fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Ingileif á hundruð þúsunda útistandandi hjá SAS og þorir ekki að kaupa flugmiða hjá þeim til Íslands

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 14. júlí 2020 20:22

Ingileif Gísladóttir. Mynd: Skjáskot DR

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ingileif Gísladóttir, íslensk kona sem býr í Danmörku, var síðastliðinn föstudag í viðtali við ríkisútvarp Danmerkur, Danmarks Radio (DR), þar sem hún lýsti hremmingum sínum í samskiptum við flugfélagið SAS.

Ingileif, sem gift er dönskum manni og á með honum þrjú börn, keypti flugmiða fyrir alla fjölskylduna til Íslands en ætlunin var að hitta fjölskyldu hennar á Íslandi og verja með henni páskunum. Sem vænta mátti var mikil tilhlökkun fyrir ferðinni.

SAS felldi hins vegar flugið niður vegna kórónuveirufaraldursins. Þann 3. apríl sótti Ingileif um endurgreiðslu á flugmiðunum en núna, um þremur og hálfum mánuði síðar, bólar ekkert á endurgreiðslu. Upphæðin var tæpar 10 þúsund danskar krónur sem er nokkuð yfir 200 þúsundum íslenskum krónum.

Svo sorglega vildi til að faðir Ingileifar lést mjög óvænt um það leyti sem fjölskyldan hafði ætlað að hittast um páskana. Skipulögð hefur verið minningarhátíð um föðurinn sem á að fara fram í september en Ingileif sér ekki enn fram á hvernig hún á að komast til Íslands með fjölskylduna og kann lítt við þá tilhugsun að eyða miklum fjármunum í flugfargjöld þegar hún á alla þessa peninga útistandandi hjá SAS.

Ingileif fer yfir málið í viðtalinu við DR en hún veitti einnig DV viðtal vegna þess:

„Það var mjög erfitt að finna út úr því á heimasíðunni þeirra hvernig ætti að sækja um endurgreiðslu og þetta var töluvert flókið ferli. En við höfum bara fengið „auto-svar“ til baka þar sem er staðfest að við höfum sótt um greiðslu og við verðum að vera þolinmóð,“ segir Ingileif en frestur til endurgreiðslu flugfarmiða er sjö dagar eftir umsókn.

„Ég get alveg haft skilning á því að þetta dragist eitthvað, ég hefði verið til í að bíða í mánuð, en núna er þetta orðið meira en þrír mánuðir og ekkert bólar á greiðslu. Þetta er allt of langur tími.“

Ingileif bendir á að þetta séu töluverðir fjármunir fyrir venjulega fjölskyldu en hún starfar sem læknaritari.

Aðspurð hvernig hefði skipast til með útför föðurins segir hún að haldin hafi verið lítil útför í apríl þar sem aðeins nánustu aðstandendur voru viðstaddir. „Ég fór bara ein og komst naumlega heim í gegnum Stokkhólm, það var ótrúlega flókið en ég fékk undanþágu frá því að fara í sóttkví.“

Hvað varðar beint flugfar frá Kaupmannahöfn til Íslands þá eru bara tveir kostir í boði, SAS og Icelandair. Ingileif segir ekki koma til greina að kaupa hjá SAS og auðvelt er að skilja það. Hins vegar segist hún ekki heldur vera í rónni hvað varðar Icelandair, ef þeir myndu fella niður flugið ætti hún útistandandi fjármuni vegna farmiða hjá tveimur flugfélögum. „Ég hef heyrt um fólk sem er að lenda í miklum erfiðleikum við að fá endurgreitt hjá Icelandair vegna flugferða sem félagið hefur fellt niður.“

Annar möguleiki er að fljúga með Norwegian frá Osló en Ingileif hefur góða reynslu af því flugfari. „Þeir felldu niður flug hjá mér til London síðasta sumar, breyttu tímanum og buðu endurgreiðslu. Sú greiðsla kom eftir fjórar vikur.“

Dónaskapur hjá SAS

Svo vildi til að þegar blaðamenn DR tóku viðtalið við Ingileif þá náði hún loksins símasambandi við starfsmann hjá SAS. „En hann var afar hrokafullur og hreinlega dónalegur í símanum, svo dónalegur að blaðamennirnir frá DR sem heyrðu þetta voru steinhissa. Ég var sjálf mjög kurteis við hann.“

Eftir birtingu viðtalsins hjá DR hafði ókunnug kona samband við Ingileif og benti henni á leið sem felst því að sækja um aðstoð banka við að endurheimta féð. Hægt er að sækja um slíkar greiðslur hjá bönkum þegar vara sem greitt var fyrir hefur ekki fengist afhent. Umsóknarferlið tekur sex virka daga og alls óvíst er hvort bankinn fellst á beiðnina.

Þrátt fyrir þessar hremmingar ber Ingileif sig vel en hún hefur átt gott líf í Danmörku þar sem hún hefur búið í 20 ár. „Já, þann 1. ágúst verða liðin 20 ár síðan ég flutti til Danmerkur og ég hef einmitt verið að hugsa um að halda þá veislu til að fagna því.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“