Það var nóg að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt þegar djammarar landsins fylltu miðbæinn. Þónokkrir voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.
Rétt eftir miðnætti var tilkynnt um innbrot í fyrirtæki í Hlíðahverfi og örfáum mínútum síðar barst lögreglu tilkynning um líkamsárás í miðbænum.
Það var ekki eina líkamsárás kvöldsins en rúmlega hálf tvö var tilkynnt um aðra slíka í miðbænum og stuttu fyrir það varð önnur líkamsárás í Kópavogi. Fyrr um daginn hafði lögreglu einnig borist tilkynningar um líkamsárásir í Hafnarfirði og Árbæ.
Rétt fyrir klukkan hálf fimm í nótt var einstaklingur handtekinn í miðbænum en hann var í annarlegu ástandi. Hann kastaði blómapott í lögreglubifreið og var vistaður í fangaklefa.
Klukkan rúmlega sjö í gærkvöldi rákust bifreið og rafskúta saman og lentu farartækin í smávegis tjóni en ökumenn fundu ekki fyrir eymslum.