fbpx
Miðvikudagur 02.júlí 2025
Fréttir

Næ ekki að tengjast nýfædda barninu mínu – Held ég sé versta manneskja í heimi

Fókus
Sunnudaginn 4. apríl 2021 21:00

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristín Tómasdóttir hjónabandsráðgjafi svarar spurningum lesenda um málefni er varða fjölskylduna, börnin og ástina í Fjölskylduhorni DV. Að þessu sinni svarar Kristín spurningu frá áhyggjufullri, nýbakaðri móður.

Sæl Kristín.

Ég held ég sé versta manneskja í heimi. Ég ætti að vera að kafna úr hamingju, nýbökuð móðir eftir margra ára glímu við frjósemisvanda. Þetta er bara ekki eins og ég hafði séð fyrir mér.

Ég var með svo skothelda áætlun um hvernig þetta ætti allt að fara. Ég ætlaði að eiga náttúrulega og fallega fæðingu, var með allt planið á hreinu. En það fór allt úr skorðum og ég endaði með mænudeyfingu og það þurfti að sækja barnið með sogklukku.

Allt fór samt vel, brjóstagjöfin gengur vel og barnið er vært. En ég er hins vegar bara ekki að finna fyrir neinni tengingu við barnið. Ég er kannski ekki með þetta móðureðli sem allir tala um.

Ég get ekki sagt að ég sé þunglynd, ég hef enn gaman af sömu hlutum, ég finn ekki fyrir depurð, er enn orkumikil og hef gaman af lífinu. Ég bara næ ekki að tengjast barninu. Finnst þetta bara vera einhver aukahlutur sem er allt í einu kominn inn á heimilið, sem ég að sjálfsögðu sinni samkvæmt bókinni. En ég sakna þess ekki þegar ég fæ pásu og kemst út af heimilinu, og finn fyrir kvíða þegar ég þarf að fara aftur heim.

Hvað get ég gert? Er ég bara ekki þessi mömmu týpa og er það eðlilegt eða er eitthvað að mér? Mig langar bara hreinlega stundum, þó það sé hræðilegt að skrifa þetta, að stinga af og láta mig hverfa.

Kær kveðja frá „bleika skýinu“.

Óraunhæft plan

Sæl. Takk innilega fyrir viðkvæma og einlæga spurningu.

Mig grunar að kveðjan þín hafi í kaldhæðni sinni pakkað þessu ansi vel inn. Við erum undirbúin undir að detta í trans hamingju og ástarvímu á bleiku skýi þegar börn fæðast en það er ansi mikið annað sem fylgir nýju lífi. Margt af því er flókið, erfitt og tekur gríðarlegan tíma, nokkuð sem getur komið óþægilega að óvart.

Sem frumbyrja og eftir langt tæknifrjóvgunarferli þá er svo eðlilegt að ætla ekki að láta sitt eftir liggja þegar kemur að meðgöngu, fæðingu og umönnun ungabarns. Þú ætlar að gera allt upp á tíu og ert þar af leiðandi með plan um náttúrulega fæðingu án verkjalyfja. Það er ágætis plan, en óraunhæft því það gengur ekki alltaf eftir og þess vegna eru til spítalar, læknar, ljósmæður, sogklukkur og deyfingar. Það var það sem þú þurftir þá stundina til þess að koma barninu þínu í heiminn og þá hefur það sannarlega verið besta leiðin fyrir þig. 10 stig!

Við erum svo gjörn á að skýra líðan okkar út frá aðstæðum, en veistu það elsku góða mamma, líðan þín stjórnast meira en þig grunar af hugsunum þínum. Það er ekki mænudeyfing og sogklukka sem eru að valda þér vanlíðan heldur hugmyndir þínar og hugsanir í tengslum við hvernig þú hefðir viljað hafa fæðinguna.

Ef þú upplifir að fæðingin sitji í þér og geti verið að valda þér erfiðleikum við tengslamyndun þá gæti verið ráð að hafa samband við Ljáðu mér eyra á Landspítalanum en þar er sérhæft starfsfólk sem aðstoðar konur við að vinna úr slíkri reynslu.

Meiri ábyrgð, meiri tengsl

Mig vantar upplýsingar um aldur barnsins þíns til þess að leggja betur mat á aðstæður þínar, en þú nefnir að þú sért „nýbökuð” móðir og því geri ég ráð fyrir að barnið sé ungabarn. Á þessum fyrstu vikum og mánuðum er allt óþekkt og nýtt, barnið gefur frá sér lítil viðbrögð og þú veist ekki alveg hvað þessi litli einstaklingur ætlar að bjóða upp á. Fyrir vikið finna margar mæður ekki þessa tengingu sem „allir” eru að tala um strax. Það er eðlilegt.

Það er sagt að tengsl skapist við að setja tannkrem á tannburstann hjá barni. Með því er átt við að tengslin verði sterkari eftir því sem þú axlar meiri ábyrgð, umgengst barnið lengur og annast það sem mest.

Þessu var oft fleygt fram í tengslum við helgarpabba sem upplifðu að þá skorti meiri tengsl við börnin sín. Var þá átt við að þeir náðu ekki nægilega mikilli umönnun á einni helgi, þeir þyrftu sjaldan að vaka með börnunum sínum í gegnum erfiðar nætur, smyrja nesti og díla við erfiðleika í skóla, heldur varð umönnunin að flugeldasýningum með nammi og bíó. Fyrir vikið skorti bæði ábyrgð og tíma sem bitnaði sannarlega á tengslunum.

Tengslavandi er algengur

Af spurningu þinni að dæma vantar lítið upp á það, þ.e.a.s. þú segist sinna barninu samkvæmt bókinni. Hér getum við líka aðeins staldrað við, það er krefjandi að sinna ungabarni samkvæmt bókinni og má ég spyrja: Samkvæmt hvaða bók? Það eru til óteljandi bækur sem segja okkur hvernig við eigum að ala upp og annast börn, en ef það væri bara ein rétt leið þá værum við öll að fylgja henni og bækurnar væru ekki svona margar.

Gæti verið að þú ætlir að gera þetta svo vel að þú gerir óraunhæfar kröfur til þín sem veldur að þér finnst þú vera að bregðast? Þú telur þig ekki vera með kvíða eða þunglyndi því þér líður almennt vel. Það er gott og þú ert vafalaust best í að meta það sjálf en ég vil þó benda þér á að slík vanlíðan getur birst með mismunandi hætti.

Að vilja stundum hverfa og finna fyrir létti þegar þú ert ekki inni á heimilinu getur verið fullkomlega eðlilegt, en það getur líka bent til þess að þú sért að glíma við andlega erfiðleika sem gott væri að fá aðstoð með. Ég vil alls ekki gera lítið úr vandanum þínum. Tengslavandi er algengur og getur haft langvarandi áhrif á bæði þig og barnið þitt. Það er hræðileg tilfinning að upplifa að þú sért ekki að tengjast barninu þínu og ég hvet þig til þess að leita þér aðstoðar með það ef þú telur að þið þurfið á því að halda.

Hjá miðstöð foreldra og barna er unnið mjög faglegt og gott starf fyrir foreldra á fyrsta æviári barns. Endilega kannaðu hvaða þjónustu ykkur kann að bjóðast þar. Að lokum, allt hljómar þetta kunnuglega og eitthvað sem margar nýbakaðar mæður kannast við. Tengsl myndast ekki á þriðjudegi klukkan þrjú heldur með því að hnoðast saman í lífsins ólgu sjó.

Með því að senda inn þessa spurningu sýnir þú að þetta er þér hjartans mál, þú ert meðvituð um mikilvægi góðra tengsla og þú kallar eftir hjálp þegar þú þarft á henni að halda. Með því áframhaldi leyfi ég mér að fullyrða að þú hefur allt það til að bera sem góð mamma þarf.

Við hvetjum lesendur til að senda spurningar og vangaveltur sínar til Kristínar í tölvupósti á: hjonabandssaela@gmail.com.

Spurningunum verður svo svarað hér í Fjölskylduhorninu, að sjálfsögðu nafnlaust og í fullum trúnaði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Yfirmaður Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar sáir efasemdum um orð Trump

Yfirmaður Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar sáir efasemdum um orð Trump
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Er forseti Kína á útleið? – Hreinsanir sagðar hafnar

Er forseti Kína á útleið? – Hreinsanir sagðar hafnar