðan ég var sextán ára, og nú komin á sjötugsaldur. Ég hef bara aldrei orðið fyrir svona, þarna er bara verið að gera lítið úr manni,“ segir hún í samtali við blaðamann Vísis.
„Mér hefði aldrei dottið í hug að einhver myndi taka mann upp á myndband heima hjá sér og birt á samfélagsmiðlum. Þetta er bara friðhelgi, að einhver bara birti myndband af manni og reyni að gera lítið úr manni.“