Íslandshótel og Securitas hafa gert með sér samning þess efnis að Securitas taki yfir öll öryggismál hótelkeðjunnar, sem er sú stærsta á landinu en um 500 manns starfa hjá keðjunni.
„Það er okkur mikil ánægja að vera treyst fyrir starfsemi Íslandshótela sem er með 17 hótel á sínum snærum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. Framundan er m.a. stækkun á Grand Hótel Reykjavík, ásamt því að ljúka byggingu nýs hótels miðsvæðis í Reykjavík og því næg verkefni framundan,“ segir Haukur Sörli Sigurvinsson sölustjóri hjá Securitas.
Samningurinn er gerður til næstu fimm ára og er um að ræða heildarsamning sem tekur á öllum öryggisþáttum og úttektum hótelkeðjunnar – það er vöktun, gæslu, og öryggisráðgjöf, ásamt tæknilegri þjónustu við keðjuna í heild.
„Við hjá Íslandshótelum erum ánægð með að samningur við Securitas er í höfn, en öryggismál eru mikilvægur hlekkur í daglegum rekstri hótelanna. Við gerum miklar kröfur um fagmennsku og gæði og teljum okkur hafa tekið farsælt skref í öryggismálum keðjunnar með þessum samningi, gestum okkar til heilla,” segir Hjörtur Valgeirsson framkæmdastjóri rekstrarsviðs Íslandshótela.