fbpx
Mánudagur 28.september 2020
Fréttir

Flókin amfetamínframleiðsla ryður sér til rúms á Íslandi

Heimir Hannesson
Sunnudaginn 9. ágúst 2020 08:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dómum fyrir umfangsmikla amfetamínframleiðslu hefur fjölgað mikið á fáum árum. Eru þeir talsvert harðari en dómar fyrir smygl á samskonar magni amfetamíns. Auk þessa eru uppi spurningar um hvar mörkin liggja á milli íblöndunar og framleiðslu.

Árið 1933 setti lyfjafyrirtækið Smith, Kline & French á markað í Bandaríkjunum nefúðann Benzedrine. Sala lyfsins var engum takmörkunum háð og fór salan vel af stað. Fljótlega komust notendur lyfsins á snoðir um aukaverkanir lyfsins, vellíðan, aukna athygli og meiri orku. Síðar fóru neytendur lyfsins að stunda það að brjóta pakkningar lyfsins og taka strimla sem þaktir voru virka efni lyfsins úr og kyngja í heilu lagi. Þannig hófst saga misnotkunar amfetamíns.

Amfetamín er stytting á „alpha(α)-methylphenethylamine“ og er ættingi metamfetamíns og MDMA. Amfetamín er kemískt [e. synthetic] efni og því ónáttúrulegt. Áhrif þess á mannslíkamann eru margs konar; það slær á þreytu, eykur orku, eykur athygli, slær á matarlyst og eykur vellíðan. Amfetamín er virka efnið í mörgum lyfseðilsskyldum lyfjum sem markaðssett eru víða um heim, til dæmis við síþreytu og athyglisbresti.

Saga amfetamíns er, sem fyrr sagði, býsna löng í Bandaríkjunum og á meginlandi Evrópu en eitthvað styttri hér á landi. Þannig segir til dæmis á vef SÁÁ að neysla amfetamíns á Íslandi hafi verið orðið vandamál á landinu á sjöunda áratugnum. Var þá amfetamíni og amfetamínskyldum lyfjum ávísað af læknum og þau lyf misnotuð.

Amfetamín var á þessum tíma ekki ólöglegt, en aðgangur að því engu að síður takmarkaður. Í reglugerð frá árinu 1966 kom fram að amfetamíntöflur skyldu vera í sjúkrakössum sjómanna, en það ákvæði var tekið út 1982 vegna tíðra innbrota í skip þar sem þjófar ásældust sjúkrakassana.

Samkvæmt greiningum SÁÁ náði neysla efnisins vissu hámarki á árunum 1985 til 1987 og féll svo örlítið þar til neysla þess jókst á ný á 10. áratugnum. Með tilkomu E-pillunnar jókst amfetamínneysla á ný, enda náskyld efni og neysla þeirra helst í hendur þó áhrif efnanna á líkamann séu ekki þau sömu. Árið 2009 lögðust 622 stórneytendur amfetamíns inn á Vog, eða um 38,6% sjúklinga það árið. Hefur hlutfallið og fjöldinn lítið breyst síðan.

Algengasta efnið í bókum lögreglu

Amfetamín, er sem fyrr sagði syntetískt, eða kemískt, efni og því framleitt úr öðrum efnum. Á fyrri árum var því smyglað hingað til lands í tilbúnu formi, þ.e. í formi hvíts dufts. Algengast er að smygla til landsins sterkum efnum og þynna þau svo út með íblöndunarefnum á leið sinni til neytenda. Íblöndunarefnin eru margs konar, þó mjólkursykur sé vinsælastur. Til dæmis var lagt hald á heilt tonn af mjólkursykri í tengslum við umfangsmikið amfetamínframleiðslumál árið 2008.

Af magni af haldlögðu efni að dæma er ljóst að amfetamín er langtum algengasta efnið í bókum lögreglunnar. Árin 2006-2008 voru til að mynda haldlögð um 90 kíló. Árið 2009 kom skútan Sirtaki til landsins með um 100 kíló af fíkniefnum, þar á meðal 55 kíló af amfetamíni. Svo hefur það gerst að haldlagning amfetamíns í duftformi hefur mikið dregist saman. Á móti hefur málum fjölgað talsvert þar sem amfetamín er flutt inn í formi amfetamínbasa, vökva sem er umbreytt í duft hér á landi.

Landhelgisgæslan veitti skútunni Sirtaki æsilega eftirför árið 2009. Slöngubátur hafði áður verið notaður til að sækja rúm 100 kíló af fíkniefnum í skútuna rétt sunnan við Papey. Þar af voru 55 kíló af amfetamíni. mynd/Anton Brink

Upphaf amfetamínframleiðslu á Íslandi

Árið 2008 ákærði lögregla tvo menn í tengslum við umfangsmikla framleiðslu amfetamíns í iðnaðarhúsnæði í Hafnarfirði. Voru þar að verki tveir menn sem kynnst höfðu á Litla-Hrauni þar sem þeir sátu inni hvor fyrir sitt brotið. Þegar lögregla skarst í leikinn höfðu mennirnir framleitt tæp 40 kíló af phenyl-2-nitropropane (P2PN), og þrjá og hálfan lítra af benzýl metýl ketón (P2P). Efnin, samkvæmt dómi í málinu, hefðu dugað til að framleiða 353 kíló af amfetamíni. Kom jafnframt fram í dómnum að búnaðurinn og uppsetningin hafi verið af mjög miklum gæðum og „búnaðurinn og efnin bent til aðkomu aðila með efnafræðilega þekkingu.“ Saga spíttframleiðslu á Íslandi var hafin.

2008 var reyndar afdrifaríkt ár í Íslandssögunni. Bankahrunið olli hruni íslensku krónunnar og var þar með erlendur gjaldeyrir dýrari auk þess sem aðgengi að honum var takmarkað með gjaldeyrishöftum. Hvoru tveggja hafði áhrif á íslenskan fíkniefnamarkað. Það vakti því talsverða athygli þegar verð á kannabisefnum hækkaði lítið sem ekki neitt. Svo virtist sem kannabisefnin væru ónæm fyrir gengishruni íslensku krónunnar og svo til eina innlenda neysluvaran hvers verð hækkaði ekki á verðbólgutímum. Þótti það gefa vísbendingu um að framleiðsla þeirra efna færi fram innanlands. Hassið, samþjappaða brúna leðjan, hvarf eins og dögg fyrir sólu og í staðinn kom grasið, marijúana. Árið 2008 voru rúm 233 kíló haldlögð af hassi á Íslandi. Það sem af er ári 2020 hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu haldlagt 33 grömm. 0,01% af því sem áður var.

Umbreyting amfetamínbasa einföld framkvæmd

Sterkar vísbendingar eru nú um að framleiðsla amfetamíns fari í meira mæli fram hér á landi. Framleiðsla amfetamíns er miklu flóknari en framleiðsla kannabisefna og krefst í öllum tilfellum þekkingar á efnafræði.

Framleiðslu amfetamíns hér á landi, má af dómum að dæma, skipta í tvennt. Annars vegar framleiðslu amfetamínbasa, en hráefnin í þá framleiðslu fást auðveldlega með löglegum hætti. Þó eru þau mörg eftirlitsskyld. Þannig voru það viðamikil kaup á þessum efnum og efnafræðibúnaði sem komu lögreglu á spor spíttverksmiðjunnar fullkomnu í Hafnarfirði. Hins vegar er það umbreytingin á amfetamínbasanum í tilbúið efni til neyslu í duftformi. Það krefst ekki sama tilstands og þekkingar.

Deildar meiningar eru reyndar um hvort þetta síðastnefnda sé í raun amfetamín framleiðsla. Þannig var fjallað um umbreytingu amfetamínbasa í amfetamínsúlfat, þ.e. amfetamín í duftformi, í nýlegum dómi. Sagði þar: „Ferlið felst í því að breyta amfetamínvökva í fast form og það er einfalt. Etanól er sett saman við amfetamínbasann og brennisteinssýru hrært hægt saman við þangað til þetta er orðið að leðju og þá sé koffein sett saman við.“ Einhver sprengihætta er á meðan brennisteinssýrunni er hrært saman við basann og því er henni hellt hægt út í. Enn fremur myndast talsverður hiti við blöndunina og því er þörf á kælingu. Í þessu máli var notast við þurrís í plastboxi með loki, en gat gert á lok til að koma fyrir potti. Potturinn var svo settur í gatið ofan í þurrísinn, og í honum blandaður basinn og brennisteinssýra. „Stundum brennur þetta eða hitnar mikið og þá þarf að hreinsa þetta og það er gert með kaffipokunum. Þeir eru til þess. Þetta er þá sett í kaffipokann og etanóli hellt yfir.“ Þegar hreina leðjan er klár er svo koffeini hrært saman við með hrærivél. Að þessu loknu er leðjan látin þorna þar til eftir stendur hvítt duft.

Þrátt fyrir að þessi „uppskrift“ kunni að hljóma eins og flókin efnafræði, er raunin sú að allt sem til þarf má nálgast auðveldlega á löglegan hátt, og uppskriftina er hægt að nálgast með einföldu „gúggli“. Það er þessi einfaldleiki og sú staðreynd að virka efnið er í raun og veru þegar til staðar í amfetamínbasanum í upphafi ferlisins, sem vekur upp spurningar um hvort í ferlinu felist í raun og veru „framleiðsla“ amfetamíns.

Efnahvörf eða framleiðsla?

DV tók nokkra lögmenn tali. Allir hafa þeir reynslu af málsvörn í amfetamínframleiðslumálum, og allir voru þeir á einu máli. Að breyta amfetamínbasa í amfetamínsúlfat er ekki framleiðsla á amfetamíni. Einn líkti því við að hita vatn og breyta því í gufu. Vatnið er vatn, hvort sem það er í fljótandi formi eða í gasformi. Dómstólar landsins eru þeim ekki sammála.

Þrír menn sem komu að umbreytingu amfetamínbasa í amfetamínsúlfat voru nýlega dæmdir í héraðsdómi til samtals 19 ára fangelsisvistar, einn í sjö ár, hinir tveir í sex ár hvor. Héraðsdómur mat útskýringar mannanna á því að um íblöndun hafi verið að ræða lítils. Landsréttur mildaði dómana og staðfesti niðurstöðu héraðsdóms að um framleiðslu hafi verið að ræða en ekki íblöndun.

En hvaða máli skiptir þetta allt saman? Ef amfetamínbasi er amfetamín og amfetamínsúlfat er amfetamín, er þetta ekki allt sama lögbrotið? Jú, en samt ekki. Víkur þá sögunni að dómstólum og lagabókstafnum.

Refsiramminn nýttur til hins ítrasta

Þremenningarnir voru í málinu fundnir sekir um að hafa brotið 173. gr. almennra hegningarlaga. Þar segir: „Hver, sem andstætt ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni lætur mörgum mönnum í té ávanaog fíkniefni eða afhendir þau gegn verulegu gjaldi eða á annan sérstaklega saknæman hátt, skal sæta fangelsi allt að 12 árum.“ Í annarri málsgrein ákvæðisins segir: „Sömu refsingu skal sá sæta, sem gegn ákvæðum nefndra laga framleiðir, býr til, flytur inn, flytur út, kaupir, lætur af hendi, tekur við eða hefur í vörslum sínum ávana- og fíkniefni í því skyni að afhenda þau á þann hátt, sem greint er í 1. mgr.“ Þarna er innflutningur, sala, dreifing, og framleiðsla lögð að jöfnu og allt sett í sama refsiramma hegningarlaga.

Lögregla við störf á vettvangi amfetamínverksmiðjunnar í Hafnarfirði árið 2008. Europol aðstoðaði lögregluna. MYND/LÖGREGLAN

Þar með er þó sagan ekki öll sögð, því dómstólar hafa í 12 ár, frá því fyrsta stóra amfetamínframleiðslumálið kom upp í Hafnarfirði, nýtt refsirammann sem þeim er gefinn í áðurnefndri 173. gr. hegningarlaga mun betur í tilfellum framleiðslu en í smyglmálum. Þannig hafa dómstólar metið það alvarlegri glæp að koma að framleiðslu efnis hér á landi en að smygla því eða selja það.

Löng hefð er fyrir því að þyngd dóma stjórnist af magni fíkniefna. Þannig má maður sem handtekinn er með kíló af efnum búast við þyngri dómi en sá sem gripinn er með 100 grömm. Jafnframt er litið til þess í smyglmálum hvort Amfetamín er selt í hvítu duftformi, en kemur nú orðið sjaldnast þannig til landsins. MYND/HARI skipulagning og fjármögnun hafi verið í verkahring þess sakfellda eða ekki. Þannig hafa til dæmis þeir sem bersýnilega eru burðardýr fengið vægari dóma. Samt eru dómar, líkt og áður sagði, þyngri ef um framleiðslu að ræða. Í áðurnefndu amfetamínbasamáli féll 7 ára fangelsisdómur fyrir fjögur og hálft kíló af amfetamíni auk framleiðslu á kannabisefnum. Sama ár féll dómur yfir mönnum sem smyglað höfðu um 40 kílóum af amfetamíni auk fimm til viðbótar af kókaíni. Voru þeir dæmdir í átta ára fangelsisvist. Fyrr í sumar féll svo annar dómur fyrir amfetamínframleiðslu. Var þar um að ræða amfetamínframleiðslu frá grunni. Sex einstaklingar voru í því máli dæmdir í samanlagt 22 ára fangelsi fyrir 4 kíló af amfetamíni.

Fjölgun framleiðslumála í dómskerfinu

Þegar litið er til mats dómstóla á alvarleika framleiðslu amfetamíns samanborið við smygl á amfetamíni er ekki úr vegi að spyrja hvers vegna menn taka þessa auknu áhættu. Enn þarf að smygla inn basanum, og við þá áhættu bætist svo tilstandið við framleiðsluna. Aðspurður hvað það er sem reki fólk af stað í þessa vegferð svarar Margeir Sveinsson hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að von um skjótan gróða sé það sem drífi menn af stað í þessa vegferð sem aðrar tengdar fíkniefnum.

Fjölgun hefur orðið á stórum framleiðslumálum segir Margeir og er það sjáanlegt í fjölda dóma. Aðeins 12 ár séu frá fyrsta stóra framleiðslumálinu, því í Hafnarfirði, og ljóst að amfetamín er í auknum mæli framleitt hér á landi. Segir Margeir að þróunin sé í samræmi við það sem sást í tengslum við maríjúanað í kjölfar hrunsins 2008. Enn fremur má sjá að haldlagt amfetamín á landamærastöðvum hefur minnkað með árunum, en haldlagt amfetamín hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu staðið í stað.

Aðspurður um hvað lögreglan telji sig vera að ná stórum hluta af efnunum í umferð segir Margeir það ómögulegt að segja nákvæmlega, en það er ekki nema brot.

Ísland ekki fíkniefnalaust

Eitt sé þó ljóst af þessu öllu saman. Ísland er ekki fíkniefnalaust land, og amfetamínið er enn risastór þáttur í vímuefnavandanum. Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi sagði við DV að örvandi efnin væru „stóra vandamálið“. Þau væru fyrirferðamest í fíknivanda þeirra skjólstæðinga, og fíkn í þau algeng meðal sprautufíkla. Ef skoðaðar eru tölur aftur í tímann sjást litlar breytingar þar á. Neysla meðal ungmenna hefur þó dregist saman, en að sama skapi hefur hlutfall þeirra sem neyta efna í æð aukist. Rímar það við orð Valgerðar um að tilfellin séu færri nú en alvarlegri, og amfetamínið í lykilhlutverki.

 

Þessi grein birtist fyrst í helgarblaði DV þar síðustu helgi. Fyrir upplýsingar um áskrift má senda tölvupóst á askrift@dv.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fimm ákærðir fyrir hrottalega líkamsárás á Suðurlandi – Rafmagnsrakvél í rass og rökuðu með hrossaklippum

Fimm ákærðir fyrir hrottalega líkamsárás á Suðurlandi – Rafmagnsrakvél í rass og rökuðu með hrossaklippum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Klám í grunnskólum í Reykjavík – Fimmtubekkingar skoða í símum sínum – „Þetta er úti um allt“

Klám í grunnskólum í Reykjavík – Fimmtubekkingar skoða í símum sínum – „Þetta er úti um allt“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Egypska fjölskyldan fær dvalarleyfi á Íslandi

Egypska fjölskyldan fær dvalarleyfi á Íslandi
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Dyr heimsins lokaðar Íslendingum

Dyr heimsins lokaðar Íslendingum