fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Þetta áttu að gera í jarðskjálfta – Sjáðu ráðleggingar Almannavarna

Máni Snær Þorláksson
Miðvikudaginn 24. febrúar 2021 10:30

Skjáskot vedur.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stór jarðskjálfti fannst á höfuðborgarsvæðinu núna rétt eftir klukkan 10 í dag. Jarðskjálftanum fylgdu nokkrir eftirskjálftar og ljóst er að fólk víðsvegar um höfuðborgarsvæðið og á Reykjanesinu fann fyrir skjálftunum.

Hér fyrir neðan má sjá það sem skal gera vegna jarðskjálfta en um er að ræða upplýsingar frá Almannavörnum.

Hvað er til ráða ?

Mikilvægt er að íbúar á þekktum jarðskjálftasvæðum geri ráðstafanir til að draga úr tjóni vegna jarðskjálfta. Það er hægt að gera á ýmsan hátt, samkvæmt vef Almannavarna þar sem gefin eru nokkur góð ráð:

Á jarðskjálftasvæðum er hægt að draga úr afleiðingum jarðskjálfta með jarðskjálftaæfingum:

  • KRJÚPA – SKÝLA – HALDA -er orðaröð sem rétt er að leggja á minnið.

Út í horni við burðarvegg eða krjúpa undir borð,  skýla höfði og halda sér í.

  • Finndu staði heima, í vinnunni eða í skólanum þar sem öruggt er að vera ef það verður jarðskjálfti
  • Munið að handhægt er að safna neyðarútbúnaði saman í “viðlagakassa” sem allir á heimilinu vita um. Þar má geyma sjúkrakassa, vasaljós, útvarp, eldspýtur, kerti, rafhlöður og ýmsar sérþarfir heimilismanna sem erfitt er að vera án.
  • Hægt er að nálgast myndband um viðbúnað fjölskyldu á Selfossi vegna jarðskjálfta undir liðnum fræðsluefni hér á vefsíðunni.

Ef þú ert innandyra þegar þegar jarðskjálfti byrjar– ekki hlaupa af stað.

• Haltu kyrru fyrir, mörg slys verða þegar hlaupið er af stað

• Farðu undir borð eða rúm og haltu þér í borð-  eða rúmfót

• Krjúptu niður í horni við burðarvegg eða í hurðaropi við burðarvegg

• Verðu höfuð þitt og andlit með kodda- ef þú vaknar upp við jarðskjálfta

• Haltu þig frá gluggum – þeir geta brotnað

• Láttu vita af þér með SMS þegar jarðskjálftnn hættir

Ef þú er utandyra þegar þú finnur jarðskjálfta – ekki hlaupa inn

• Vertu áfram úti

• Ekki vera nálægt háum byggingum sem geta hrunið eða háum trjám

• Grjóthrun, skriður og snjóflóð geta fallið úr hlíðum og fjalllendi

• Raflínur geta verið hættulegar – varist að snerta þær

• Reyndu að komast á opið svæði þar sem byggingar þrengja ekki að

Ef þú ert að keyra bíl þegar þú finnur jarðskjálfta:
• Legðu bílnum og stoppaðu. Vegir og brýr geta skemmst í jarðskjálfta

• Hafðu sætisbeltin spennt

• Haltu kyrru fyrir í bílnum þar sem hann getur varið þig gegn brotum og braki sem fer af  stað í jarðskjálfta – hlustaðu á útvarpið, þar koma jafnan fyrstu upplýsingarnar um jarðskjálftann.

Forvarnir

Húsgögn
Festið skápa, hillur og þunga muni í gólf eða vegg. Hafið hjól sem eru á húsgögnum alltaf í læstri stöðu. Ef engin læsing er á hjólunum, setjið þá ramma utan um hjólin til að koma í veg fyrir að húsgögnin fari af stað í jarðskjálfta. Munið hins vegar að rammi eða læsing á hjólum kemur ekki í veg fyrir að húsgögn velti. Festið létta skrautmuni með kennartyggjó.

Lausir munir og skrautmunir
Stillið þungum munum ekki ofarlega í hillur eða á veggi án þess að festa þá tryggilega. Hægt er að nota kennarartyggjó til að tryggja að léttari munir færist ekki úr stað við jarðskjálfta. Þungur borðbúnaður og hlutir í neðri skápum, helst lokuðum.

Kynditæki og ofnar
Festið kynditæki og ofna. Kynnið ykkur staðsetningu og lokun á vatnsinntaki og rafmagnstöflu. Festið hitaveituofna tryggilega. Leki getur valdið miklu tjóni ef ekki er lokað strax fyrir vatnið. Sama gildir um frágang á þvottavélum og uppþvottavélum

Myndir, ljósakrónur
Festið myndir og ljósakrónur í lokaðar lykkjur.

Skápahurðir
Geymið þungan borðbúnað í neðri skápum / skúffum og setjið öryggislæsingar / barnalæsingar á skápahurðir til varnar að innihald þeirra falli út úr þeim.

Svefnstaðir
Fyrirbyggið að skápar, málverk, brothættir og þungir munir geti fallið á svefnstaði. Varist að hafa rúm við stóra glugga og hlaðna milliveggi.

Loft og gólf
Gangið vel frá niðurhengdum loftum og upphækkuðum gólfum.

Rúður
Byrgið fyrir glugga eða setjið öryggisfilmu á rúður til að koma í veg fyrir skæðadrífu glerbrota ef rúða brotnar. Látið rúm ekki standa undir gluggum ef hætta er á jarðskjálftum.

Tryggingar
Bætur Viðlagatryggingar Íslands á fasteignum eru miðaðar við brunatryggingar, sem eru skyldutryggingar.
Mikilvægt er að innbústryggingar sem eru frjálsar tryggingar, séu sem næst raunverulegu verðmæti innbús svo tjón fáist að fullu bætt.

Útvarp og tilkynningar
Hlustið á tilkynningar og fyrirmæli sem gefin eru í útvarpi. Gott er að hafa útvarp með langbylgju ef FM sendar detta út.

Símar
Þráðlausir símar duga skammt ef rafmagn dettur út, hafið því snúrusíma til vara ef hringja þarf eftir hjálp í neyð. Þá getur verið gott að eiga hleðslutæki til að hafa í bifreið. Sendu SMS í stað þess að hringja til að minnka álag í hamförum.

Eftir jarðskjálfta

Klæðist góðum hlífðarfötum
Farið í góða skó og hlífðarföt, ef glerbrot eru á gólfum eða brak að falla.

Neyðarkassinn
Náið í neyðarkassan, ef hann er fyrir hendi og ef þörf er fyrir hann.

Slys – Meiðsli
Athugið hvort einhver hefur slasast og ef þörf er fyrir aðstoð þá hafið samband við Neyðarlínuna í síma 1-1-2. 

Upplýsingar.
Reyndu að afla þér upplýsinga um jarðskjálftann, umfang hans og upptök á vef Veðurstofunnar og fylgstu með ráðleggingum almannavarna í fjölmiðlum.  Samfélagsmiðlar eru fljótir að taka við sér

Síminn virkar ekki
Ef ekki er hægt að ná í hjálp símleiðis, skal auðkenna slysstað með hvítri veifu. Síminn er öryggistæki og þegar neyðarástand hefur skapast getur álag á símkerfið leitt til þess að þeir sem þurfa á hjálp að halda ná ekki sambandi. Ef það er rafmagnslaust þá er oft hægt að ná sambandi með snúrusíma. Einnig getur verið gott að eiga hleðslutæki til að nota í bifreið. Sendu frekar SMS í stað þess að hringja til að láta vita af þér.

Lyftur
Notið ekki lyftur í háhýsum þar sem hætta er á að þær hafi skekkst. Látið yfirfara lyftur í kjölfar jarðskjálfta.

Neysluvatn
Drekkið ekki kranavatn fyrr en tryggt er að það hafi ekki mengast í jarðskjálftanum.

Vatnsleki -Rafmagn
Lokið fyrir vatnsinntak ef leki er óviðráðanlegur og slökkvið á aðalrofa í rafmagnstöflu ef húsið er skemmt.

Eldur – eldmatur
Athugið hvort eldur er laus og notið ekki opið ljós eða eld ef hætta er á að eldfim efni hafi hellst niður.

Rýming
Farið rólega út eftir skjálfta.  Mörg slys verða þegar fólk hleypur út í óðagoti eftir jarðskjálfta.  Gott er að vera vel klæddur ef yfirgefa þarf húsið, sérstaklega að vetri til.  Sjá Brottflutningur – Rýming.

Söfnunarstaður
Farið á fyrirfram ákveðinn söfnunarstað utanhúss og ráðfærið ykkur við fjölskylduna áður en næsta skref er tekið.

Bíllinn oft fyrsta skjólið
Munið að bifreið er oft fyrsta upphitaða skjólið sem völ er á og þar er oft útvarp.  Akið með fyllstu aðgát og athugið að vegir og brýr geta skemmst í jarðskjálfta. Munið eftir fjöldahjálparstöðvum í skólum.

Útvarp – tilkynningar
Hlustið eftir tilkynningum og fréttum í fjölmiðlum.  Farið eftir þeim fyrirmælum sem kunna að vera gefin. Gott er að hafa útvarp með langbylgju ef FM sendar detta úr.

Fallnar raflínur
Aldrei snerta fallnar raflínur.

Nágrannahjálp
Athugið hvort nágrannar ykkar þarfnist aðstoðar.  Munið, að ef margir slasast þá getur orðið bið á því að hjálp berist.

MUNIÐ:
Á neyðartímum er síminn öryggistæki
og skal einungis notaður í neyð.  Hafið símtöl eins stutt og hægt er eða sendið SMS!

Eftirskjálftar
Eftir jarðskjálfta fylgja jafnan eftirskjálftar.  Verið viðbúin slíkum skjálftum. Jarðskjálftar geta komið af stað skriðum, grjóthruni, flóðbylgjuum, stíflurofi, brunum og spilliefnaleka.

Myndir af skemmdum.
Ef mögulegt, takið myndir af skemmdum sem verða á húsnæði áður en farið er í viðgerð og gerið lista yfir það sem eyðileggst til að fá tjón bætt og haldið til haga kvittunum. Viðlagatrygging tryggir brunatryggðar eignir (skyldutrygging) gegn skemmdum vegna jarðskjálfta og innbú ef keypt hefur verið valfrjáls brunatrygging á innbúi.  Mikilvægt er að tilkynna tjón til Viðlagatryggingar eins fljótt og auðið  – sjá nánar á vefsíðu Náttúruhamfaratryggingu Íslands https://nti.is/. Tjónaskoðunarmenn á vegum Viðlagatryggingar þurfa að koma á vettvang til að meta tjón vegna jarðakjálfta.

Þjónustumiðstöðvar

Þjónustumiðstöðvar eru opnaðar þegar ljóst er að jarðskjálfti hefur áhrif á íbúa, byggð, umhverfi og eignir. Þar geta íbúar á áhrifasvæði skjálftans leitað aðstoðar.
Samkvæmt 14. gr. laga um almannavarnir nr. 82/2008 er ríkislögreglustjóra heimilt, þegar hættu ber að garði eða hún um garð gengin, að stofna tímabundið þjónustumiðstöð vegna tiltekinnar hættu eða hættuástands. Þjónustumiðstöðvar voru opnaðar á Selfossi og Hveragerði í kjölfar jarðskjálfta árið 2008. Þjónustumiðstöðin var starfrækt á Selfossi í Tryggvaskála til ársloka 2009, en starfstöðinni í Hveragerði var lokað 1. júlí 2008.

Spurningar og svör

Spurning 1: Til hvers á að krjúpa, skýla og halda?

Svar:  Ágæti þess að krjúpa, skýla og halda er í fyrsta lagi það að verjast fallandi hlutum sem geta komið ofanfrá í öðru lagi minnkar það líkur á að kastast til vegna skjálftans og í þriðja lagi gefur það viðkomandi tíma til að meta þá stöðu sem hann/hún er í.

  Spurning 2: Hver er ástæða þess að fara undir borð, það geta ekki allir gert. Til dæmis þeir sem hafa hamlaða hreyfigetu og geta ekki auðveldlega staðið upp úr stól hjálparlaust, hvað þá að fara undir næsta borð?

Svar: Fólk verður að meta viðbrögð sín með tilliti til getu sinnar og umhverfis. Það gæti hreinlega valdið meiðslum hjá fólki með hamlaða hreyfigetu að reyna að fara undir borð.  Það að fara undir borð varnar hinsvegar enn frekar því að fá í sig fljúgandi/fallandi hluti sem geta valdið slysi.  Þeir sem eiga þess kost að geta farið undir borð, krjúpa þar, skýla höfði og halda sér, þá eru þeir varðir eins og frekast er kostur innandyra.  Þeir sem hinsvegar geta ekki varið sig á þennan hátt, þurfa að grúfa sig niður (í rúmi eða stól) og skýla höfðinu með höndunum.

  Spurning 3: En að fara í dyragætt?  Fólk sem hefur brugðist við á þennan hátt og farið í dyragætt, hefur hreinlega fengið hurðina í andlitið, því hurðin hentist til og frá í skjálftanum.  Af hverju á að fara í dyragætt ef hætta er á að hljóta meiðsl af því að fá hurðina í sig?

Svar: Með því að staðsetja sig í dyragætt við jarðskjálfta þá ver viðkomandi sig fyrir fallandi hlutum úr tveimur áttum, það heldur flóttaleið opinni ef hurðagat skekkist í jarðskjálftanum því ef hurð er að stöfum og hurðagat skekkist er óvíst hvort hægt sé að komast út.  Eini gallinn við að staðsetja sig í hurðagati er sú að hurð getur farið að skellast til og frá og því lent á þeim sem í hurðargatinu stendur. Ef þessi leið er valin á meðan jarðskjálfti er viðvarandi er nauðsynlegt að vera meðvitaður um að hurðin getur farið að skellast. Mikilvægt að að hurðaropið sé í burðarvegg þar sem léttir veggir veita oft litla vernd.

  Spurning 4:  Ég skil alveg ástæðu þess að fara í „horn burðarveggja“, þar sem burður hússins er líklega bestur þar. Hinsvegar hef ég ekki hugmynd hvar burðarveggir eru heima hjá mér né í vinnunni. Hvernig kemst ég að því?

Svar: Skoðið teikningar húss ykkar. Ef þið eruð í vafa hvernig á að lesa út úr teikningunni, leitið þá sérfræðiaðstoðar til dæmis hjá húsasmíðameistara eða hjá byggingafulltrúa viðkomandi bæjar-/sveitafélags.  Nálgast skal upplýsingar um burðarveggi á vinnustað hjá atvinnurekanda.

  Spurning 5: Hvað með húsið sjálft. Hvernig get ég verið viss að það standist jarðskjálfta?

Svar:  Gott er að fá byggingafulltrúa til að taka út bygginguna með tilliti til burðarþols við jarðskjálfta, sérstaklega í eldri byggingum. Nýlegar byggingar á Íslandi eru teknar út af byggingafulltrúa sbr. Skipulagslög nr. 123/2010 og eiga því að standast allar þær kröfur sem gerðar eru til húsbygginga.

Hlutar af byggingu getur fallið af í jarðskjálfta. Því skal forðast að vera undir þeim stöðum þar sem hætta er á slíku.

Krjúpa – Skýla – Halda.
Viðbrögðin að halda ró sinni, krjúpa, skýla og halda er ekki trygging fyrir því að slasast ekki í kjölfar jarðskjálfta.  Það þarf meira til, eins og það að gera umhverfi sitt þannig úr garði að hlutir, húsmunir og annað lauslegt hreyfist sem minnst úr stað við jarðskjálfta. Hlutverk þess er tvíþætt.  Annars vegar minnka líkur á líkamlegu tjóni af völdum fallandi hluta og hins vegar minnkar það einnig líkur á tjóni á húsbúnaði við jarðskjálfta.

Það er ekki nóg að framkvæma forvarnir á heimili sínu. Það þarf einnig að gera það á öllum dvalarstöðum fjölskyldunnar og á vinnustöðum.  Fyrirtæki og stofnanir bera ábyrgð á að öryggi á vinnustað sé samkvæmt reglum þar að lútandi.  Atvinnurekendur þurfa að vera vakandi fyrir hættum sem geta leynst í umhverfinu.  Starfsfólk þarf einnig að vera vakandi gagnvart þessu.  „Hver er sinnar gæfu smiður“ á hér vel við.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum
Fréttir
Í gær

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla
Fréttir
Í gær

Dönsk stjórnvöld búa sig undir stríð – Hyggjast þvinga fólk til að gegna herþjónustu

Dönsk stjórnvöld búa sig undir stríð – Hyggjast þvinga fólk til að gegna herþjónustu
Fréttir
Í gær

Fullt hús á netöryggisráðstefnu Syndis

Fullt hús á netöryggisráðstefnu Syndis
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fjallar um fordóma gegn Baldri – „Hafa litlu mennirnir fengið háværari rödd?“

Fjallar um fordóma gegn Baldri – „Hafa litlu mennirnir fengið háværari rödd?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Yfirmaður á hjúkrunarheimili snýr til baka úr leyfi í skugga ásakana um áreitni við ungt starfsfólk

Yfirmaður á hjúkrunarheimili snýr til baka úr leyfi í skugga ásakana um áreitni við ungt starfsfólk