Andri Ólafsson hefur verið ráðinn upplýsingafulltrúi Landspítalans. Vísir.is greindi frá. Andri starfaði áður sem aðstoðarmaður og upplýsingafulltrúi rektors Háskóla Íslands og fyrir það starfaði hann sem samskiptastjóri VÍS. Hann hefur einnig mikla reynslu úr fjölmiðlum og hefur verið aðstoðarritstjóri 354 miðla, ritstjóri Íslands í dag og fréttastjóri Fréttablaðsins.
Styrr hefur staðið um upplýsingamál Landspítalans vegna yfirlýsinga samskiptastjórans Stefáns Hrafns Hagalíns þess efnis að stjórnendur spítalans ættu ekki að svara símtölum frá blaðamönnum heldur ættu slík samskipti að fara í gegnum samskiptadeildina.
Stefán er nú farinn í sumarfrí en í samtali við DV vill Andri ekki tjá sig sérstaklega um það. Hann sé einfaldlega að hjálpa stofnuninni á erfiðum tímum en ráðningin sé tímabundin, til þriggja mánaða.
„Ég er bara að koma inn til að hjálpa til í þrjá mánuði,“ segir Andri. „Landspítalinn er í fréttum daglega og það er mikilvægt að samskipti við fjölmiðla séu góð og ég ætla að reyna að efla fjölmiðlasamskiptin þann tíma sem ég er hérna,“ segir hann ennfremur.
Varðandi það hvort Andri muni stuðla að því að blaðamenn séu ekki að hafa samband við einstaka starfsmenn stofnunarinnar, segir Andri:
„Mönnum er bara frjálst að hafa samband við þá sem þeir vilja. Og það mega allir hringja í mig, ég er tilbúinn að aðstoða fólk við að afla upplýsinga um starfsemi spítalans.“
Andra líst mjög vel á starfið: „Þetta er mjög skemmtilegt verkefni.“