Fjórir ökumenn voru handteknir í gærkvöldi og nótt grunaðir um að vera undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Einn þeirra reyndist vera sviptur ökuréttindum.
Einn ökumaður var kærður fyrir að aka á móti rauðu ljósi í miðborginni. Í Bústaðahverfi var einn ökumaður kærður fyrir akstur án gildra ökuréttinda og er um ítrekað brot að ræða.
Á Kringlumýrarbraut voru fimm ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur frá klukkan 21:06 til 22:05. Leyfður hámarkshraði er 80 km/klst en ökumennirnir óku á 105 til 123 km/klst.
Í Breiðholti höfðu lögreglumenn afskipti af tveimur 17 ára farþegum stóðu í topplúgu bifreiðar og voru þar af leiðandi ekki með öryggisbelti spennt. Forráðamönnum þeirra var tilkynnt um málið og tilkynning send til barnaverndaryfirvalda.
Á þriðja tímanum í nótt voru tveir ungir menn handteknir í Kópavogi. Þeir eru grunaðir um nytjastuld bifreiðar og að hafa reynt að stela léttu bifhjóli en eigandi þess náði að koma í veg fyrir það. Mennirnir voru vistaðir í fangageymslu.