Brynjar Níelsson, lögmaður og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir ummæli hæstaréttarlögmannsins Gunnars Inga Jóhannssonar á RÚV í gærkvöld þar sem rætt var við Gunnar um mál Ingós Veðurguðs, en lögmaður Ingós, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, hefur kært til lögreglu birtingu nafnlausra reynslusagna um meint kynferðisbrot Ingós og sent fimm einstaklingum kröfubréf vegna fréttaflutnings um mál Ingós í fjölmiðlum og ummæli um hann á samfélagsmiðlum.
Í samtali við RÚV véfengdi Gunnar þá lýsingu Vilhjálms á þesssum atburðum að þar hafi dómstóll götunnar verið að verki. „Að setja fram ásakanir af þessu tagi byggist á tjáningarfrelsinu sem eru stjórnarskrárvarin réttindi. Fólk sem setur fram slíkar ásakanir er því í fullum rétti til þess að gera það,“ segir Gunnar. Hann sagði ennfremur:
„Ég held að það sé ekki rétt að kalla þetta dómstól götunnar. Þetta er einfaldlega umræða sem á sér stað um málefni sem á erindi við almenning.“ Þá segir í niðurlagi fréttar RÚV: „Segir hann að þeir sem hafi gagnrýnt rétt fólks til að setja fram ásakanir af þessu tagi og nýta sér tjáningarfrelsið ættu frekar að líta í eigin barm.“
Brynjar gerir því skóna að Gunnar sé væntanlegur verjandi þeirra sem hafa ýmist verið kærðir til lögreglu vegna mála Ingós og þeirra sem hafa fengið kröfubréf og eiga yfir höfði sér einkamál með háum skaðabótakröfum: „Ég ætla að leyfa mér að spá því að einhver þeirra, sem stórvinur minn, Villi Vill, hefur kært til lögreglu eða hótað málssókn, hafi leitað til þessa ágæta lögmanns um að gæta hagsmuna sinna.“
Brynjar undrar sig á orðum Gunnars og segir:
„Mátti helst skilja lögmanninn þannig að það væri ekkert athugavert við það einhverjir taki sig saman á samfélagsmiðlum eða öðrum miðlum og ásaki aðra um alvarleg refsiverð brot. Það sé bara hluti af tjáningarfrelsinu. Einnig hafnaði lögmaðurinn því að sakfellingar af þessu tagi ásamt þvinguðum viðurlögum, þótt engin rannsókn hafi farið fram eða viðkomandi fengið að verjast, hafi eitthvað með dómtól götunnar að gera. Ætli það sé vegna þess að götudómararnir eru ekki í skikkju eða með hárkollu? Eða vegna þess að viðurlögin eru ekki líkamsmeiðingar, frelsisvipting eða tjörgun og fiðrun? Hvaða háttsemi má ætla að falli undir hugtakið dómstóll götunnar hjá lögmanninum?“
Gefur Brynjar í skyn að Gunnar sé í raun í hagsmunagæslu þegar hann stígur fram sem óháður álitsgjafi í frétt RÚV.
Í viðtali við Fréttablaðið neitar Gunnar þessu. „Ég gæti ekki hagsmuna neins sem á aðild að þessu máli,“ segir hann.