Skömmu eftir klukkan 17 var tilkynnt að bifreið hefði verið ekið á ljósastaur í miðborginni og síðan á brott. Lögreglumann stöðvuðu akstur ökumannsins skömmu síðar og reyndist hann vera í annarlegu ástandi. Hann sagðist hafa verið að tala í farsíma og hafi því verið utan við sig og ekið á staurinn. Hann var handtekinn og vistaður í fangageymslu.
Á öðrum tímanum í nótt sáu lögreglumenn þegar bifreið var ekið á umferðarmerki. Þegar þeir ætluðu að ræða við ökumanninn vildi hann ekkert við þá ræða og reyndi að komast undan. Við það ók hann utan í kyrrstæða bifreið og síðan á brott. Honum var veitt eftirför um götur Reykjavíkur og yfir í Kópavog þar sem akstur hans var að lokum stöðvaður og hann handtekinn. Hann er grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna.
Tilkynnt var um þrjú umferðaróhöpp á vaktinni. Engin slys á fólki.
Í austurhluta Reykjavíkur hafði lögreglan afskipti af fullorðnum manni í gærkvöldi en hann var að spreyja á biðskýli Strætó. Hann var kærður fyrir eignaspjöll.
Lögreglan hafði einnig afskipti af þjófnaðarmálum, ökumanni í annarlegu ástandi og manni sem er grunaður um hótanir.