fbpx
Sunnudagur 29.maí 2022
Fréttir

Fréttaskýring: Allt sem þú þarft að vita um ákærurnar gegn Donald Trump

Heimir Hannesson
Mánudaginn 11. janúar 2021 10:09

Trump er til rannsóknar vegna meints kosningasvindls.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Demókratar í neðri deild þingsins hyggjast í dag krefjast þess af Mike Pence að hann virki ákvæði fjórðu málsgreinar 25. viðauka stjórnarskrár Bandaríkjanna. Ákvæðið veitir ráðherrum og varaforsetanum rétt til þess að víkja forsetanum úr embætti sé hann ekki lengur líkamlega eða andlega hæfur til þess að gegna embættinu. Hvorki lögin né stjórnarskráin veita nánari skýringu á því hvað felst í orðunum „andleg eða líkamleg veikindi.“

15 ráðherrar sem tilteknir eru í lögum, auk varaforsetans, hafa rétt á að leggja fram tillögu um að víkja forsetanum úr embætti samkvæmt ákvæðinu. Meirihluti hópsins þarf að greiða atkvæði með tillögunni. Varaforsetinn hefur neitunarvald í málinu, enda fellur það um sjálft sig nema hann greiði atkvæði með tillögunni.

Nancy Pelosi sagði í gær að taki varaforsetinn það ekki að sér í krafti 25. viðaukans, myndi hún ákæra (e. impeach) forsetann. Ákæruferlið virkar þannig að þingmaður neðri deildarinnar leggur fram frumvarp um ákæru, (e. articles of impeachment). Neðri deildin þarf að samþykkja það frumvarp áður en efri deildin tekur við boltanum. Segja má að efri deildin gegni hlutverki dómstóls í ákæruferlinu. Hún fjallar um ákæruna eins og dómstóll myndi fjalla um sakamál og gilda þar álíka reglur og gilda í almennu réttarfari í Bandaríkjunum. Loks kýs svo efri deildin um málið. Aukinn meirihluta (2/3) þarf til þess að sakfella forseta og víkja honum úr embætti.

Búist er við að atkvæðagreiðsla um þingsályktunartillöguna þar sem aðgerða af krafist af hálfu varaforsetans fari fram strax í dag. Meiri óvissa er um hvenær og hvernig atkvæðagreiðslur í ákæruferlinu færu fram.

Þrír forsetar hafa verið ákærðir af neðri deildinni með þessum hætti, en enginn sakfelldur í efri deildinni. Andrew Johnson árið 1868, Bill Clinton árið 1998 og Donald Trump árið 2019. Richard Nixon sagði af sér árið 1974 þegar ljóst varð að hann yrði ákærður og að öllum líkindum sakfelldur.

Afhverju núna?

Nýr forseti tekur við 20. janúar kl. 12:00 og því ekki laust við að margir spyrji, hvers vegna ekki að leyfa honum að klára þessa 9 daga. Hann gerir nú ekki mikinn skaða úr þessu, eða hvað?

Fyrst og fremst eru margir í Washington hreinlega óttaslegnir yfir því hversu langt Trump virtist hafa gengið á miðvikudaginn í síðustu viku. Trump þykir bera beina ábyrgð á árásinni á þinghúsið og eftir því sem liðið hefur á vikuna hafa fjölmiðlar keppst við að birta myndbönd og ljósmyndir af árásinni sem sýnir að árásin var umtalsvert ofbeldisfyllri en virtist í fyrstu. Fimm létust í árásinni, þar á meðal einn lögreglumaður.

Í ljósi þessa eru margir hreinlega hræddir við upp á hverju hann tekur næst. Því hefur Nancy Pelosi til dæmis tekið skref í þá átt að takmarka getu Trumps til þess að fyrirskipa notkun á gereyðingarvopnum í vopnabúri Bandaríkjahers. Pelosi sagði sjálf að það þyldi enga bið að losna við Trump úr embætti.

Þá hafa aðrir bent á að pólitísk arfleið Trumps verði að markast af atburðum miðvikudags síðustu viku og til þess að tryggja að sú arfleið stimplist inn í sögubækurnar um alla tíð, verði að víkja Trump úr embætti.

Aðrir hafa bent á praktískar ástæður, en verði Trump sakfelldur missir hann til að mynda ýmis fríðindi sem fylgir því að vera fyrrverandi forseti.

Hann missir til dæmis milljón dollara ferðastyrk á ári og vernd leyniþjónustunnar út ævina eða þar til hún er afþökkuð. Donald Trump er milljarðamæringur sem rekur sína eigin einkaþotu, svo þetta ætti í sjálfu sér ekki að vera stórmál fyrir hann. Það sem gæti sviðið mest er að sakfelli efri deildin hann, mætti hann ekki bjóða sig fram aftur til opinbers embættis. Draumar hans um endurkomu árið 2024 yrðu þar með að engu. Einkar athyglisvert í þessu samhengi er sú lögskýring að aðeins einfaldur meirihluti nægi í efri deildinni til þess að hindra að viðkomandi fái að bjóða sig fram aftur.

Það er einmitt þessi möguleiki sem gæti vakið áhuga nokkurra þingmanna Repúblikana á því að kjósa með sakfellingu hans. Trump hefur að margra mati rústað Repúblikanaflokknum og hafa sumir líkt því yfir að borgarastyrjöld standi nú yfir innan flokksins, sér í lagi í kjölfar atburðanna í síðustu viku.

Hvað nú?

Sem fyrr segir eru 9 dagar eftir af kjörtímabili Trump. Næstu skref, eins og Pelosi hefur lagt þau upp, eru þá að neðri deildin tekur afstöðu til þingsályktunartillögu í dag. Afar ólíklegt er að Mike Pence bregðist við þeirri tillögu með þeim hætti sem þóknast gæti Pelosi og Demókrötum neðri deildarinnar. Því er við því að búast að frumvarp um ákæru verði lagt fram jafnvel á morgun, þriðjudag. Venjulega myndi sérstaklega skipuð þingnefnd fjalla um ákærufrumvarpið, en í ljósi aðstæðna er allt eins líklegt að þingið myndi samþykkja að senda það frumvarp beint í atkvæðagreiðslu hjá fulltrúadeildinni.

Efri deildin tæki þá við frumvarpinu í fyrsta lagi í lok þessarar viku. Þá er minna en vika eftir af kjörtímabili Trumps, og líklega aðeins þrír eða fjórir virkir dagar. Efri deildin er enn undir stjórn Repúblikana með sína 50 þingmenn. Demókratar halda 49 sætum í dag. Eftir kosningarnar sem fram fóru í Georgíu í síðustu viku er staðan 50/50. Þegar atkvæði falla jafnt öðlast varaforseti atkvæðisrétt. Búist er við að Georgíuríki staðfesti úrslitin í kosningunum í kringum 20. janúar. Þann dag tekur Kamala Harris við sem varaforseti Bandaríkjanna, því er ljóst að Repúblikanar munu hafa tangarhald á öldungadeildinni út kjörtímabil forsetans.

Færi svo að Demókrötum tækist að afgreiða málið og senda ákæruna til meðferðar hjá efri deildinni fyrir 20. janúar gætu Repúblikanar reynt að afgreiða ákæruna með hraði til þess að fella hana og forða sínum manni í Hvíta húsinu frá niðurlægingu á lokametrunum. Demókratar gætu þá reynt að tefja afgreiðslu málsins þar til þeir ná tökum á efri deildinni. Þó forsetatíð Trumps ljúki á meðan á málaferlum standi, þarf það ekki að þýða að málaferlunum ljúki. Efri deildin undir stjórn Demókrata gæti þannig klárað málaferlin um að víkja fyrrverandi forseta úr embætti og yrðu áhrifin af samþykkt hennar þá einfaldlega þau að forsetinn missi þau fríðindi sem honum eru tryggð í lögum um fyrrverandi forseta, og fengi ekki að bjóða sig fram aftur til embættis.

Á meðan upplifir forsetinn sig einangraðan, enda búið að banna hann af Twitter og Facebook. Á sama tíma hafa hans helstu bandamenn yfirgefið hann, ráðherrar í ríkisstjórn hans sagt af sér vegna óeirðanna og margir starfsmenn Hvíta hússins sagst ekki ætla að mæta eða hætt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Bandaríkjastjórn íhugar að senda sérsveitarmenn til Úkraínu

Bandaríkjastjórn íhugar að senda sérsveitarmenn til Úkraínu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Forsetinn vildi ekki hitta Gunnar vegna sómölsku kvennanna sem á að vísa úr landi

Forsetinn vildi ekki hitta Gunnar vegna sómölsku kvennanna sem á að vísa úr landi
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ákærður fyrir að reyna að koma fölsuðum peningaseðlum í umferð

Ákærður fyrir að reyna að koma fölsuðum peningaseðlum í umferð
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Þunguð kona sleppur við brottvísun að sinni

Þunguð kona sleppur við brottvísun að sinni