Tollgæslan hér á landi hefur lagt hald á að minnsta kosti átta sendingar af sjálfsprófum við Covid-19. Segir í frétt Fréttablaðsins um málið að sendingarnar hafi verið stílaðar bæði á einstaklinga og fyrirtæki, samkvæmt Tollgæslunni.
Fréttablaðið hefur þá jafnframt eftir Tollgæslunni að lagt hafi verið hald á prófin á grundvelli upplýsinga frá Lyfjastofnun og þar sem um smitsjúkdóm sé að ræða eigi greining að fara fram innan heilbrigðiskerfisins.
Sektum hefur þó ekki verið beitt, ennþá, og hefur þeim sem flutt hafa inn prófin verið boðið að endursenda vörurnar eða farga þeim og hefur öllum málunum verið lokið á þann veg, með tilheyrandi tjóni fyrir innflutningsaðilann.
Í gær breytti Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra Vinstri grænna, reglugerð á þann veg að sjálfspróf séu nú heimil. Kemur það aðeins degi eftir að Samtök atvinnulífsins lýstu yfir efasemdum um umrætt bann við sjálfsprófum.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði þá jafnframt í gær að honum litist illa á að heimila nýtingu sjálfsprófa, þar sem það gæti veitt falskt öryggi. Sjálfspróf eru heimil í allflestum löndum Evrópu, og fást fyrir lítið í apótekum allra Norðurlandanna.
Aukin þrýstingur hefur verið á Þórólf undanfarna daga að láta af harðri stefnu sinni í sóttvörnum hér á landi. Skrifuðu til dæmis bæði Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, greinar þar sem þau hvöttu Þórólf til þess að láta af stefnu sinni í beitingu sóttkvíar gegn börnum.