fbpx
Föstudagur 14.ágúst 2020
Fréttir

Íbúar í Rimahverfi kvarta enn yfir „ofbeldis“ólykt – Stybban sögð rýra verðgildi fasteigna

Heimir Hannesson
Föstudaginn 10. júlí 2020 13:33

mynd/reykjavik.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Talsverðar umræður urðu til á íbúahóp Rimahverfis á dögunum um megna ólykt sem berst frá iðnaðarsvæðinu vestan við hverfið í Grafarvogi. Er þar um að ræða moltugerð fyrirtækisins Íslensku gámaþjónustunnar, Sorpu og Gæðamoldar. Um 800 metrar eru frá starfseminni að næsta íbúðarhúsi og segja íbúar að í logni og vestanátt sé stybban slík að ekki sé hægt að opna glugga.

Einn íbúi sem DV ræddi við kallaði sig „þolanda þessa ofbeldis,“ og vísaði í lyktmengandi starfsemi Íslenska gámafélagsins. „Ég er orðin frekar pirruð á þessu, það byrjaði að bera á þessu 2017 og við erum margbúin að hringja í bæði Sorpu og Gámafélagið og allir benda þeir hver á annan.“ Annar íbúi lýsti þessu sem úldinni fiskilykt í fyrri færslu á Facebook hópnum. „Þetta er bara eins og að búa á sorphaugunum í vestanáttinni,“ sagði íbúinn við DV.

Segja lyktina rýra verðgildi eigna sinna

Íbúar deila reynslusögum sínum af ólyktinni á Facebook síðunni um þessar mundir og eru þar dæmi um íbúa sem hafa þurft að flýja heimili sín vegna ólyktarinnar. „Frekar leiðinlegt þegar veislugestir mínir flýðu inn [af pallinum] vegna lyktarinnar,“ segir einn íbúinn. Íbúar í Stararima, Viðarrima og alveg suður að Hrísrima hafa kvartað yfir lyktinni. Segja íbúarnir ólyktina rýra verðgildi eigna sinna og eru uppi áform um að stilla saman strengi sína gagnvart borginni og fyrirtækjunum sem hafa hingað til gefið lítið fyrir áhyggjur og kvartanir íbúa, að þeirra sögn.

Aðeins eru um 800 metrar frá iðnaðarstarfseminni vestan við Rimahverfið í húsin við Stararima. mynd/skjáskot map.is

Í janúar 2019 ákvað Skipulagsstofnun að jarðgerð Íslenska gámafélagsins skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum og var sú ákvörðun kærð til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Í meðferð málsins hjá Skipulagsstofnun leitaði stofnunin umsagna hjá Reykjavíkurborg, Heilbrigðiseftirliti borgarinnar og Umhverfisstofnunar. Borgin segir í umsögn sinni að framkvæmdin ætti að gangast undir mat á umhverfisáhrifum. Magnið sem er þar unnið sé fimmfalt það sem áður var. Ennfremur segir borgin:

Einnig gætu aukin umsvif aukið hávaða á svæðinu, m.a. vegna kurlunar timburs og annarrar starfsemi tengdri vinnslunni. Vinnsla lífræns úrgangs laði að fugla og meindýr og óljóst sé hvort það að hylja hauginn með timburkurli nái að halda dýralífi frá, t.d. á meðan múgunum sé snúið. Nýlegt deiliskipulag fyrir hluta af Gufunesi liggi fyrir. Uppbygging sé framundan á svæðinu, m.a. með fjölgun íbúða, en ekki sé vitað hvenær hún hefjist. Ekki fáist séð að aukin umsvif með lífrænan úrgang á svæðinu, umfram það sem nú sé, fari saman við þá uppbyggingu.

Úrskurðarnefndin staðfesti ákvörðun Skipulagsstofnunar og lauk þar málinu.

Athuguðu ástandið með nefinu

Íslenska gámafélagið sagði við meðferð málsins að hægt yrði að setja upp úðunarkerfi yfir hrúgurnar á svæðinu til að hægt verði að úða lyktareyðandi emsímum yfir þær. Jón Frantzson, forstjóri Íslenska gámafélagsins segir við DV að þetta hafi nú verið gert. „Við erum komnar með vélar, nokkurskonar blásara, sem úða þessum ensímum yfir og eiga að eyða lykt.“

Jafnframt segir Jón að honum hafi borist kvörtun í gær vegna lyktar. „Við fórum strax í að athuga hvort lyktin gæti verið frá okkur, það er jarðgerð frá fleiri stöðum en okkar og ekki víst hvort lyktin sé okkar. Við fórum hérna út og athuguðum okkar starfsemi með nefinu, enda ekki önnur tæki og tól til.“ Jón

Íslenska gámafélagið er með leigusamning við borgina út 2022. Aðspurður hvað Íslenska gámafélagið hyggst gera að þeim tíma loknum segir Jón að félagið hafi þegar hafist handa við flutninga. „Við erum að flytja,“ segir Jón.“ Við flytjum stærsta hlusta starfseminnar upp á Esjumela. Við erum að fara að byggja þar stórt hús og mun starfsemin flytjast þangað.“ Jón segir þó að ekki sé ljóst hvert og hvenær moltugerðin fer, en ljóst sé að hún mun einnig flytja.

Alltaf til í að ræða við íbúa

Jón hafði ekki heyrt af umræðunum á Facebook en bendir á að hann og fyrirtækið sem hann stýrir séu alltaf tilbúin til þess að ræða við íbúa. Gefur hann dæmi um að hann hafi sjálfur mætt á íbúafundi og fyrirtækið haldið Grafarvogsdag þar sem Íslenska gámafélagið hitti íbúa Grafarvogs. Jón segist vel tilbúinn til þess að halda því samtali áfram. Aðspurður hvenær hann væri tilbúinn til þess að ræða við íbúa á íbúafundi svarar Jón einfaldlega: „Það þarf bara að óska eftir því.“

„Við höfum alltaf verið til taks í að mæta á fundi og segja okkar sögu og ræða við íbúa. Við værum líka til í að taka á móti fólki hér og fara eftirlitsferðir. Þetta er að vísu vinnusvæði og það þyrfti að skipuleggja svoleiðis heimsóknir í kringum menn, tæki og tól og þá vinnu sem hér fer fram, en það væri alveg sjálfsagt,“ sagði Jón Frantzson.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum
Hundur beit barn
Fréttir
Í gær

Telur að reykingabann mundi ekki „spila stóra rullu“

Telur að reykingabann mundi ekki „spila stóra rullu“
Fréttir
Í gær

Þórólfur leiðréttir misskilning – Segir að við þurfum að lifa lengi með veirunni

Þórólfur leiðréttir misskilning – Segir að við þurfum að lifa lengi með veirunni