Í morgun greindi Fréttablaðið frá því að sýslumaður hafi sett lögbanni á lendingu þyrla Norðurflugs við eldgosið í Geldingadölum að beiðni landeigenda. Lögbannið gildir einungis um þyrlur Norðurflugs.
Sigurður Guðni Guðjónsson er lögfræðingur Norðurflugs og ræðir lögbannið á Facebook-síðu sinni í dag. Hann útskýrir hvers vegna það sé mikilvægt að þyrlur geti lent á svæðinu.
„Ekki geta allir komist fótgangandi að gosinu. Því hafa þyrluflugfélög og önnur flugfélög boðið ferðir. Þyrlur geta lent nálægt gígum og farþegar farið út og borið gosið augum með sama hætti og þeir sem hafa gengið eða hjólað,“ segir Sigurður en nú vilja landeigendur fá greitt fyrir lendingarnar.
Þeir krefjast 20 þúsund króna fyrir hverja lendingu en bjóða ekki fram neina þjónustu á móti. Sigurður bætir samanburði við en lending á Reykjavíkurflugvelli með fullri þjónustu kostar á bilinu 4.500-5.500 krónur.
„Eigendur Hrauns virðast líta á eldgos sem viðburð sem þeir geta selt inná án þess að þurfa að leggja neitt af mörkum og láta ríkissjóð og björgunarsveitir um öll útgjöld og eftirlit. Norðurflug hefur aldrei neitað að greiða fyrir að lenda á landi Hrauns að því gefnu að eitthvert vitrænt samband væri milli gjalds og þjónustu. Þannig er það ekki í dag,“ segir hann að lokum.