Christian B, Þjóðverjinn sem talinn er hafa rænt og myrt Madeleine McCann heldur fram að hann sé með fjarvistarsönnun, hann hafi verið að stunda kynlíf með þýskri konu í sendiferðabíl sínum þegar að Madeleine var rænt. Á morgun eru liðin 15 ár frá því að henni var rænt frá hóteli í Algarve í Portúgal.
Þýsk yfirvöld segjast hafa sterkar sannanir fyrir sekt Christian B og er talið að hann megi eiga von á kæru á hverri stundu en hingað til hefur ekki verið gefin út handtökuskipun á hann fyrir ránið. Talið er að þýsk yfirvöld séu að ekkert að flýta sér heldur leggi tíma og vinnu í að byggja upp málið á hendur Christian B. enda er hann ekkert á förum heldur situr hann í fangelsi. Christian B hefur hingað til neitað að tjá sig um hvarf Madeleine annað en að halda fram sakleysi sínu og segja að ,,fullt af fólki” geti vitnað um sakleysi hans. Hann hefur aftur á móti aldrei gefið upp nöfn á þessum hugsanlegu vitnum. Yfirlýsingin um þýsku konuna er það næsta sem hann hefur komist með að nefna vitni máli sínu til sönnunar.
Í viðtali við bandaríska kvikmyndagerðarmenn, sem eru að gera heimildarmynd um hvarf Maddie, segir Christian B að hann og hin þýska kona hafi verið stöðvuð og ljósmynduð við vegatálma lögreglu daginn eftir hvarfið. Segir Christian B að hann hafi verið að keyra konuna, sem hann segir hafa verið í fríi í Portúgal með foreldrum sínum, á flugvöllinn. Ennfremur að konan hafi verið handtekinn á flugvellinum fyrir að vera með ólöglegan piparúða í farangri. Fullyrðir Christian B að lögreglan í Portúgal sitji á þessum á gögnum.
Lögregla í Þýskalandi hefur undir höndum mynd af konu í sendibíl Christian B en myndin fannst við leit við rannsókn á nauðgun á ellilífeyrisþega í Portúgal ári 2005. Christian B situr nú af sér sjö ára dóms vegna nauðgunarinnar.
Christian B segist ekki muna nafn konunar en fullyrðir að hann geti þekkt hana í sjón.
Yfirlýsing Christian er ekki í samræmi við farsímagögn sem sýna að sími hans var í um 200 metra fjarlægð frá hótelinu sem Maddie var rænt frá, á þeim tíma sem ránið átti sér stað.
Sjá einnig: Sjö lykilsönnunargögnum í Madeleine McCann hvarfinu varpað fram
Þýski saksóknarinn Hans Christian Wolters sagði í viðtali við Sky News að það kæmi ekki á óvart að Christian B kæmi á endanum fram með einhvers konar fjarvistarsönnun. ,,Við könnum þetta og sjáum hvað setur,” sagði saksóknarinn hinn rólegasti. ,,Hingað til hefur hann ekki sagt orð og við höfum orðið að vinna alfarið með þau sönnunargögn sem fundist hafa. Og það er ekkert í þeim gögnum sem hreinsar hann af grun.”
Saksóknarinn bætti við að ekki væri vitað hvenær rannsókn málsins lyki en það yrði örugglega á þessu ári.
Foreldrar Madeleine, Kate og Gerry McCann, birtu í dag færslu á Facebook síðu sem helguð er leitinni að Maddie. Þar sögðust þau þurfa að vita hvað gerðist í hótelíbúð þeirra á Algarve þann 3. maí 2007. ,,Margir tala um nauðsyn þess að fá lúkningu sem er skrýtið hugtak. Madeleine verður alltaf dóttir okkar og það var hræðilegur glæpur framinn. Því verður aldrei breytt.“ Þau segja óvissuna skapa veikleika en vitneskjuna aftur á móti veita styrk. Kate og Gerry þökkuðu ennfremur yfirvöldum í Bretlandi, Portúgal og Þýskalandi fyrir að vinna hörðum höndum að því að veita þeim svörin sem brenna á þeim. ,,Það er mikil huggun að vita til þess að Madeleine er enn í huga og hjörtum fólks.”