Á fyrsta tímanum í nótt var tilkynnt um innbrot í bifreið í Bústaðahverfi. Karlmaður var handtekinn á vettvangi og skömmu síðar voru karl og kona handtekin en þau voru farin af vettvangi þegar lögreglan kom þangað en fundust ekki fjarri vettvangi. Þau skildu bifreið eftir sem þau eru sögð hafa komið akandi á á vettvang. Fólkið er grunað um hylmingu og brot á vopnalögum og var vistað í fangageymslu.
Í Garðabæ var tilkynnt um innbrot og þjófnað úr heimahúsi. Húsráðendur voru að heiman um helgina og á meðan var brotist inn.
Á Heiðmerkurvegi í Hafnarfirði valt bíll á níunda tímanum. Engin slys urðu á fólki en flytja varð bifreiðina á brott með kranabifreið.
Á sjötta tímanum í gær hafði lögreglan afskipti af manni sem er grunaður um þjófnað úr verslun í Kópavogi. Vettvangsskýrsla var gerð. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem viðkomandi kom við sögu í þjófnaðarmáli.
Á sjötta tímanum í gær var ökumaður kærður fyrir of hraðan akstur en hann ók á 74 km/klst þar sem leyfður hámarkshraði er 30 km/klst. Hann á sekt og ökuleyfissviptingu yfir höfði sér.
Tveir ökumenn voru handteknir í gærkvöldi grunaðir um að vera undir áhrifum fíkniefna. Annar þeirra var staðinn að ítrekuðum akstri sviptur ökuréttindum.
Á tólfta tímanum var tilkynnt um umferðaróhapp og afstungu í Kópavogi. Lögreglan hafði afskipti af ökumanni og farþega í bifreið tjónvalds og eru þeir grunaðir um að hafa ekið undir áhrifum áfengis, að hafa ekið án gildra ökuréttinda, vörslu fíkniefna og að hafa ekki numið staðar og gert ráðstafanir við umferðaróhapp. Þeir voru vistaðir í fangageymslu.