Fjölskyldu og tónlistarhátíðin Kótelettan verður haldin á Selfossi nú um helgina. Kótelettan er nú haldin í ellefta skipti og er löngu orðin árviss viðburður.
„Það er mikil eftirvænting í loftinu og það stefnir í frábæra hátíð. Við urðum við að fresta Kótelettunni í fyrra vegna Covid og því má segja að það sé tvöföld spenna fyrir hátíðinni nú. Music Festival Kótelettunnar verður að venju haldin við Hvíta húsið á Selfossi með bæði úti- og innisvið. Hátíðin verður einstaklega glæsileg í ár þar sem frábær hópur tónlistarmanna stígur á stokk og ætti því enginn að láta þessa veislu framhjá sér fara. Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna í samstarfi við Mömmumat, SS og Kjarnafæði verður með sína árlegu sölu á kótelettum á laugardag milli kl 13-16 á Kótelettunni BBQ Festival og þar geta landsmenn nælt sér í ljúffengar kótelettur og styrkt gott málefni í leiðinni,“ segir Einar Björnsson, framkvæmdastjóri hátíðarinnar.
Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra verða sérstakir aðstoðargrillarar ásamt Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Oddnýju Harðardóttur, Guðna Ágústssyni og BBQ kónginum.
Hátíðin hefur aldrei verið glæsilegri að sögn Einars en hátt í 20 tónlistarmenn- og konur munu koma fram á tveim sviðum við Hvíta húsið á Selfossi. Páll Óskar, Bríet og Herra Hnetusmjör munu troða upp á tónlistarhátíð Kótelettunnar og auk þeirra þriggja munu Stuðlabandið, Sprite Zero Klan, Love Guru, GDRN ásamt hljómsveit, Jói Pé & Króli, DJ Rikki G auk fjölda annara stíga á stokk á hátíðinni. Þá verða markaðir starfræktir eins og áður á hátíðinni og mikil og góð barandagskrá þar sem Sveppi, Benedikt Búálfur, íþróttaálfurinn og Solla stirða stíga á stokk. Gestir á hátíðinni geta kynnt sér flottustu grillin og allt það besta á grillið frá íslenskum framleiðendum í sumar á Stóru grillsýningunni sem verður á sínum stað.