fbpx
Miðvikudagur 26.janúar 2022
Fréttir

Skotárás á Egilsstöðum: Samtals 14 skotum hleypt af – Sagður hafa ætlað að drepa barnsföður kærustu sinnar – Skaut Toyota Hilux í spað

Heimir Hannesson
Mánudaginn 29. nóvember 2021 13:50

mynd/Gunnar Gunnarsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Héraðssaksóknari hefur birt ákæru yfir 43 ára gömlum karlmanni, búsettum á Egilsstöðum, vegna skotárásarinnar þar síðasta sumar. DV hefur ákæruna undir höndum.

Í ákærunni er árásarmaðurinn sagður fyrst hafa beint .22 kalíbera skammbyssu að sambýliskonu sinni og þannig hótað henni svo að hún óttaðist um líf sitt og heilbrigði.

Í framhaldinu er maðurinn sagður hafa farið heim til barnsföður sambýliskonu sinnar að Dalseli á Egilsstöðum og ruðst þar inn vopnaður Beretta A400Lite haglabyssu í þeim tilgangi að ráða húsráðanda þar bana. Barnsfaðir sambýliskonu árásarmannsins var hins vegar ekki að finna þar þetta kvöld. Þar heima fyrir voru þó tveir synir húsráðandans. Maðurinn er í ákærunni sagður hafa beint hlaðinni haglabyssunni að drengjunum, 12 og 14 ára gömlum. Drengirnir brugðust við með því að flýja út um svaladyr hússins og svo hlaupið inn í nærliggjandi skóg.

Árásarmaðurinn er þá sagður hafa hleypt af nokkrum skotum innandyra á heimili barnsföður kærustu sinnar og ollið þar þó nokkrum skemmdum. Samkvæmt ákærunni mun hann hafa eyðilagt skáp í eldhúsi, ísskáp og spegil, auk þess sem hann skaut í gegnum rúðu í eldhúsi og baðherbergishurð. Þá er hann loks sagður hafa farið út á bílastæði og skotið einu sinni úr haglabyssunni að 13 ára gömlum Toyota Hilux áður en hann dró svo upp skammbyssuna og hleypti sex skotum í viðbót af í bílinn.

Ákæran er í samtals fimm liðum. Fyrstu þrír snúa að meintum árásum, hótunum og skemmdarverkum þeim sem lýst er hér að ofan. Seinni tveir liðirnir varða aðkomu lögreglu að málinu.

Skaut að lögreglumönnum og hótaði með hlaðinni haglabyssu

Líkt og DV greindi frá í ágúst var lögreglan kölluð að Dalseli vegna skothljóða um hálf ellefu þetta örlagaríka fimmtudagskvöld. Þegar lögreglu bar að garði upphófst umsátursástand sem varði í um klukkustund áður en maðurinn hóf svo skothríð í átt að lögreglumönnunum sem svöruðu með sömu mynt. Svo fór loks að maðurinn var skotinn og særður af lögreglumönnum. Maðurinn var fluttur á sjúkrahús í Reykjavík með sjúkraflugi þar sem hann dvaldi um þó nokkra hríð áður en hann var fluttur í fangelsið á Hólmsheiði í gæsluvarðhald, þar sem hann er enn.

Litlar upplýsingar fengust í fyrstu um málið frá lögreglu. Í tilkynningu lögreglunnar á Austurlandi sagði einfaldlega: „Eft­ir um klukku­stund kom viðkom­andi vopnaður út úr hús­inu, skaut að lög­reglu og varð þá fyr­ir skoti.“

Í ákæru héraðssaksóknara er maðurinn ákærður fyrir tilraun til manndráps, brot gegn valdstjórninni, eignaspjöll og hættubrot vegna meintrar árásar sinnar að lögreglumönnum. Hann er sagður hafa skotið þremur skotum úr áðurnefndri haglabyssu í átt að lögreglumönnunum sem leituðu skjóls bak við ljósgráan Toyota Land Cruiser. Lentu höglin í bílnum og á framhlið hússins á bak við lögreglumennina. Skemmdist útveggjaklæðning, útidyrahurð, húsþak og þrjár rúður í húsinu. Sérstaklega er tekið fram að íbúi hússins sem varð fyrir skotum árásarmannsins hafi verið heima. „Með þessari háttsemi sinni stofnaði ákærði lífi og heilsu annarra í augljósan háska á ófyrirleitinn hátt,“ segir í ákærunni.

Risavaxnar bótakröfur hafðar uppi

Að lokum er maðurinn ákærður fyrir hótanir og brot gegn valdstjórninni með því að hafa undir áhrifum áfengis, skömmu eftir að hafa hleypt af skotunum í átt að lögreglumönnunum eins og lýst er að ofan, gengið að lögreglubifreið sem stóð kyrrstæð á götunni og hótað lögreglumanni sem hafði leitað vars þar bak við. Mun hann hafa beint hlaðinni haglabyssu að lögreglumanninum.

Saksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og til þess að sæta upptöku á skotvopnum og skotfærum í hans eigu.

Þá gerir sambýliskona mannsins, barnsfaðir hennar og forráðamenn barnanna tveggja kröfu um að maðurinn greiði þeim samtals 8,4 milljónir auk kostnaðar vegna starfa réttargæslumanns. Inni í þeirri tölu er skaðabótakrafa húsráðandans, barnsföðursins, við Dalsel þar sem árásarmaðurinn ollu miklu tjóni innanhúss.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt