fbpx
Miðvikudagur 14.apríl 2021
Fréttir

Fjölmiðlum meinaður aðgangur að „Hlíðamáli“ Hildar Lilliendahl í Landsrétti – Fordæmalaus aðgerð segir Hákon skrifstofustjóri

Heimir Hannesson
Mánudaginn 22. febrúar 2021 11:03

Mynd (samsett) /Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Blaðamaður DV varð frá að hverfa úr dómsal Landsréttar eftir að dómvörður bannaði honum að taka sæti í dómsal. Málið sem til meðferðar var þennan morgun var meiðyrðamál þeirra Elvars Más Atlasonar og Sveins Rafns Eiríkssonar gegn Hildi Lilliendahl Viggósdóttir varðandi ummæli sem Hildur lét falla í kjölfar hins svokallaða Hlíðamáls.

Voru mennirnir tveir sagðir hafa átt aðild að kynferðisbroti í Hlíðunum. Þeir voru hins vegar aldrei ákærðir, og var rannsókn látin niður falla. Ríkissaksóknari staðfesti svo þá ákvörðun.

Hildur Lilliendahl Viggósdóttir í anddyri Landsréttar fyrir helgi. mynd/Sigtryggur Ari

Fréttablaðið birti þann 9. nóvember forsíðufrétt í prentaðri útgáfu blaðsins með fyrirsögninni: „Íbúðin var útbúin til nauðgana.“ Þegar fréttir bárust svo af því að mennirnir sem um ræddi yrðu ekki úrskurðaðir í gæsluvarðhald var boðað til mótmæla fyrir utan lögreglustöðina. Oddný Aradóttir var ein þeirra sem stóð fyrir utan lögreglustöðina og lét hún þar eftirfarandi ummæli falla, sem síðar voru dæmd dauð og ómerk:

 1. Það er ekki krafist gæsluvarðhalds yfir mönnum sem hefur í að minnsta kosti tvö mismunandi skipti tekist að nauðga konum.
 2. Ekki nóg með að þeir nauðgi þeim heldur gera þeir það kerfisbundið.
 3. Í bæði skiptin var bekkjarskemmtun hjá HR, í að minnsta kosti öðru tilfellinu var stúlkunni byrlað ólyfjan, þeir taka þær heim í íbúð til sín og þetta var gert í einhvers konar samstarfi. Planað á milli þessara tveggja manna.
 4. Að mér skilst var komið í veg fyrir þriðju nauðgunina.
 5. Þetta eru tveir menn sem hafa í að minnsta kosti tvö skipti tekist að nauðga, í eitt skipti var komið í veg fyrir nauðgunina, við vitum ekki hvað hefur gerst áður og þessir menn eru látnir lausir.

Hildur lét sín ummæli falla á Facebook:

„[…] þá gríðarlega alvarlegu aðför lögreglunnar að öryggi kvenna í Reykjavík að láta eiga sig að fara fram á gæsluvarðhald yfir körlum sem nauðga konum SAMAN svo yfirdrifið kerfisbundið að þeir hafa til þess sérútbúna íbúð.“

Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson, lögmaður mannanna sagði við DV árið 2019 að meiðyrðamálin væru fjölmörg, og að hann hefði sent út tugi kröfubréfa í umboði skjólstæðinga sinna. „Tilteknir fjölmiðlar báðust afsökunar á umfjölluninni og nokkuð margir einstaklingar sem einfaldlega viðurkenndu að þeir hefðu farið fram úr sér með […] skrifum og látið blekkjast af umfjöllun Fréttablaðsins um málið,“ sagði VIlhjálmur í samtali við DV.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson mætir hér í húsakynni Landsréttar. mynd/Sigtryggur Ari

Sjónvarpsstöðin Hringbraut var meðal þeirra sem dæmd voru til að greiða mönnunum bætur vegna ummæla. Þurfti stöðin að greiða þeim hvorum hálfa milljón króna. Hringbraut er í eigu Torgs sem jafnframt rekur vefinn DV.is. DV baðst afsökunar á fréttaflutningi sínum í málinu og gerðu aðilar sátt sín á milli.

Þær Hildur og Oddný voru dæmdar í héraðsdómi í júní 2019 fyrir ummælin sín og þurfa þær að greiða þeim samtals um 400 þúsund krónur í bætur.

Málinu var svo áfrýjað til Landsréttar sem tók málið loks til aðalmeðferðar í dómsal tvö í gær.

Dómsalur 2 í húsakynnum Landsréttar í Kópavogi. mynd/Ernir

Dómsalur 2 er samkvæmt teikningum sem aðgengilegar eru á vefsíðu Kópavogsbæjar, 56,3 fermetrar að stærð. Í salnum eru fjögur sæti fyrir áhorfendur. Þegar dómsalur var opnaður leiddi dómvörður vini aðila málsins, Hildar Lilliendahl inn í salinn þar sem blaðamaður var þegar staddur. Tóku vinir Hildar sæti og blaðamanni sagt að hann yrði frá að hverfa þar sem ekki væru fleiri sæti til staðar. Bar dómvörðurinn þar fyrir sig Covid-19 samkomutakmörkunum.

Boðað hafði verið til samstöðufundar fyrir utan Landsrétt þegar mál Hildar og Oddnýjar var tekið fyrir. Sá fundur varð eitthvað fámennari en vonir stóðu líklega til, en þessar fjórar mættu þó á köldum vetrarmorgni til þess að styðja við vinkonur sínar. mynd/Sigtryggur Ari

Í svari við fyrirspurn blaðamanns gat Hákon Þorsteinsson ekki svarað því hvaða reglum Landsréttur byggir í aðgerðum sínum, en ljóst er að Landsréttur gengur talsvert lengra í sóttvarnaraðgerðum en reglugerð heilbrigðisráðherra heimilar . Í reglugerðinni eru dómstólar „þegar þeir fara með dómsvald sitt“ veitt undanþága frá reglum um 20 manna samkomutakmörk og tveggja metra reglu. Hákon svaraði einungis: „[…] að öðru leyti eru fjöldatakmarkanir og nálægðarreglur viðhafðar í húsakynnum Landsréttar til samræmis við almennar reglur.“

Þá sagði Hákon að ætlunin hafi ekki verið að meina fjölmiðlum sérstaklega um aðgang að þinghaldinu og taldi réttinum ókleift að tryggja sóttvarnir með öðru móti. Hákon segir það jafnframt fordæmalaust að fjölmiðli sé vísað úr réttarsal vegna sóttvarnatakmarkana.

Málið hefur nú verið dómtekið og er því dóms að vænta í málinu fyrir Landsrétti á næstu vikum.

Spurningar blaðamanns DV auk svars Hákons má sjá í heild sinni hér að neðan.

 1. Markar framferði dómvarðar í morgun breytta stefnu Landsréttar í þessu málum?
  Ef ekki, hvernig útskýrir Landsréttur aðgerðir dómvarðar, og hver eru rök Landsréttar fyrir því að vísa fjölmiðlum úr dómsal?

 2. Á hvaða lagaheimild byggir Landsréttur þá ákvörðun sína að takmarka sætafjölda við fjóra? Ef þar er um að ræða reglugerð heilbrigðisráðuneytisins um samkomutakmarkanir, þá bendi ég á að takmörkin þar liggja við 20. Það stenst því enga skoðun að takmarka áhorfendasætin við fjögur í dómsal 2. Vek athygli á því að dómsalur 2 í húsi Landsréttar við Vesturvör 2 í Kópavogi er, samkvæmt grunnmynd samþykktri af Kópavogsbæ 56,3, fermetrar. Sér í lagi í ljósi þess að reglugerð um fjöldatakmörkun, gildir ekki um dómstóla, þegar þeir „fara með dómsvald sitt.“

  1. Ef það er skoðun Landsréttar að þeir séu að ganga lengra í að takmarka aðgengi að dómsölum en heimilað er með reglugerð um samkomutakmarkanir, hvernig réttlætir rétturinn þær aðgerðir?
 3. Er það skoðun Landsréttar að aðgengi fjölmiðla að opnum réttarhöldum sé mikilvægur þáttur í réttarríkinu, og ef svo, hvernig getur rétturinn réttlætt aðgerðir dómvarðar í morgun?

Svör Hákons Þorsteinssonar má sjá í heild sinni:

Starfsmaður Landsréttar vann að því að sóttvarna yrði gætt við þær aðstæður sem við búum við í dag. Vegna undanþágu dómstóla frá sóttvarnarreglum halda dómarar og starfsmenn réttarins ekki tveggja metra fjarlægð sín í milli við dómstörf, en að öðru leyti eru fjöldatakmarkanir og nálægðarreglur viðhafðar í húsakynnum Landsréttar til samræmis við almennar reglur.

Vegna aðalmeðferðar sem háð var því sem næst samtímis, þar sem margir málsaðilar og málflytjendur komu að, var stærri dómsalur sem rétturinn býr yfir upptekinn líkt og síðustu daga. Því voru aðalmeðferðir þeirra mála sem þú vísar til háðar í minni dómsal.

Málin sem þú ætlaðir að vera viðstaddur eru nátengd og því voru málsaðilar og lögmenn beggja mála viðstaddir þinghöld hvorra annarra. Þegar dómsalurinn var opnaður var málflytjendum beggja mála því ásamt málsaðilum og nánustu aðstandendum boðið inn í salinn líkt og rétturinn hefur tíðkað undanfarin misseri, en ljóst var að einhverjir sem mættir voru í dómhúsið þurftu frá að hverfa.

Ekki var ætlunin að meina fjölmiðlum sérstaklega um aðgang að þinghöldunum frekar en öðrum sem áttu ekki kost á að vera viðstaddir, en talið var ókleift að tryggja sóttvarnir með öðru móti en að framan greinir.

Mér er ekki kunnugt um að fjölmiðill hafi fyrr þurft að hverfa frá aðalmeðferðum í Landsrétti vegna þeirra sóttvarnarráðstafana sem rétturinn hefur þurft að grípa til og er það von Landsréttar að fjölmiðlar muni eftir sem áður, þrátt fyrir sóttvarnarráðstafanir, eiga gott aðgengi að þinghöldum fyrir réttinum.  

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Handtekinn eftir líkamsárás – Öskrandi og grátandi maður á svölum

Handtekinn eftir líkamsárás – Öskrandi og grátandi maður á svölum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Svarthöfði: Við erum öll almannavarnir, nema þeir sem sleikja smitkaðalinn

Svarthöfði: Við erum öll almannavarnir, nema þeir sem sleikja smitkaðalinn
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Allt sem þú þarft að vita um pilluna: Áhætta og ávinningur – Staðan á pillu fyrir karlmenn

Allt sem þú þarft að vita um pilluna: Áhætta og ávinningur – Staðan á pillu fyrir karlmenn
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Það vinsælasta í vikunni – Mest lesnu fréttir DV.is

Það vinsælasta í vikunni – Mest lesnu fréttir DV.is