fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Tinna var beitt stafrænu kynferðisofbeldi aðeins 13 ára gömul – Varð bráðkvödd á heimili sínu

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 25. febrúar 2021 22:00

Tinna Ingólfsdóttir. Skjáskot: RÚV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tinna Ingólfsdóttir var aðeins 13 ára gömul þegar hún hóf að senda mönnum af sér nektarmyndir í gegnum netið. Á þessum tíma var internetið nýjung og móðir Tinnu, Inga Vala Jónsdóttir, segir í viðtali við Kastljós í kvöld, að hún hafi heillast af samskiptum í gegnum tölvu. Hún hafi verið félagslega útilokuð og hafi notið þess að eiga samskipti við fólk á þennan hátt og spjalla við aðra sem höfðu skrýtin áhugamál eins og hún. Á samskiptaforritum hafi hún komist í kynni við aðila sem plötuðu hana til að senda af sér nektarmyndir. Hún hafi verið fákunnandi um samskipti kynjanna og menn hafi misnotað sér sakleysi hennar.

Myndum af henni var síðan dreift og Tinna mátti þola mikla niðurlægingu í kjölfarið. Þegar foreldrar hennar leituðu til lögreglu var fátt um ráð og lögregla taldi sig ekki hafa nein tól og tæki til að takast á við brot af þessu tagi.

Tinna vakti síðan mikla athygli árið 2012 er hún birti pistlinn „Ert þú þessi stelpa?“ þar sem hún steig fram með reynslu sína. Pistillinn er því miður ekki aðgengilegur lengur en hann þótti lýsa miklu hugrekki.

„Það var brotið á henni og hún hafði ekki beðið um að þessar myndir færu í dreifingu,“ segir Inga Vala, móðir Tinnu.

Tinna varð bráðkvödd á heimili sínu árið 2014, er hún var á 22. aldursári. Inga Vala segir að aldrei verði hægt að skera úr um dánaorsök hennar. „Kenningin er sú að hún hafi haft leyndan hjartagalla sem veldur skyndidauða, eitthvað svipað og þegar börn deyja vöggudauða. Þetta er allt byggt á líkum og kenningum og ekkert hægt að sanna dánarorsök. En auðvitað hugsar maður með sér að öll þessi streita og innri barátta sem hún stóð í … maður útilokar ekki að það hafi átt einhvern þátt.“

Ítarlegt viðtal við foreldra Tinnu birtist í Fréttatímanum árið 2014 og má nálgast það á vefnum tímarit.is.

Ný lög um kynferðislega friðhelgi

Dómsmálaráðherra hefur nú lagt fram frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, sem mun gera ofbeldi af því tagi sem Tinna varð fyrir refsivert. Fyrsta grein laganna hljóðar svo:

Á eftir 199. gr. laganna kemur ný grein, 199. gr. a, svohljóðandi:

„Hver sem í heimildarleysi útbýr, aflar sér, dreifir eða birtir ljósmynd, kvikmynd, texta eða sambærilegt efni af eða um nekt eða kynferðislega háttsemi annars skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum, en 4 árum sé brotið stórfellt.

Sömu refsingu skal sá sæta sem hótar því sem greinir í 1. mgr., enda er hótunin til þess fallin að vekja ugg hjá þeim sem hún beinist að.
Sömu refsingu skal sá sæta sem falsar um aðra efni sem greinir í 1. mgr.
Sé brot framið af gáleysi varðar það sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“

Inga Vala segir að hún hafi tárast af gleði er hún frétti af frumvarpinu. Það sé vissulega áfangasigur en það eigi eftir að koma í ljós hvernig gengur að framfylgja lögunum.

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu