fbpx
Miðvikudagur 12.maí 2021
Fréttir

Allt sem þú þarft að vita um pilluna: Áhætta og ávinningur – Staðan á pillu fyrir karlmenn

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Sunnudaginn 11. apríl 2021 10:30

Reykingar samtímis notkun pillunnar auka hættu á blóðtappamyndun. Aðrir áhættuþættir hafa einnig áhrif. Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Pillan var fyrst fáanleg hér árið 1967. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan og hafa getnaðarvarnir þróast töluvert. Margar mýtur lifa þó góðu lífi og þekkja konur ekki endilega aukaverkanir lyfs sem þær taka daglega. Sérfræðingar fara yfir nokkrar vinsælar mýtur neðst í greininni.

Getnaðarvarnarpilla kvenna inniheldur tilbúnar útgáfur af kvenhormónunum estrógeni og gestageni. Til eru tveir meginflokkar af pillum. Annars vegar eru samsettar pillutegundir sem innihalda bæði hormónin og hins vegar er smápillan, oft kölluð brjóstapillan, sem inniheldur eingöngu gervigestagen. Samsetta pillan er mun algengari. Smápillan er hentug fyrir konur með barn á brjósti eða konur yfir 35 ára.

Jafnréttismál og pilla fyrir karlmenn

Þegar rætt er um pilluna má ekki gleyma mikilvægi hennar í jafnréttisbaráttu kynjanna. Með tilkomu getnaðarvarnarpillunnar gátu konur loks stjórnað því hvenær og hvort þær eignuðust börn.

Pillan kom á markað upp úr 1960 og breytti stöðu kvenna um heim allan. Pillan var sett á lyfjaskrá á Íslandi árið 1967 og hefur tegundum gatnaðarvarna fjölgað mikið síðan þá. Konur og einstaklingar með leg geta notað pilluna en pilla fyrir karlmenn hefur verið í þróun um árabil. DV hafði samband við nokkur íslensk lyfjafyrirtæki. Engin fyrirtæki hér á landi standa að þróun getnaðarvarnarpillu fyrir karlmenn, þar sem þetta er þróun á frumlyfi og það er enginn að þróa frumlyf á Íslandi.

Davíð Þór Gunnarsson, viðskiptastjóri Icepharma, sagðist ekki vita til þess að nein getnaðarvarnarpilla fyrir karlmenn væri á markaði úti í heimi. „En vonandi kemur hún einn daginn“.

Snemma árs 2019 var framkvæmd klínísk rannsókn á 82 karlmönnum. Niðurstöður gáfu til kynna að hormónabundin pilla kölluð dimethandorolone undecanoate (DMAU) væri örugg þegar hún væri notuð á hverjum degi í mánuði. Það fylgdu henni engar alvarlegar aukaverkanir.

Mildar aukaverkanir voru bólur, hausverkur, væg risvandamál, minni kynhvöt, þreyta og þyngdaraukning um 2,2 kíló eða minna. Ef þessar aukaverkanir hljóma kunnuglega þá eru þetta svipaðar aukaverkanir og fylgja getnaðarvarnarpillum kvenna.

Önnur pilla fyrir karlmenn, 11β-MNTDC, var tilkynnt í mars 2019. Hún stóðst fyrstu klínísku tilraunir og er talin vera örugg.

Fullt verð

Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) niðurgreiða lyf samkvæmt svokölluðu greiðsluþrepakerfi. Getnaðarvarnarpillan fellur ekki inn í það kerfi og er því ekki niðurgreidd. Algengt verð á getnaðarvarnarpillunni er um þrjú þúsund krónur fyrir þriggja mánaða skammt en þriggja mánaða skammtur af Microgyn-pillunni er um 2.700 krónur.

Ásgeir Thoroddsen kvensjúkdómalæknir. Aðsend mynd.

Vinsælli hjá yngri konum

Aðspurður um algengustu getnaðarvarnirnar segir Ásgeir Thoroddsen, kvensjúkdómalæknir hjá Domus Medica, að það fari að miklu leyti eftir aldri hvað fólk velji. „Sennilega, fyrir utan smokka, er pillan algengasta getnaðarvörnin. Hjá eldri aldurshópum er lykkjan orðin algengari. Svo hefur það verið að aukast svolítið á síðustu árum að yngri konur séu að nota meira langverkandi getnaðarvarnir, eins og til dæmis smálykkjuna og stafinn.“

Ásgeir segir að það sé algengur misskilningur að aðeins konur sem hafa annaðhvort átt börn eða hafa náð einhverjum ákveðnum aldri geti notað lykkjuna. Hins veg ar geta konur sem hafa ekki stundað samfarir ekki notað lykkjuna.

„Það er meiri tilhneiging að nota smálykkjuna hjá konum sem hafa ekki eignast börn en þær geta líka notað venjulegu hormónalykkjuna og koparlykkjuna. Svo lengi sem þær eru byrjaðar að stunda kynlíf, því annars komumst við ekki að leghálsinum.“

Er enn þá verið að setja ungar konur á pilluna til að stýra blæðingum?

„Já þegar það er þörf á því. Eins og ef þær eru með verulega mikla túrverki eða miklar blæðingar, þá getur verið full ástæða fyrir því að stýra því með einhvers konar hormónameðferð eins og pillunni. Við notum pilluna mjög mikið við blæðingavandamálum.“

Líkaminn þarf að aðlagast

„Getnaðarvarnir eru allar með einhverjar aukaverkanir, en samt eru flestar þannig að þær ganga yfir eftir tiltölulega stuttan tíma. Líkaminn þarf að aðlagast. Til dæmis hefur pillan mjög oft í för með sér einhverjar aukaverkanir sem oftast ganga yfir eftir kannski 2-3 mánuði. Þannig að maður segir oft við konurnar að það sé ekkert að marka fyrstu mánuðina, maður þarf að gefa pillunni tækifæri. Stundum hreinlega gengur það ekki, sumum konum líður kannski illa á pillunni og vilja skipta um getnaðarvörn. Hormónalykkjan hefur kannski þann ókost að maður getur búist við einhvers konar blæðingatruflunum fyrstu mánuðina, milliblæðingar og svoleiðis, sem oftast gengur yfir eftir nokkra mánuði.“

Konur upplýstari í dag

Hefurðu tekið eftir því að konur, þá sérstaklega ungar konur, séu orðnar smeykari við að byrja á pillunni vegna hormóna?

„Já, mér finnst það. Mér finnst konur í dag vera upplýstari heldur en fyrir einhverjum árum síðan. Þær koma oft, sem betur fer, vel lesnar og búnar að kynna sér málin og velta fyrir sér þessum hormónum og svoleiðis. Sjá bæði kostina og gallana við hormónameðferðir,“ segir Ásgeir og bætir við að upplýsingar séu mun aðgengilegri í dag en áður. Hann tekur það þó skýrt fram að það skipti miklu máli hvaðan fólk sækir sér upplýsingar. Það virðist vera orðið algengt að fólk leiti læknisráða á Facebook og í vinsælum Facebook-hópum eins og Beauty Tips eða Mæðra Tips og hefur Ásgeir tekið eftir þeirri aukningu. En hann bendir á að besta leiðin til að nálgast öruggar upplýsingar sé að notast við áreiðanlegar síður eins og heilsuvera.is.

Ásgeir segir að það sé bæði jákvætt og neikvætt að slík umræða hafi aukist á samfélagsmiðlum, eins og þegar netverjar deila persónulegum sögum af tilteknum getnaðarvörnum.

„Það jákvæða er að þær eru þá skeptískar, eru að velta fyrir sér aukaverkunum og eru betur upplýstar. En gallinn við það er sá að þær eru þá kannski búnar að útiloka einhverja getnaðarvörn sem gæti hentað þeim vel, en þær lásu kannski um eitthvað slæmt tilfelli á samfélagsmiðlum.“

„Það er svo mikið af upplýsingum og það getur verið erfitt fyrir fólk að hafa stjórn á því hvað er raunverulega rétt og hvað er algilt, og hvað er einfaldlega rangt. En það er mjög jákvætt að konur í dag eru vel upplýstar og geti auðveldlega nálgast upplýsingar. Sumar getnaðarvarnir eru raunverulega hættulegar fyrir konur með ákveðna áhættuþætti eða í ákveðnum aldurshópum, og það er gott að konur séu meðvitaðar um það. Þetta skiptir máli og það skiptir máli að aðgengi sé gott og að upplýsingarnar séu réttar.“

Áhættuþættir

Ásgeir bætir við að það sé mikilvægt að konur ræði þessi mál, kosti og galla, við heilbrigðisstarfsfólk sem kann vel á þetta. „Vegna þess að eitthvað sem gæti hentað einni konu, gæti hentað annarri á sama aldri illa. Það geta verið alls konar þættir, áhættuþættir eru aldurinn, reykingar eða saga um reykingar, fyrri reynsla af mismunandi getnaðarvörnum og allt þetta,“ segir hann.

„Það skiptir miklu máli til dæmis að kona sem er að fara á pilluna, að hún raunverulega treysti sér til að taka pilluna rétt. Ef konur eru að lenda í því aftur og aftur að þær séu að gleyma pillunni eða ekki að taka hana á réttum tíma, þá er það merki um að þetta sé ekki getnaðarvörn sem henti viðkomandi. Þá er skynsamlegra að fara í eitthvað meira langverkandi. Það eru svona hlutir sem maður þarf að taka inn í heildarmatið til ráðlegginga til konunnar. Pillan er ekki góð ef hún er ekki tekin hundrað prósent rétt. Þá geturðu ekki treyst á hana. Ef þú tekur hana 100 prósent rétt þá er þetta mjög góð getnaðarvörn en ef þú getur það ekki þá er skynsamlegra að fara í aðra langverkandi getnaðarvörn. Eins og með þriggja mánaða sprautuna þarftu að fara og láta sprauta þig á þriggja mánaða fresti, með getnaðarvarnarhringinn þarftu að skipta honum út á þriggja vikna fresti, en ekki eitthvað sem þú þarft að muna eftir á hverjum degi.“

Blóðtappar

Meðal sjaldgæfari og alvarlegri aukaverkana pillunnar eru meðal annars blóðtappar. Ásgeir segir að áhættan sé verulega lítil en sé meiri hjá konum með áhættuþætti.

„Blóðtappahættan er vissulega raunveruleg hjá konum sem eru á pillunni en hún er verulega lítil og ef það eru ekki áhættuþættir til staðar þá hefur maður almennt ekki áhyggjur af blóðtöppum,“ segir hann og nefnir helstu áhættuþættina.

„Það eru reykingar, fyrri saga um blóðtappa, hjarta- og æðasjúkdómar og aldur, þá konur yfir um það bil 35 ára. Fyrir konur undir 35 ára og ekki með aðra áhættuþætti þá er blóðtappahætta á pillunni verulega lítil. Hún er ekki núll. Það er ákveðin áhætta en hættan er mjög lítil.“

Sigríður Pálína Arnardóttir lyfjafræðingur. Aðsend mynd.

Aukaverkanir

Sigríður Pálína Arnardóttir lyfjafræðingur segir helstu aukaverkanir pillunnar vera ógleði, kviðverki, minnkaða kynhvöt, þurrk í leggöngum, höfuðverk, eymsli í brjóstum og fótapirring. „Fæstir finna fyrir aukaverkunum, þær eru mjög litlar. Pillan er orðin vægari en hún var áður fyrr.“

Sigríður segir að smápillan, eða brjóstapillan eins og hún er þekkt, sé með enn minni aukaverkanir.

Reykingar auka áhættu

„Það er mjög sjaldgæft en það eru aðeins auknar líkur á blóðtappamyndun ef þú ert á pillunni. Það er mjög mikilvægt að fylgjast með því ef maður verður andstuttur eða fær verki í handlegg eða fótlegg, að fara til læknis. Eins ef það er möguleiki á blóðtappa í lungum að leita strax til læknis og vera vakandi fyrir því, en þetta er mjög sjaldgæft. Það er ekki hætta á blóðtappa á smápillunni. En á samsettu pillunni er aðeins möguleiki. En allar þessar aukaverkanir eru miklu minni eftir því sem skammtarnir eru lægri,“ segir Sigríður og bætir við að reykingar samtímis notkun pillunnar auki áhættu á blóðtöppum.

Kostir og gallar

„Kostirnir við pilluna eru að hún minnkar líkurnar á að maður fái sýkingu í eggjaleiðina því slímið verður seigara og það hindrar bakteríur í að koma inn í legið, og það minnkar líka tíðaverki og blæðingarnar verða reglulegri. Það getur verið fyrirbyggjandi því að fá krabbamein í legið, eggjastokkana og þarmana og getur virkað á móti kvisum (e. acne), bólum í andliti. Auðvitað eru pillurnar mismunandi og mismunandi samsettar,“ segir Sigríður.

Taktu pilluna rétt

Það er mikilvægt að konur taki pilluna rétt. Á hverjum degi á sama tíma sólarhringsins. Sigríður mælir með að fólk taki pilluna sér, ekki með öðrum lyfjum.

„Það skiptir öllu máli að taka hana ekki með öðrum lyfjum. Það er voða gott að taka hana bara sér því þetta er hormón og lítill skammtur, gott að taka hana með glasi af vatni og bíða í hálftíma þar til þú borðar. Það má alveg borða á sama tíma en allt sem þú innbyrðir á sama tíma getur haft áhrif,“ segir hún.

„Ef þú kastar upp eða færð niðurgang skömmu eftir að þú tekur pilluna þá er gott að taka aðra.“

Önnur lyf og greipaldin

Sigríður segir að það sé mikilv vægt að konur séu meðvitaðar um hvaða öðrum lyfjum þær eru á þegar kemur að því að velja getnaðarvarnarpillu. „Það skiptir máli fyrir þær sem eru með flogaveiki eða sykursýki hvaða getnaðarvörn þær eru á. Það geta verið milliverkanir milli p-pillunnar og flogaveikilyfja. Svo getur greipaldin aukið aukaverkanir, því það minnkar frásogið eða útskilnað af hormóninu,“ segir hún.

„Það er annars vegar að lyf getur aukið útskilnað og þá er hún ekki eins örugg vörn, og svo eru það einhver lyf sem geta aukið aukaverkanir.“

Mynd/Getty

Mýtur um pilluna

Ef þú ert búin að vera á pillunni í X langan tíma þá getur það tekið langan tíma fyrir þig að verða ólétt eftir að þú hættir á henni.

Ásgeir: „Þetta á yfirleitt ekki við. Sérstaklega þar sem pillan er ekki langverkandi getnaðarvörn og fer úr líkamanum eftir stuttan tíma. Eftir mjög stuttan tíma eru hormónin farin úr líkamanum. Hins vegar getur tekið tíma fyrir tíðahringinn að verða reglulegur aftur og fyrir kerfið að jafna sig og komast í eðlilegt horf aftur. Það er mýta að þú sért lengur að verða þunguð eftir að hafa verið á pillunni. Eftir tiltölulega stuttan tíma eftir að hafa hætt á pillunni ertu á sama stað og áður hvað varðar frjósemi.

Það er mismunandi milli getnaðarvarna, sumar konur eru kannski aðeins lengur að komast í reglulegan tíðahring eftir að hafa verið á getnaðarvarnasprautunni, sem dugar í þrjá mánuði í senn, heldur en pillunni. Sama með hormónalykkjuna, það tekur aðeins lengri tíma. Hins vegar eru hormónin farin úr líkamanum eftir tiltölulega stuttan tíma.“

Ég get orðið ólétt í pillupásunni.

Ásgeir: „Nei. Ef þú hefur verið að taka pilluna rétt eins og leiðbeiningar segja til um þá ertu ekki í hættu á því, þá ertu örugg allan tíðahringinn.

Sýklalyf draga úr virkni pillunnar.

Sigríður: „Það sem sýklalyf gera er að þau hafa áhrif á bakteríuflóruna og geta þannig haft áhrif á upptöku p-pillunnar. Eins ef einstaklingur kastar upp eða fær niðurgang stuttu eftir inntöku pillunnar.

Árið 2015 gaf evrópska lyfjastofnunin út leiðbeiningar um það að almenn taka sýklalyfja og p-pillunnar hefðu ekki eða lítil áhrif hvort á annað. Ekki þessi venjulegu og almennu sýklalyf. Breiðvirk sýklalyf geta haft áhrif. Lyf sem að gefið er við berklum minnkar verkunina en það er sjaldan notað. Gott er að taka pilluna eina og sér með glasi af vatni. Fá ráð hjá lækni, ljósmóður eða lyfjafræðingi þegar önnur lyf eru tekin. Passa þá upp á getnaðarvörnina.“

Mynd/Getty

Mismunandi getnaðarvarnir

Getnaðarvarnarpillan

Pillan er til af tveimur gerðum. Önnur tegundin inniheldur tvö hormón, estrógen og gestagen en hin eitt hormón, gestagen.

Hormónalykkjan

Lykkja er lítill T-laga plasthlutur sem læknir kemur fyrir inni í leginu. Á lykkjunni er lítið hormónahylki sem gefur frá sér örlítinn skammt af hormónum jafnt og þétt og inniheldur hormónið gestagen.

Koparlykkjan

Er úr plasti og örlitlum kopar sem er til þess að auka áhrifin. Lykkjan er mjög smár T-laga hlutur sem læknir kemur fyrir inni í leginu. Kemur í veg fyrir þungun en hefur engin önnur áhrif á líkamann.

Hormónasprauta

Sprautan er í formi stungulyfs og inniheldur hormónið gestagen. Hún er gefin í vöðva á þriggja mánaða fresti.

Hormónastafur

Inniheldur hormónið gestagen og er lyfið í litlum plaststaf sem læknir kemur fyrir undir húðinni á upphandleggnum. Hver stafur endist í þrjú ár.

Hormónahringur

Grannur plasthringur sem er 5 cm í þvermál. Hann inniheldur hormónin estrógen og gestagen. Við fyrstu notkun er hringnum komið fyrir í leggöngum eftir blæðingar og hann er hafður þar í þrjár vikur. Þá er hann fjarlægður og nýr hringur settur upp eftir eina viku.

Hormónaplástur

Inniheldur hormónin estrógen og gestagen. Í plástrinum er forðalyf sem endist í eina viku

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Almar ráðinn fagsviðsstjóri hjá Samorku

Almar ráðinn fagsviðsstjóri hjá Samorku
Fréttir
Í gær

BYKO hefur sölu á Honda aflvélum

BYKO hefur sölu á Honda aflvélum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bókunum í flug hingað til lands fjölgar ört

Bókunum í flug hingað til lands fjölgar ört
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Banna sölu á maíspokum á kassasvæðum verslana

Banna sölu á maíspokum á kassasvæðum verslana
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vopnaðir menn brutust inn í hús á Grensásvegi

Vopnaðir menn brutust inn í hús á Grensásvegi
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Íslendingar gefa öndunarvélar til Indlands

Íslendingar gefa öndunarvélar til Indlands