fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Lagði á ráðin með móður sinni um að klína ofbeldinu á karlinn – Lögreglan í Vestmannaeyjum neitar að rannsaka málið

Heimir Hannesson
Sunnudaginn 13. júní 2021 09:30

Lögreglustöðin í Vestmannaeyjum. mynd/skjáskot google

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karlmaður sem kærði fyrrum eiginkonu sína fyrir rangar sakargiftir hefur kært ákvörðun Lögreglustjórans í Vestmannaeyjum um að fella rannsókn málsins niður til ríkissaksóknara. Von er á úrskurði þaðan á næstunni.

Ílok árs 2016 var maðurinn ákærður af lögreglunni í Vestmannaeyjum fyrir að hafa veist að konu sinni og veitt henni áverka og fyrir að hafa rassskellt son sinn. Var maðurinn ákærður fyrir líkamsárás og brot á barnaverndarlögum.

Í lok 2016 hringdi maðurinn í Neyðarlínuna og kvaðst hræddur um eiginkonu sína, sem hafði stormað út af heimili þeirra nokkru fyrr og ekið brott á bifreið þeirra. Skömmu síðar kom konan á lögreglustöðina, grátandi, og klædd í náttslopp og úlpu. Sagðist hún hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu mannsins. Kvað hún manninn hafa legið ofan á sér í rúmi þeirra og ýtt henni á bak rúmsins. Sagðist hún vera aum og sýndi lögreglu axlir sínar þar sem mátti sjá roða og marbletti að koma út. Myndir voru teknar af áverkum konunnar.

Maðurinn sagði við lögreglu það kvöld að hann hefði verið vansvefta þar sem konan hefði haldið fyrir sér vöku síðustu daga, en hann hefði rumskað við að hún stæði í dyragætt svefnherbergis þeirra haldandi á kertastjaka. Skömmu síðar hefði hún klætt sig í úlpu og stokkið út í bíl þeirra.

Maðurinn lagði þá jafnframt fram upptökur af samtali sem hann sagði vera á milli eiginkonu sinnar og móður hennar þar sem hún leggur á ráðin um að veita sér sjálfri áverka og saka manninn svo um heimilisofbeldi. Kemur meðal annars fram á upptökunum að hún telji sig geta haft hlut hans í húsi þeirra í skaðabætur upp úr krafsinu.

Svo fór að Héraðsdómur dæmdi manninn í 60 daga fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, og til þess að greiða konu sinni og barni samtals 300 þúsund krónur í skaðabætur.

Í nóvember 2018, tæpum þremur árum eftir atburðina, snéri Landsréttur þeim dómi við og sýknaði manninn. Segir í dómi Landsréttar að mikið ósamræmi hafi verið í framburði konunnar, bæði hjá lögreglu, fyrir héraðsdómi og loks fyrir Landsrétti, og að lýsing hennar á atvikum væri bæði óskýr og ónákvæm.

Þá sagði jafnframt í dómi Landsréttar að rannsókn lögreglu hefði verið að mörgu leyti gölluð, en engar myndir voru til af áverkum á fremri búk konunnar og því ekki hægt að álykta að um „gripáverka“ hafi verið að ræða, eins og Héraðsdómur Suðurlands hafði komist að. Enn fremur kom fram að það hafi verið mat réttarmeinafræðings sem skoðaði þær myndir af áverkum konunnar sem þó voru til, að marblettirnir væru á bilinu 1-24 klukkustunda gamlir. „Marblettirnir gætu ekki hafa myndast á fimm til tíu mínútum,“ segir í dómnum um mat réttarmeinafræðingsins. Konan sagðist sjálf hafa farið beint á lögreglustöð eftir árásina og hafa verið komin þangað á um 5 mínútum.

Segir í dómnum:

„Á meðal gagna málsins eru hljóðupptökur sem ákærði lét lögreglu í té við rannsókn málsins. […] Hinn 18. janúar 2016 ræddi [konan] við foreldra sína meðal annars um yfirvofandi skilnað sinn við [manninn] og um ágreining þeirra vegna eignaskipta. Hefur [konan] eftir vinkonu sinni, að ákærði ætti eftir að koma sér í klandur. Ekki væri hægt að senda hann úr landi þar sem hann væri með vegabréf  en hann  yrði rekinn úr íbúðinni enda ætti hann það skilið. Síðan sagði [konan] orðrétt: „Bara eitt orð frá mér, bara tilkynna marblett til lögreglunnar. Og svo búið! Ég ætla að gera þetta. Ég kæri hann. Helvítis skepna!“ Daginn eftir sagði hún foreldrum  sínum frá því að hún væri með frábæran lögmann og að ætlunin væri að taka húsið upp í miskabætur. Þá sagði hún að þetta hefði verið erfitt í byrjun þar sem hún hefði ekki þekkt kerfið og ekki kunnað tungumálið. Nú væri hún ekki hrædd við neitt. Hún kynni að tala, ætti marga vini, kynni á kerfið, hvert ætti að sækja og hvað skyldi gera.“

Maðurinn var, sem fyrr sagði, sýknaður í Landsrétti.

Í kjölfar sýknudómsins kærði maðurinn konu sína fyrir rangar sakargiftir til lögreglunnar í Vestmannaeyjum. Samkvæmt kæru mannsins til ríkissaksóknara mun lögreglan lítið hafa aðhafst í því kærumáli. Segir þar jafnframt að lögreglan hafi vanrækt að láta þýða upptökur mannsins af samtali konunnar við móður sína almennilega. Mun lögregla t.d. hafa notast við aðila sem ekki væri löggiltur þýðandi.

Þann 15. febrúar fékk maðurinn þær fréttir að lögreglan hefði fellt rannsóknina niður.

„Umbjóðandi minn telur að Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum hafi brugðist sér og ekki sinnt máli hans af sama krafti og máli kærðu,“ segir í kærunni sem lögmaður mannsins ritar. „Kveðst hann vel hafa fengið að finna fyrir því að lögregla sé ekki hlutlaus í máli þessu og hefur velt fyrir sér hvort það sé vegna þess að vinkona [konunnar], sem hún var hjá kvöldið sem hún bar [manninn] röngum sökum, er gift lögreglumanni sem starfi á lögreglustöðinni í Vestmannaeyjum.“

Í ljósi þess hve mjög málið hefur dregist í höndum lögreglu greip maðurinn til þess ráðs að höfða einkamál á hendur fyrrum eiginkonu sinni, til þess að tryggja að bótaréttur hans fyrndist ekki.

Sem fyrr segir hefur niðurfellingin nú verið kærð til ríkissaksóknara, þar sem málið er í vinnslu að því er heimildir DV herma. Ríkissaksóknari getur lagt það fyrir lögregluembættið í Vestmannaeyjum að það rannsaki málið að fullu eða jafnvel falið öðru embætti að ljúka rannsókninni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu