Í gær greindust fimm einstaklingar smitaðir af COVID-19 hér innanlands. Allir fimm voru utan sóttkvíar.
Þrír þeirra eru fullbólusettir og tveir ekki bólusettir að fullu. Smitrakning stendur nú yfir og líklegt að á annað hundrað muni þurfa að fara í sóttkví vegna smitanna.
Samkvæmt tilkynningu almannavarna er ljóst að samfélagslegt smit er til staðar á landinu og því mikilvægt að allir fari varlega á næstu dögum og vikum – líka þeir sem bólusettir eru.
„Það er ljóst að það er samfélagslegt smit á landinu og því er gríðarlega mikilvægt að allir fari varlega á næstu dögum og vikum, líka þeir sem eru bólusettir því augljóst er að þeir aðilar geta áfram smitast af COVID-19. Sérstaklega er mikilvægt að farið sé varlega í umgengni við viðkvæma einstaklinga sem gætu veikst alvarlega af COVID-19 jafnvel þó að þeir séu bólusettir. Þau smit sem hafa komið upp undanfarna daga hafa tengingar við skemmtanalífið, stóra fjölskyldu- og vinaviðburði. Almannavarnir hvetja alla til að halda áfram að passa upp á einstaklingsbundnar sóttvarnir og fara í sýnatöku við minnstu einkenni, bæði bólusettir einstaklingar og óbólusettir.“
Almannavarnir minna einnig á rakningarappið sem getur hjálpað rakningarteyminu að rekja smit og segja má að sé í lykilhlutverki núna.