fbpx
Þriðjudagur 11.maí 2021
Fréttir

Jóhannes stofnar Félag uppljóstrara – Félagið borgar öryggisgæslu og ferðakostnað uppljóstrara

Heimir Hannesson
Mánudaginn 19. apríl 2021 15:00

Jóhannes Stefánsson er formaður Félags uppljóstrara. mynd/dv samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Líkt og fram hefur komið hefur Jóhannes Stefánsson, uppljóstrarinn í Samherjamálinu svokallaða, stofnað félagsskapinn Félag uppljóstrara. Með Jóhannesi í stjórn félagsins eru þau Elsa Stefánsdóttir og Sigurjón Þórðarson, fyrrverandi þingmaður Frjálslynda flokksins en eitt meginstefnumál flokksins var heildarendurskoðun á kvótakerfinu. Þá hefur Sigurjón jafnframt verið mjög gagnrýninn á Samherja og starfsemi þess bæði innan- sem utanlands.

Skráð heimilisfang Félag uppljóstrara er á heimili Jóhannesar í Reykjavík. Þá er netfang félagsins jafnframt persónulegt netfang Jóhannesar.

Í stofngögnum félagsins sem DV hefur undir höndum er tilgangur félagsins sagður vera að veita áhugasömum um uppljóstranir og baráttuna gegn spillingu félagsskap. „Félagsmenn sem ganga í þennan félagsskap munu hafa mikinn áhuga á spillingu og koma í veg fyrir hana,“ segir þar meðal annars.

Í 3. grein stofngagnanna segir að félagið ætli sé að ná tilgangi sínum með því að halda úti vefsíðu, Facebook síðu og gefa félagsmönnum tækifæri á að styðja fjárhagslega við uppljóstrara.

Skilja má af samþykktum félagsins að afgangi af rekstri þess skuli varið í að veita uppljóstrurum fjárhagslegan styrk vegna persónulegra útgjalda, meðal annars vegna öryggisgæslu, ferðakostnaðar, lögfræðikostnaðar o.fl. Í greininni sem Samherjamálsins sérstaklega getið sem dæmi um uppljóstrun sem hefur kostað mikla fjármuni.

Uppljóstrarar fá ekki vinnu

Ekki náðist í Jóhannes Stefánsson við vinnslu fréttarinnar, en í samtali við blaðamann segir annar meðstjórnandi félagsins, Sigurjón Þórðarson, að félagið og starfsemi þess sé enn í mótun.

„Hugsunin er að veita þeim sem hafa lýst sig reiðubúna til þess að styðja við Jóhannes tækifæri á að gera það og þá er rétt að haldið sé utan um þann stuðning með formlegum hætti,“ segir Sigurjón. „Nú er verið að móta þetta starf og utanumhald um þann mikla kostnað sem fylgir þessu.“ Sigurjón segir þann kostnað meðal annars felast í því að uppljóstrar eiga erfitt með að fá vinnu. „Þrátt fyrir að menn hafi veitt þjóðfélaginu mikið lið og kannski komið í veg fyrir misnotkun á opinberu fé er lítið sem tekur á móti þeim.“

Aðspurður um fjárhagshliðina og samþykktir félagsins segir Sigurjón aðalatriðið vera að halda utan um fjárframlögin með formlegum hætti. „Með því að formgera þetta erum við að koma í veg fyrir að peningar sem koma inn til styrktar uppljóstrurum lendi á einhverjum reikningi. Með félaginu verður utanumhald um framlögin og það formgert.“

„Það er því miður þannig að uppljóstrar sem stíga fram og eru að koma upp um óæskilega hluti í samfélaginu eru ekki að fá þann stuðning sem þeir þurfa,“ segir Sigurjón. „Þegar að fleiri stíga fram og menn eru jafnvel að uppljóstra um einhverja hluti sem er nauðsynlegt að komi fram, þá verða þeir að hafa í einhver hús að venda. Það er svona hugsunin á bakvið þetta félag.“

Ekki miðað beint að Samherja

Aðspurður hvort félaginu sé miðað sérstaklega að uppljóstrunum Jóhannesar Stefánssonar um störf sín fyrir Samherja, segir Sigurjón svo ekki vera. „Það voru alls ekki margir tilbúnir að leggja nafn sitt við félagið og því leitaði Jóhannes til mín. Mér finnst þetta vera alveg nauðsynlegur málstaður, en félagið mun styðja við aðra uppljóstrara sem stíga fram.“

Sigurjón segir þá mikilvægt að bókhald félagsins verði opið, að minnsta kosti að hluta til. „Sumir sem vilja styrkja samtökin eru ekkert endilega tilbúnir til þess að gera það í sínu nafni, þó þeir vilji styðja markmið félagsins. En að sama sakapi er mikilvægt að hafa um félagið sem mest gagnsæi og að þeir sem láta fé af hendi til þess viti að um fjármálin sé formlegt utanumhald.“

Eitt af verkefnum félagsins segir Sigurjón nú vera að leita til Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og bjóða þeim að styðja félagsskapinn. „Þar fá þau tækifæri til þess að standa við stór orð um samfélagslega ábyrgð,“ segir Sigurjón.

Lýsti morðtilraunum og óþekktri eitrun í síðasta söfnunarverkefni

Félagið nýstofnaða er ekki fyrsta styrktarverkefni Jóhannesar sem kemst í umræðuna. Í byrjun mars sagði DV frá því að söfnun fyrir útgjöldum Jóhannesar hefði verið hrint af stað á hópfjáröflunarsíðunni Gofundme. Þar sagði Jóhannes að eitrað hefði verið fyrir sér í Suður Afríku eftir að hann lét af störfum fyrir Samherja og að íslenskir læknar hefðu ekki aðgang að nauðsynlegum búnaði til þess að greina eitrunina og stæðu á gati vegna málsins. Því þyrfti Jóhannes á fé að halda til þess að fjármagna ferðalög og lækniskostnað erlendis.

Sjá nánar: Jóhannes Stefánsson uppljóstrari lýsir morðtilraun og segist þurfa á peningum að halda – Eitrunarmiðstöð LSH kannast ekki við óþekktar eitranir

Jóhannes var þá sagður hafa lifað af „ítrekaðar morðtilraunir.“ Samtals söfnuðust um 11 milljónir í söfnuninni. Hæsta einstaka framlagið nam 500 evrum, um 76 þúsundum króna.

DV ræddi þá við eitrunarmiðstöð Landspítalans sem og Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði vegna málsins. Þar kannaðist enginn við að hafa rekist á eitrun án kunnra orsaka. „Við hjá Eitrunarmiðstöðinni könnumst ekki við að hafa lent í því,“ sagði Helena Líndal Baldvinsdóttir hjá Eitrunarmiðstöð Landspítalans í samtali við blaðamann DV í mars. „Nema ef einstaklingur telur sig hafa orðið fyrir byrlun á skemmtistað, en við fengum tvö slík símtöl í fyrra.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Almar ráðinn fagsviðsstjóri hjá Samorku

Almar ráðinn fagsviðsstjóri hjá Samorku
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum
Maríjon til Kvis
Fréttir
Í gær

Gunnar smíðakennari reynir að staðsetja sig í metoo-umræðunni – „Kannski er ég þjakaður af erfðasynd“

Gunnar smíðakennari reynir að staðsetja sig í metoo-umræðunni – „Kannski er ég þjakaður af erfðasynd“
Fréttir
Í gær

Tvær sem greindust í gær komnir á gjörgæslu

Tvær sem greindust í gær komnir á gjörgæslu
Fréttir
Í gær

Banna sölu á maíspokum á kassasvæðum verslana

Banna sölu á maíspokum á kassasvæðum verslana
Fréttir
Í gær

Innbrot í ljósmyndavöruverslun – Sinubruni og fjársvik

Innbrot í ljósmyndavöruverslun – Sinubruni og fjársvik