Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að frá og með 26. júní næstkomandi falli úr gildi allar takmarkanir á samkomum innanlands. Í þessu felst meðal annars fullt afnám grímuskyldu, nándarreglu og fjöldatakmarkana.
Reglugerðin fellur úr gildi á miðnætti og má búast við því að það verði þjóðhátíðarstemning niðri í miðbæ Reykjavíkur í kvöld. Blaðamaður er einn þeirra sem ætlar að kíkja þangað og hafði samband við Víði Reynisson til að athuga hvort möguleiki væri að rekast á hann.
„Ekkert þannig, ég er bara í fríi og að njóta þess. Þetta er góður dagur, ég ætla bara að taka því nokkuð rólega,“ sagði Víðir í samtali við blaðamann DV.
„Takk fyrir þetta og til hamingju með daginn“
„Takk, sömuleiðis,“ svaraði Víðir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í samtali við Morgunblaðið að hann ætlaði ekki í samkvæmi í kvöld. Hann ætlar þó að gleðjast með sínu fólki og vinum.
„Þetta er góður, skemmtilegur og ánægjulegur dagur en ég held bara áfram mínu lífi,“ sagði Þórólfur við Morgunblaðið.