„Þetta er persónulegt áfall fyrir alla sem hér starfa,“ segir Eiríkur Orri Guðmundsson, stjórnarformaður Handlæknastöðvarinnar í Glæsibæ um mál Hannesar Þrastar Hjartarsonar, sérfræðings í háls- nef- og eyrnalækningum, en heilbrigðisráðuneytið staðfesti fyrir skömmu úrskurð Landlæknis þar sem Hannes er sviptur lækningaleyfi. Hannesi var gefið að sök að hafa framkvæmt fjölda óþarfra aðgerða og hafa gefið út efnislega ranga reikninga til Sjúkratrygginga Íslands fyrir aðgerðir.
Eiríkur tilkynnti sjálfur um framferði Hannesar til Landlæknis eftir að stjórn Handlæknastöðvarinnar höfðu borist kvartanir frá starfsfólki stöðvarinnar. Eiríkur segir aðspurður að hann hafi talið Hannes til vina sinna áður en þetta mál kom upp. „Ég hef ekki heyrt í honum lengi en síðast þegar ég heyrði í honum fór alveg vel á með okkur. Ég held að hann hafi ekki kennt mér um þetta heldur var hann bara hissa á að ég hafi gert það, en síðan skildi hann að mér var nauðugur einn kostur,“ segir Eiríkur.
Hannes Hjartarson er 68 ára gamall sérfræðingur í háls- nef- og eyrnalækningum. Hann hefur lengst af starfsævi sinni notið virðingar og talist vera mjög fær á sínu sviði. Hannes var einn eigenda Handlæknastöðvarinnar er Eiríkur Orri Guðmundsson réð sig þar til starfa árið 2013. Árið 2016 settist Eiríkur í stjórn stöðvarinnar og frá þeim tíma sat Hannes í varastjórn. Eiríkur segir að það hafi verið sjálfgefið að Hannes hætti í stjórninni þegar mál hans kom upp: „Við einfaldlega keyptum upp hans hlut í stöðinni og þá var sjálfhætt hjá honum.“
Tilkynning Handlæknastöðvarinnar til Landlæknis um Hannes laut annars vegar að því að hann hefði haldið því leyndu að Landspítalinn hefði sett hann í skurðstofuvinnubann í kjölfar veikinda hans í apríl árið 2019 og hins vegar að því að hann hefði „framkvæmt skurðaðgerðir án viðurkenndra ábendinga, skráð aðgerðir á rangan og villandi hátt og þannig gefið út rangar og villandi upplýsingar sem undirlag reikninga til Sjúkratrygginga Íslands,“ eins og segir í úrskurði heilbrigðisráðuneytisins frá 28. júní.
Í úrskurðinum eru rifjuð upp veikindi Hannesar frá því í apríl 2019 og sláandi atvik á Handlæknastofunni í kjölfar þeirra, en þá reyndi hann að framkvæma skurðaðgerð er hann taldist sjálfur vera óvinnufær vegna veikinda. Um þetta segir í úrskurði heilbrigðisráðneytisins (feitletrun er frá DV):
„…kærandi hafi veikst alvarlega 12. apríl 2019 þegar hann hafi fengið krampa og/eða yfirlið í móttöku sem hafi verið haldin fyrir starfsmenn Y. Endurlífgunartilraunir hafi farið fram á staðnum og hafi kærandi verið fluttur með sjúkrabíl á […] og lagður inn. Hafi kærandi mætt til starfa, m.a. skurðaðgerða, á Y sama dag og hann hafi útskrifast af X. Fram kemur að stjórnarformanni Y og læknum á Y hafi ekki verið ljóst fyrr en löngu síðar að trúnaðarlæknir X hefði metið kæranda óstarfhæfan á skurðstofum X vegna […], en kærandi hafi starfað bæði á Y og X. Á stjórnarfundi Y þann 2. desember 2019 hafi þrír læknar viðrað áhyggjur af starfshæfi kæranda vegna veikindanna. Er kærandi hafi mætt til starfa á Y hafi hann sagt svæfingalækni vera veikan og aðeins framkvæmt aðgerðir í staðdeyfingu. Hið rétta sé að umræddur svæfingalæknir hafi neitað að svæfa fyrir kæranda umræddan dag. Á fundi starfandi landlæknis með stjórnarformanni Y hafi komið fram að […]læknar hefðu lýst áhyggjum vegna tilvika þar sem þeir hefðu haft afskipti af sjúklingum kæranda. Vísbendingar hefðu komið fram um ófullnægjandi vinnubrögð af hálfu kæranda, en læknarnir hefðu orðið varir við að svokallaðar […]aðgerðir hefðu ekki verið rétt gerðar. Ekki hefðu sést ummerki um rétta ábendingu fyrir þeim aðgerðum sem skráðar hefðu verið auk þess sem aðgerð gæti varla hafa farið fram á þeim aðgerðartíma sem skráður hefði verið. Þá hefði kærandi gert aðgerð sem aðrir sérfræðingar hafi ráðið frá.“
Eftir tilkynningu til Landlæknisembættisins lagðist nefnd sérfræðinga yfir störf Hannesar og skoðaði 53 aðgerðir hans á tímabilinu 1. september 2019 til 30. nóvember sama ár og skiluðu skýrslu um athuganir sínar. Var það mat sérfræðinganna að hann hefði gert óeðlilega margar aðgerðir vegna tiltekins líkamsástand (sem er ekki tilgreint í úrskurðinum), en á framangreindu tímabili hafi hann framkvæmt 38 slíkar aðgerðir á meðan aðrir læknar á Handlæknastöðinni hefðu framkvæmt 0-2 slíkar aðgerðir. Meðal þeirra sem gengust undir óþarfa aðgerðir hjá Hannesi á þessu tímabili voru 15 ára stúlka og tveggja ára barn (kyn kemur ekki fram).
Það var mat sérfræðinganna að Hannes hefði brotið alvarlega gegn starfsskyldum sínum og taldi embætti Landlæknis að hann hefði framkvæmt ónauðsynlegar aðgerðir og stefnt sjúklingum þannig í hættu.
Eiríkur hefur engar skýringar á þessu framferði síns gamla félaga. Aðspurður hvort græðgi hafi ráðið för segir hann: „Mér er sagt af þeim sem þekkja hann best að hann hafi aldrei talist vera gráðugur maður.“ Eiríkur segir enn fremur að líklega teljist Hannes hafa verið hátt skrifaður læknir, sjúklingar hafi ekki kvartað undan honum og sjúklingar hafi ekki fengið óeðlilega marga fylgikvilla eftir aðgerðir hans.
Önnur skýring á dómgreindarleysinu gæti verið veikindi Hannesar sjálfs. Hann telur hins vegar úrskurð Landlæknis vera rangan og hefur réttlætt aðgerðirnar. Ástæðan fyrir því að mál Hannesar hefur komist í hámæli er sú að hann kærði úrskurð Landlæknis gegn sér til heilbrigðisráðuneytisins og ráðuneytið birti síðan úrskurð þar sem niðurstaða Landlæknis er staðfest. Landlæknisembættið tilkynnir vanalega ekki um starfsleyfasviptingar sínar en úrskurður ráðuneytisins er birtur opinberlega.
Í úrskurðinum er farið yfir andmæli Hannesar en hann mótmælir meðal annars þeirri niðurstöðu að hann hafi framkvæmt of margar aðgerðir:
„Kærandi gerir auk þess alvarlegar athugasemdir við forsendur og niðurstöðu ákvörðunar landlæknis, bæði hvað varðar þann hluta sem byggir alfarið á fyrrnefndri rannsóknarskýrslu og þann hluta sem varðar heimfærslu til lagaákvæða. Mótmælir kærandi því að hafa gert fjölda aðgerða án þess að ábending hafi legið fyrir aðgerð eða inngripum, eða að aðgerðatími hafi verið of stuttur. Þá mótmælir kærandi því að einhugur sé um þá nálgun sem fram komi í rannsóknarskýrslunni. Vísar kærandi til þess að embætti landlæknis hafi óskað eftir gögnum frá læknunum eftir að rannsóknarskýrslan hafi legið fyrir, en kærandi byggir á því að gögnin undirstriki að unnt sé að nálgast læknisfræðilega viðurkennt verklag við umræddar aðgerðir með mismunandi hætti. Kærandi hafi sótt sérhæfð námskeið í […]aðgerðum í Belgíu sem séu læknisfræðilega viðurkennd meðan skýrsluhöfundar aðhyllist aðferðafræði sem tíðkist í Bandaríkjunum. Að því er varðar umfjöllun embættis landlæknis um fjölda […]aðgerða telur kærandi að sú umfjöllun sé á misskilningi byggð. Fram kemur að […] hafi vísað fjölmörgum sjúklingum til kæranda sem útskýri fjölda aðgerða, en í ákvörðun landlæknis hafi ekki verið tekin afstaða til þessa atriðis, sem hafi grundvallarþýðingu.“
Handlæknastöðin hefur verið starfandi frá árinu 1984 við mjög góðan orðstír. Mál Hannesar er því gífurlegt áfall fyrir stöðina og allt starfsfólk hennar. „Við verðum að gera allt sem við getum til að nokkuð þessu líkt eða annað óeðliegt eigi sér stað hjá okkur aftur. Orðspor okkar allra er í húfi,“ segir Eiríkur.
Ekki tókst að ná sambandi við Hannes sjálfan við vinnslu fréttarinnar.