Edward Snowden, einn frægasti uppljóstrari heims, deildi frétt Stundarinnar sem fjallar um Sigurð Inga Þórarinsson. Í fréttinni er vakin athygli á því að Sigurður, sem einnig er þekktur sem Siggi hakkari, viðurkennir að hafa logið í máli gegn Julian Assange, stofnanda Wikileaks.
Sigurður Ingi er eitt af lykilvitnum í máli Bandaríska ríkisins gegn Julian Assange en Bandaríkin vilja fá hann framseldann til Bandaríkjanna, þar á hann yfir höfði sér allt að 175 ára fangelsi fyrir að leka leynilegum gögnum ríkisins í almenning. Sigurður sagði í samtali við blaðamann Stundarinnar að hann hafi logið í skýrslutöku vegna málsins.
Snowden deildi fréttinni á samfélagsmiðlinum Twitter en hann er afar vinsæll þar, um 4,7 milljónir manna fylgja honum á miðlinum. Uppljóstrarinn er á þeirri skoðun að þessi frétt Stundarinnar tortími málinu gegn Assange. „Þetta eru endalokin í málinu gegn Julian Assange“ segir Snowden í færslunni. Það eru þó ekki allir á sama máli í athugasemdunum við færsluna, sumir segja að Snowden sé að bulla og aðrir segja að Assange verði aldrei frjáls.
„Það er verið að nota hann til að senda skilaboð til allra annarra sem hugsa um að leka leynilegum gögnum,“ segir til að mynda ein kona í athugasemdunum.
Deiling Snowden hefur vakið töluverða athygli á Twitter en um 21 þúsund manns hafa líkað við tístið og rúmlega 7 þúsund manns hefur deilt því áfram.
This is the end of the case against Julian Assange. https://t.co/bhFCfVBuq0
— Edward Snowden (@Snowden) June 26, 2021