Maður sem handtekinn var hér á landi í apríl síðastliðnum og framseldur til Noregs hefur játað á sig tvær líkamsárásir sem hann var grunaður um aðild að. Morgunblaðið greinir frá.
Maðurinn, sem er 37 ára og af pólskum uppruna, var handtekinn á Íslandi eftir að hafa verið eftirlýstur um allan heim en honum var gefið að sök að hafa tekið þátt í tveimur líkamsárásum og mannráni. Í annarri árásinni var Petter Slengesol skilinn eftir með brotna fætur og handleggi og þurfti að sauma yfir 30 spor í andlit hans.
Sjá einnig: Meintur mannræningi handtekinn á Íslandi í dag – Frásögn fórnarlambsins vekur óhug
Aðrir sem tóku þátt í árásunum voru sumir handteknir en aðrir voru búnir að flýja land líkt og maðurinn sem fannst hér. Tveir hafa nú þegar verið dæmdir fyrir aðild að árásinni og er annar þeirra bróðir mannsins.
Réttarhöld yfir honum hefjast þann 4. október næstkomandi.