fbpx
Þriðjudagur 13.maí 2025
Fréttir

Gífurlegur munur á eldsneytisverði eftir stöðvum – 51 króna munur á lægsta verði og hæsta

Erla Dóra Magnúsdóttir
Laugardaginn 20. mars 2021 18:00

Það er skotur á bensíni og dísil í Rússlandi þessa dagana. Mynd/Pixabay

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er gott að búa í Kópavogi, sagði Gunnar Birgisson fyrrverandi bæjarstjóri Kópavogs á sínum tíma. En nú mætti segja að það sé gott að búa í Garðabæ og Hafnarfirði ef þú ferðast um á einkabíl því þar má finna lægsta eldsneytisverð á landinu. Hins vegar er öllu verra að búa á Hrauneyjum á Suðurlandi því þar er hæsta eldsneytisverðið. Munurinn á milli lægsta eldsneytisverðs og þess hæsta er í dag tæplega 51 króna.

Álagningin mjög há

„Eldsneytisverð er í hæstu hæðum ef svo má að orði komast,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, um stöðuna á eldsneytisverði á íslenskum markaði í dag. Runólfur segir margt hafa áhrif á verðið.

„Þetta er vara á alþjóðamörkuðum og íslensku olíufélögin kaupa eiginlega öll af sama birgi og verðmyndunin á þessum markað, ef við tökum mið af nágrannalöndum okkar, tekur alltaf mið af þróun heimsmarkaðsverðs. Hitt er að bensín og dísilolía er háskattavara. Það sem myndar verðið er innkaupsverð, og síðan leggur íslenska ríkið skatta og gjöld á bensín – vörugjald, bensíngjald, flutningsjöfnunargjald og síðan bætist virðisaukinn við.

Álagningin hjá íslensku olíufélögunum er síðan há nema á örfáum stöðum sem eru nálægt Costco. Ástæðan fyrir því að verðið hefur verið að fara nokkuð ört upp undanfarið má líka sjá á heimsmarkaði. En álagningin er engu að síður mjög há. Af hverjum seldum lítra í marsmánuði, og þá er miðað við algengasta útsöluverð á bensíni, fara 55 prósent af lítranum í skatta til ríkissjóðs.“

Costco ferskur blær

Margir biðu spenntir eftir að bandaríski verslunarrisinn Costco næmi land hér á landi, en með versluninni fylgdi eldsneytisstöð sem býður upp á lægsta verð landsins á eldsneyti í dag. Runólfur segir Costco hafa verið ferskasta blæ á íslenskum olíumarkaði í lengri tíma. Það hafi þó tekið ár fyrir íslenskan markað að taka við sér í kjölfarið.

„Þá er það litla bensínstöðin, Atlantsolía, sem lækkar verð í Kaplakrika til að keppa við Costco. Ári seinna lækka þeir svo líka á stöð sinni á Sprengisandi. Þá fyrst tekur markaðurinn við sér og Orkan, Olís og seinna N1 hoppa á vagninn og lækka verð á stöðvum nærri Costco. Svo að þessi viðleitni til hressilegri samkeppni á markaðnum var mjög jákvæð en auðvitað sátu margir hlutar landsins eftir með þessi háu verð.“

Íbúar landsbyggðarinnar þurfa að kyngja því að eldsneytisverð þar er mun hærra en á höfuðborgarsvæðinu. Nema reyndar á Akureyri. Þá var það aftur Atlantsolía sem reið á vaðið.

Stór breyting á Akureyri

„Síðan í september í fyrra má aftur segja að Atlantsolía brjóti ísinn þegar þeir fara að bjóða upp á svipað lág verð og í Kaplakrika á einni stöð sinni á Akureyri. Innan sólarhrings voru öll hin félögin farin að bjóða lægra verð svo Akureyringar njóta líka góðs af tilkomu Costco þó það séu 400 kílómetrar á milli og það er mjög jákvætt.“

Hins vegar mega Suðurnesjamenn sæta því að eldsneytisverð þar á bæjum er afar hátt, þrátt fyrir nokkra nálægð við Costco. Nú stendur yfir undirskriftasöfnun á Suðurnesjum þar sem Suðurnesjamenn mótmælta háu eldsneytisverði og skora á olíufélögin að bregðast við. Runólfur bendir á að verðlagning eldsneytis sé frjáls á Íslandi og því geti olíufélögin boðið upp á ólík verð á stöðvum sínum.

Mótmæla eldsneytisverði Suðurnesjamennirnir Haukur Hilmarsson og Hannes Friðriksson sem standa fyrir áðurnefndri undirskriftasöfnun telja að olíufélögin haldi verðinu á Suðurnesjum uppi til að okra á ferðamönnum. Runólfur segist ekkert geta fullyrt um sannleiksgildi þeirra ásakana en bendir þó á áhugaverðan raunveruleika.

„Það var alla vega mjög áberandi, sérstaklega þegar túrisminn var sem blómlegastur, að þá gat sama olíufélagið boðið upp á umtalsvert lægra verð í Hveragerði og Selfossi en þeir gerðu á Suðurnesjum þó radíusinn væri svipaður. Svo það er ýmislegt sem styður þær kenningar, án þess að ég hafi meira fyrir mér en það.“

Runólfur segir að þó verðlagning sé olíufélögunum frjáls sé samt umhugsunarvert þegar það muni um 45 krónum á lægsta og hæsta verði hjá sama félaginu.

„Það er ekki langt á milli staða á höfuðborgarsvæðinu en með því að keyra einhvern auka kílómetra leggurðu á þig að borga 45 krónum meira eða 45 krónum minna hjá sama félaginu. Það er einhver furðuleg verðmyndun þarna, sérstaklega á þessum dýrari stöðvum.“

Sé miðað við 50 lítra tank myndi þá muna 2.250 krónum á að fylla bílinn.

Borgar sig fljótt upp

„Ég sá það í einhverjum miðli að þá sagði forstjóri hjá olíufélagi að ástæða þess að þeir væru með hærra verð en Costco væri sú að þeir gætu ekki rukkað meðlimagjald. En þú ert nú fljótur að taka þetta félagagjald í þessari háu álagningu á bensíni. Svo menn rukka heldur betur meira en það en bjóða enga auka þjónustu í staðinn.“

Runólfur bendir á að meðlimagjaldið í Costco (4.800 kr.) sé fljótt að borga sig upp bara með sparnaðinum sem fylgir lægra eldsneytisgjaldi. Þó svo að það geti verið eðlilegt að verðmunur sé á bensínlítranum hjá sama söluaðila sé erfitt að skilja þá vegferð sem olíufélögin á Íslandi eru á.

„Það er alveg eðlilegt að það sé hærra verð á stöðum sem eru langt úr alfaraleið, sem eru meira svona öryggisventlar. En almennt í þéttbýlinu, að það sé svona gríðarlegur verðmunur á milli sömu stöðva, það er mjög erfitt að skilja þá verðstefnu.“

Runólfur segir fólk í dag almennt meðvitaðra um bensínverð og sjáist það skýrt á því hversu mikið sé að gera hjá þeim söluaðilum sem bjóða upp á lægstu verðin og hvað það sé mun minna að gera hjá þeim sem rukka hærra gjald. Því telur hann að þróunin á næstunni verði í átt að lægra verði hér á landi og telur líklegt að hækkunarfasi heimsverðsins sé búinn í bili.

„Þessi öld olíunnar er enn við lýði þó að við sjáum fram á það að í komandi framtíð muni draga úr vægi olíu með orkugjafaskiptum,“ segir Runólfur.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Ísland í hringiðu risastórrar lögregluaðgerðar – 57 handteknir

Ísland í hringiðu risastórrar lögregluaðgerðar – 57 handteknir
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Ætla að byggja ofan á Sóltún með gamla fólkið inni – Skelfilegur hávaði mun valda heilabiluðu fólki miklum ótta

Ætla að byggja ofan á Sóltún með gamla fólkið inni – Skelfilegur hávaði mun valda heilabiluðu fólki miklum ótta
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þarf að endurgreiða meira en hálfa milljón vegna gróða eiginmannsins

Þarf að endurgreiða meira en hálfa milljón vegna gróða eiginmannsins
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Stálu í matvöruverslun, réðust á starfsmann og létu sig hverfa

Stálu í matvöruverslun, réðust á starfsmann og létu sig hverfa
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ólga vegna uppsagna í Þjóðminjasafninu – mikil reiði hjá hug-og félagsvísindafólki

Ólga vegna uppsagna í Þjóðminjasafninu – mikil reiði hjá hug-og félagsvísindafólki
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Fékk inni á gistiheimili en lendir aftur á götunni á morgun – „Ég vona að Sanna hafi ekki verið að segja ósatt“

Fékk inni á gistiheimili en lendir aftur á götunni á morgun – „Ég vona að Sanna hafi ekki verið að segja ósatt“