fbpx
Fimmtudagur 20.janúar 2022
Fréttir

„Ertu pussy eða?“: Gróft ofbeldismyndband í Kópavogi fer um sem eldur í sinu – „Hvað í fokkanum er hann að gera?“

Jón Þór Stefánsson, Máni Snær Þorláksson
Fimmtudaginn 26. ágúst 2021 12:40

Skjáskot úr myndbandinu

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

DV hefur undir höndum myndband sem sýnir hrottalegt ofbeldi sem átti sér stað á Dalvegi í Kópavogi. Þar má sjá fjölda ungra manna ráðast að einum manni og krefja hann um afsökunarbeiðni.

Myndbandið er í gríðarlegri dreifingu á samfélagsmiðlum og er afar hrottalegt. Þar má sjá að brotaþolinn er ítrekað kýldur í höfuð og skrokk, tekinn hálstaki, felldur og sparkað í hann liggjandi.  „Ertu pussy eða?“ segir ein stelpa í bakgrunni myndbandsins rétt áður en ofbeldið hefst. „Hvað í fokkanum er hann að gera?“ spyr síðan stelpa í bakgrunninum, ekki er víst hvort um sé að ræða sömu stelpuna eða einhverja aðra, en svo virðist vera sem ofbeldið komi henni á óvart.

„Veistu hvað þú gerðir? Veistu hvað þú gerðir?“ er hrópað á brotaþolann á meðan hann er beittur ofbeldinu. Ástæðan fyrir barsmíðunum liggur ekki fyrir en ofbeldismennirnir krefja brotaþolann ítrekað um afsökunarbeiðni á meðan þeir láta höggin dynja.

„Komdu með allan peninginn á þér, komdu með peninginn núna“

„Segðu fokking fyrirgefðu!“ heyrist reglulega á meðan brotaþolinn er barinn ítrekað. Að lokum biðst hann afsökunar en það stöðvar ekki ofbeldið heldur vilja árásarmennirnir fá pening frá brotaþolanum. „Komdu með allan peninginn á þér, komdu með peninginn núna,“ segir einn og heldur áfram að beita brotaþolann grófu ofbeldi.

Þá virðast árásarmennirnir reyna að setja þolandinn í skott sportbíls, en ekki sést almennilega hvort það hafi tekist. Er brotaþolinn reynir að komast undan hætta hinir ekki, og halda áfram að beita hann barsmíðum.

„Ekki svæfa hann, leyfðu honum að fara inn í bílinn. Hann er búinn að segja fyrirgefðu,“ heyrist í einum ofbeldismanninum.

Ekki náðist í lögreglu eða hlutaðeigandi aðila við vinnslu þessarar fréttar, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt