Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra ákvað að skipa Þorstein Gunnarsson í embætti formanns kærunefndar útlendingamála. Þetta kom fram í tilkynningu frá ráðuneytinu í dag en ekki eru allir sáttir með skipun Þorsteins í embættið.
Þorsteinn hefur undanfarið starfað sem staðgengill forstjóra Útlendingastofnunar en stofnunin hefur verið afar umdeild á þeim tíma sem hann hefur verið við stjórnvöllinn.
Sema Erla Serdar, baráttukona, framkvæmdastýra Æskulýðsvettvangsins og stofnandi Solaris, hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, verður seint talin vera mikill aðdáandi Þorsteins. Hún var því allt annað en sátt með skipun hans í embættið en um er að ræða stofnun sem er ein síðasta von þeirra sem hefur verið synjað um hæli hér á landi.
„Er ekki verið að grínast í manni hérna?! Maðurinn sem hefur rekið einhverja grimmustu & fólksfjandsamlegustu stefnu í málefnum flóttafólks síðan WWII verður formaður „óháðu“ nefndarinnar sem hefur verið allra síðasta von þolenda ofbeldis Útlendingastofnunar!“ segir Sema Erla í færslu sem hún birti á samfélagsmiðlinum Twitter.
Þá kemur Sema með dæmi um hvernig Útlendingastofnun hefur starfað í tíð Þorsteins. „Þessi maður sendi konu sem var komin 36 vikur á leið í flug úr landi. Hann svipti sirka 20 manns á flótta húsnæði, fæði og heilbrigðisþjónustu vikum saman,“ segir hún.
„Bæði metið ólögmætt-hann hélt ítrekað öðru fram. Seinna dæmi úrskurðað ólögmætt af kærunefnd. Nú á hann að stýra henni. Hver á að taka mark á henni?“
„Þetta gerir út um framfarir“
Í athugasemdunum við færslu Semu bendir kona á að Þorsteinn hafi verið að reka stefnu Áslaugar og Sjálfstæðisflokksins í útlendinga- og hælisleitendamálum undanfarið og að Áslaug hafi því skipað hann í embættið. „Kemur ekki á óvart að starfsmaður sem hlýðir stefnu yfirmanna sinna sé ráðinn. Breytist ekki nema með nýju fólki í brúnni,“ segir konan í athugasemdinni.
„Jú, veistu, ég bara neita að kyngja því að maður sem hefur staðið fyrir ólögmætum aðgerðum eins og að henda flóttafólki á götuna og svelta það sé verðlaunaður með þessum hætti,“ segir Sema við því. „Maður sem lýgur að skjólstæðingum sínum og almenningi, hótar þeim & kúgar. Þetta gerir út um framfarir.“