Tvær konur sem keyptu sér íbúð saman í Iðufelli í fyrra hafa þurft að líða þjáningar vegna stækrar og yfirþyrmandi kannabislyktar sem berst inn í íbúð þeirra. Lyktin veldur þeim höfuðverk og svefnleysi.
Konurnar hafa bæði verið í sambandi við lögreglu og húsfélagið vegna málsins. Þeim hefur ýmist verið ráðlagt að opna eða loka gluggum til að losna við lyktina en hvorugt hefur dugað. Virðist lyktin hafa borist eftir mismunandi leiðum, um tíma virtist hún berast í gegnum loftstokkana, en ekki lengur. Lyktin finnst út á svölum og því grunar konurnar að upptökin séu í íbúðinni beint fyrir neðan þær en þær búa á fjórðu hæð hússins.
„Þetta er svo mikið að þú færð hausverk og getur ekki sofið lengur. Stundum kemur lyktin bara beint inn í stofu til þín, stundum vekur hún þig um miðjar nætur,“ segir önnur konan í samtali við DV.
„Okkur grunar að það sé ræktun í gangi en við erum ekki viss og á meðan viljum við ekkert fullyrða um það. Þetta gerist á nokkura klukkustunda fresti, á morgnana, í hádeginu og á kvöldin,“ segir konan ennfremur. Hún segir að þær hafi oft hringt á lögreglu vegna lyktarinnar:
„Lögregla hefur komið mörgun sinnum en af því þeir finna ekki lykt í stigaganginum þá geta þeir ekki farið inn í íbúðir. Við höfum bent þeim á íbúðina þaðan sem okkur grunar að þetta komi, þeir hafa bankað en það er aldrei svarað.“
Konan segir að húsfélagið sé að vinna í málinu og sé meðal annars í sambandi við Húseigendafélagið vegna þess. „Þeir eru að vinna í þessu núna og við ætlum að sjá hvað kemur út úr því,“ segir konan, langþreytt á stækri og yfirþyrmandi lyktinni.
Í 26. grein laga um fjöleignahús segir:
„Eiganda er skylt á sinn kostnað að halda allri séreign sinni vel við og að haga afnotum og hagnýtingu hennar með þeim hætti að aðrir eigendur eða afnotahafar í húsinu verði ekki fyrir ónauðsynlegu og óeðlilegu ónæði, þ.e. meiri ama, ónæði og óþægindum en óhjákvæmilegt er og eðlilegt þykir í sambærilegum húsum.“
Ef verið er að rækta eða reykja kannabis í húsinu er það bæði brot á hegningarlögum og að líkindum á lögum um fjöleignarhús.