Það er yfirleitt nóg að gera hjá lögreglunni um helgar þegar áfengisneysla dregur úr hömlum manna og þeir skella sér margir í miðborgina til að bregða fyrir sig dansskónum á sinni uppáhalds knæpu.
Ekki kunna þó allir fótum sínum forráð og fara heldur geyst um gleðinnar dyr. Fimm aðilar náðu ekki að komast til síns heima í gær áður en svefninn yfirtók þá og var lögregla kölluð út.
Á einum stað þurfti að kalla út lögreglu eftir að ráðist var á dyraverði og tilkynnt var um tvær líkamsárásir í miðborginni.
Lögregla hafði afskipti af níu ökumönnum sem grunaðir eru um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna og hafði einn þeirra ekið á vegg í Kópavogi.
Einn ökumaður í Mosfellsbæ ók bifreið sinni inn í garð en var flúinn af vettvangi er lögreglu bar að garði.