fbpx
Fimmtudagur 27.janúar 2022
Fréttir

„Ég er fyrir löngu búinn að meika það“

Íris Hauksdóttir
Miðvikudaginn 26. febrúar 2020 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stefán Jakobsson á glæstan feril að baki sem tónlistarmaður en hann steig sín fyrstu skref í átt að stóra sviðinu þegar hann keppti fyrir hönd Verkmenntaskólans á Akureyri í Söngkeppni framhaldsskólanna árið 2003. Hann segist finna fyrir frægðinni á jákvæðan hátt þótt hann hætti aldrei að moka skurðinn. Stefán, ásamt hljómsveitinni Dimma, mun spila í úrslitum Söngvakeppni sjónvarpsins sem fram fer næstkomandi helgi.

Stefán ólst upp á miklu átakasvæði en hann fæddist á sjúkrahúsinu á Húsavík árið 1980 í miðjum Kröflueldum sem stóðu frá árinu 1975 til 1984. Hann er hins vegar Mývetningur í húð og hár, hefur enda búið þar stærstan hluta ævi sinnar.

„Ég tengi vel við það sem Grindvíkingar eru að upplifa núna. Ég man eftir þessu öllu, bæði látunum, gosbjarmanum og lyktinni. Þegar ég var fjögurra ára ókum við pabbi, systir mín og Hinrik afabróðir á gulri Lödu Sport sem afi minn átti og fylgdumst með gosinu í nokkurra kílómetra fjarlægð, sem var mögnuð upplifun. Á þessum tíma voru leiðbeiningar í öllum húsum um hvernig best væri að yfirgefa híbýlin og hvað maður átti að gera ef til kastanna kæmi. Mér fannst tilhugsunin um flótta mjög spennandi og hafði áætlað að grípa með mér bangsann minn og Súperman-sængina, en með hana yrðu mér eðlilega allir vegir færir. Síðar meir spurði ég föður minn hvernig hann hefði upplifað þessa tíma og hann viðurkenndi þá að stöðug óvissa hefði sannarlega sett sitt mark á líf fólksins í kring, sérstaklega í fyrstu þegar fólk vissi ekki hvort umbrotin myndu færast nær eða fjær byggðinni.“

Á þessum tíma sótti ungt fólk mikið á landsbyggðina enda atvinnutækifærin þar að finna. Stefán segir meðalaldur í sveitinni hafa verið tiltölulega lágan í hans uppvexti og í minningunni hafi ríkt mikið frjálsræði, en gott innra eftirlit.

„Þarna er meirihluti ábúenda að dansa í kringum þrítugt enda kísilverksmiðjan að gefa góð störf. Fólk sá tækifæri í því að flytja út á land enda heillavænlegt að hafa ungt fólk til staðar ef þú vilt byggja upp samfélag. Það var mikið djamm á þessu fólki og við krakkarnir gengum meira og minna sjálfala þarna, sérstaklega á sumrin. Maður var bara klipptur að vori, klæddur í föt og svo sagt: „sjáumst í haust“ – liggur við. Sveitin byggðist upp á samstöðu, þetta fólk reisti plássið upp og lagði mikið á sig við að gera allt sem best. Íþróttafélagið stóð og féll með þjálfun foreldranna og náði frábærum árangri af ekki stærra samfélagi. Við vorum til að mynda með fjórða besta sundliðið á landinu og eigum í dag afreksfólk í mörgum greinum, bæði íþróttum og öðru. Ég held að það sé að mörgu leyti tilkomið vegna sjálfstraustsins og samstöðunnar í samfélaginu, en fólk var almennt mjög duglegt að hjálpast að. Þótt við séum í dag einungis um fimm hundruð talsins er þetta sem ein stór fjölskylda og þar þekkjast allir. Auðvitað er það tvíeggjað sverð því það er gott að fólk viti mikið um þig en á sama tíma slæmt ef þú ert ekki góð manneskja. Að mínu mati eru kostirnir alltaf mun fleiri.“

Mynd: Eyþór Árnason

Stefán vissi snemma hvert leið hans skyldi liggja, en segir á sama tíma að það hafi talist ansi háleit markmið fyrir lítinn sveitastrák að stefna á stóra sviðið.

„Það voru í raun tvö atvik sem fengu mig til að trúa því að ég gæti orðið tónlistarmaður. Ég hafði spilað aðeins í gítarpartíum og var trommuleikari í hljómsveitinni Vírus í innra eyra, en einhverju sinni veiktist söngvari sveitarinnar og ég leysti hann af. Eftir tónleikana kom til mín maður sem hvatti mig til að tromma minna en syngja meira. Hann átti engra hagsmuna að gæta og ég tók þess vegna mark á honum. Hitt atvikið var þegar ég söng Karma Police fyrir framan vinkonur mínar og ég þorði í fyrsta sinn að nota röddina almennilega. Ég gleymi aldrei svipnum á annarri þeirra, þetta var ekki svona aðdáunarsvipur heldur eitthvað miklu meira. Eftir það fór ég markvisst í það verkefni að færa kjarkinn úr herberginu mínu yfir til fleira fólks.“

Snýst ekki um að kunna heldur læra í leiðinni

Stefán viðurkennir að feimnin hafi fylgt honum lengi og að hlédrægi unglingurinn sé aldrei langt undan.

„Hann er þarna enn og ég reyni ekkert að fela hann, enda er hann vinur minn líka. Ég reyni samt að ögra og setja mér háleit markmið sem eru alls konar í lífinu. Sumum heldur maður fyrir sig en öðrum deilir maður. Eitt af þessum markmiðum var húsið sem ég keypti af foreldrum mínum fyrir tæpum tveimur árum, en með hjálp vina og ættingja hef ég tekið það í nefið og gert hluti sem ég hafði ekki hundsvit á. Ég er alinn upp í sveit og þá snýst þetta ekki endilega um að kunna hlutina heldur læra þá í leiðinni. Þeir tengja sem hafa til að mynda gert upp eldhús og vita hvað það er leiðinlegt. Það er skemmtilegt fyrsta daginn sem þú rífur allt niður og sérð möguleikann, svo kemur kafli þar sem þú borðar mikið af skyndibita og sérð ekki fram úr neinu, en að lokum fer svo allt að virka og þá má líta um öxl og sjá hvað þú varst duglegur. Ég mæli með að tekin sé „fyrir“ og „eftir“ mynd, það er gott þegar maður er lítill í sér að fá þar klapp á bakið frá sjálfum sér.“

Mynd: Eyþór Árnason

Stefán er faðir fjögurra barna og ól þau að hluta til upp í miðbænum, en hann tekur þó sveitalífið fram yfir borgina.

„Ég bjó í sjö ár með börnin í bænum og var alltaf skíthræddur að senda þau í skólann. Það er nóg af fábjánum í umferðinni, en heima í sveitinni veistu hver fábjáninn er og getur bent á hann. Í bænum þurfa börnin að passa sig á bílum almennt. Þar fyrir utan er maður viðstöðulaust í því að skutla og sækja en hér ganga allir frekar lausir. Það eru fleiri klukkustundir nýtilegar ef þú býrð úti á landi og það er staðreynd því ég hef prófað hvort tveggja. Auðvitað eru færri valmöguleikar hvað varðar tómstundir og slíkt, en aðrir kostir koma í staðinn.“

Hef lítinn áhuga á peningum

Sjálfur nam Stefán þroskaþjálfun og segir þá braut, rétt eins og annað í lífinu, hafa verið tilviljun háð.

„Það einhvern veginn æxlaðist svona. Ég hef greinilega lítinn áhuga á peningum, svona þegar maður skoðar hvar áhugasvið mitt liggur, en á þessum tímapunkti var ég kominn með tvö börn og það þriðja á leiðinni. Mér fannst ég verða að hafa eitthvað öruggt í bakhöndinni. Námið var praktískt en mér fannst full mikið einblínt á hvað mætti segja frekar en hvað ætti að gera. Staðreyndin er einfaldlega sú að hópur fatlaðra er fjölbreyttur og ómögulegt að steypa alla í sama mót hvað þarfir varðar. Markmið námsins var að allir ættu jafna möguleika og sama rétt, en þá gleymast þeir sem eru með hvað mesta skerðingu. Mér fannst erfiðast við námið að mega ekki nota hvaða orð sem er og sú sýn að taka öllu sem neikvæðni. Sjálfur sé ég ekki muninn á því að segja að einstaklingur sé fatlaður eða með fötlun því það vita allir um hvað ræðir. Umræðan á það til að snúast um hvernig hlutirnir eru sagðir frekar en um hvað málið snýst í raun. Svona eins og að segja pulsa eða pylsa, það vita allir um hvaða matvæli ræðir. Þegar upp er staðið eru ekki allir innviklaðir í þennan geira og þótt einhver bóndi úti á landi noti óvart orðið þroskaheftur er hann ekki að reyna að vera leiðinlegur heldur að reyna tjá sig – umræðan fer í kjölfarið til fjandans og fólk leyfir sér að hrauna yfir hann á enn verri hátt en fyrir það sem hann er sakaður um. Eins er ekki það sama að vinna fyrir fólk sem er tiltölulega vel stætt eins og ungmennin sem við sjáum í sjónvarpsþáttunum Með okkar augum, eða manneskju með heilalömun. Þetta er ekki það sama og markmið þeirra eru gerólík. Ég hef sjálfur unnið með fjölbreyttum hópi fatlaðs fólks og til að mynda með blindum einstaklingum með þroskahömlun. Það var mjög lærdómsríkt að setja sig í þau spor og taka út svo mikilvægt skilningarvit, maður þarf alveg að hugsa leikinn upp á nýtt. Bara það að brjóta saman þvottinn sinn eða komast í rúllustiga, þetta eru ekki hlutir sem við teljum almennt flókna, en að finna leiðir til að ná þessum markmiðum byggist númer eitt, tvö og þrjú á trausti. Blindur einstaklingur getur getur ekki verið í liðveislu með manneskju sem þjáist af miklum athyglisbresti og týnir sér, því þá er hann ansi mikið týndur.“

Gef allt af mér og þá aðallega launin

Aðspurður hvort þolinmæði sé hans sterkasta hlið segist Stefán eflast með árunum.

„Það er auðvitað mjög gleðilegt að sjá árangur og algengt að fólk spyrji hvort þetta sé ekki gefandi starf. Þá finnst mér alltaf gaman að segja, jú, ég gef allt af mér, og þá aðallega launin því þau eru minnst gefandi við þessa vinnu. En það að hjálpa einhverjum að ná markmiði er alltaf mikill sigur. Ég vann með einstaklingi í tvö ár og það að koma honum í rúllustiga tók sex mánuði, skref fyrir skref. Hann hafði enga tilfinningu fyrir því hvar hann var staddur og hvað þá hvað rúllustigi væri, en þegar þetta hafðist var tilfinningin ómetanlegt. Markmiðið var ekki endilega rúllustiginn út af fyrir sig heldur það að öðlast sjálfstraust á einhverju sviði sem hann gat svo yfirfært á annað. Það þarf nefnilega ekki alltaf að vera tiltekinn atburður heldur markmiðið, því það er fyrsta skrefið. Þegar ég byrjaði fyrst hafði ég mikinn áhuga á ungmennum sem voru staðsett á einhvers konar gráu svæði. Mig langaði að finna þeirra styrkleika og móta þá, en í náminu vann ég líka mikið með fíklum og útigangsfólki í bata, sem er mikið verk sem oft fylgja mikil vonbrigði, en þegar maður svo sér manneskju bæta líf sitt er það mikið vítamín fyrir sálina. Það þurfa nefnilega allir á þroskaþjálfun að halda, enda er enginn með ótakmarkað magn af þroska og allir þurfa innlegg í líf sitt til að ná settum markmiðum.“

Ef þú ert veikur þá vantar bara þig

Sjálfur hefur Stefán mikið unnið í markmiðasetningu og segir óneitanlega hjálpa til að hafa upplifað árangur á eigin skinni.

„Ég kem náttúrulega úr sveit þar sem ekki er gengið að því vísu að maður verði tónlistarmaður, en til þess að láta draumana rætast verður maður að færa miklar fórnir. Ef barnið mitt myndi í dag segjast vilja feta þessa braut myndi ég ráðleggja því að leita annað, því þetta er valtur bransi og aldrei skynsamlegasti kosturinn. Það er einfaldlega ekkert rökrétt við að vera tónlistarmaður – þetta er brekka og ekki allir sem geta lifað af þessu. Þú getur verið vinsæll í dag en ekki á morgun og ef þú ert veikur vantar bara þig – þá þýðir ekkert væl. En öll verkefni eru á einhvern hátt brekka og sjálfur áttaði ég mig á því tiltölulega ungur að það er bara einn aðili sem getur staðið í vegi mínum og það er ég sjálfur, allir hinir eru aukaleikarar. Ef þú ert búinn að setja þér einhver markmið skiptir engu máli hvaða skoðanir aðrir hafa á þeim svo framarlega sem þú veist sjálfur hvað þú ert að gera. Markmiðið þarf samt alltaf að vera mælanlegt og höfum í huga að, að gera sitt besta er ekki háleitt markmið. Þú verður að skilgreina og mæla hvert þitt markmið er en hafa það innan þess ramma sem þú ræður við og alltaf þannig að þú leggir þig allan fram. Ég væri ekki að vinna sem tónlistarmaður ef ég gæti ekki alltaf gert aðeins betur.“

Fyrir löngu búinn að meika það

Spurður hvort það hafi aldrei verið erfitt að standa með sjálfum sér segist Stefán aðallega finna fyrir pressu frá sínum nánustu.

„Mér hefur verið boðin þátttaka í öllum þessum hæfileikasjónvarpsþáttum hér heima en hef aldrei viljað taka þátt. Mesta pressan kemur frá vinum og ættingjum sem vilja sjá mann standa þarna og mögulega hefði ég unnið eitthvað af þessu en í dag get ég litið til baka og sýnt með beinum hætti að ég þurfti ekki að fara þá leið – ég komst hingað sjálfur. Ég vil aldrei vera skilgreindur í músík fyrir eitthvað sem ég vil ekki vera. Það var í raun mitt eina markmið, að gera þetta á mínum forsendum og ég hef staðið við það. Ég vildi aldrei komast á framfæri á forsendum einhvers annars og vera síðan stimplaður út frá því. Þetta hefur verið eitt allsherjar ævintýri og ég man ekki eftir neinu sem ekki gekk upp. Ég hitti sem dæmi einu sinni gamla bekkjarsystur sem spurði mig hvort ég væri búinn að meika það, en ég var þá í bol með mynd af minni eigin hljómsveit og ég bað hana í kjölfarið að skilgreina hvað það þýddi að meika það. Í mínum huga er það rétt eins og með önnur markmið í lífinu, að geta lifað á tónlistinni, gert hana á mínum forsendum og með fólki sem mig langar að vinna með. Ég tikka í öll þessi box og get því með sanni sagt að ég sé búinn að meika það, fyrir löngu. Það þýðir samt ekki að ég sé kominn á einhvern endapunkt því ég er ennþá á leiðinni upp og er enn að stækka mengið og þróa mig sem tónlistarmann. Þetta er aldrei komið og maður er aldrei bara mættur, mér dettur ekki til hugar að ég sé hættur að moka skurðinn, því það þurfa allir að moka sinn skurð. Helgi Björns og Bubbi eru enn að moka, kannski ekki Raggi Bjarna en það er ekki langt síðan hann hætti því.“

Lítið pláss fyrir ímyndunarafl

Þegar talið berst að bransasögum segir Stefán þær stórlega ýktar enda gefist lítill tími til skemmtanahalds milli gigga.

„Ég fer ekki oft á barinn, einfaldlega af því að ég nenni hvorki að eyða tíma mínum í að vera fullur né þunnur. En það er nóg í boði þótt ég sé ekki viss um að fólk geti leyft sér það. Menn eru ekkert fullir að moka skurðinn enda er ekki hægt að verða metnaðarfullur tónlistarmaður eða nokkuð annað ef þú ert fullur allan tímann. Eins og starfsemin er í Dimmu er lítið um djamm, enda erum við tveir með meirapróf og keyrum allt ásamt því að þurfa að róta og tengja allt draslið. Margir halda að þessu fylgi mikið rokklíferni, en sú er ekki raunin. Sjálfur hef ég aldrei prófað eiturlyf og ekki fundið neina þörf fyrir það, en vissulega er nóg af þeim og menn skulu aldrei gerast svo barnalegir að tengja eiturlyfjaneyslu við tónlistarmenn því ég þori að fullyrða að eiturlyfjaneysla er mun meiri í viðskiptaheiminum en tónlistinni. Auðvitað er mikið til af bransasögum og sumar segir maður opinberlega en aðrar ekki. Ég held þeim fari samt fækkandi enda er allt svo opinbert í dag og lítið pláss fyrir ímyndunarafl þar sem allt er sett á samfélagsmiðla. Tækifærin til að haga sér eins og bavíani eru einfaldlega ekki til staðar og enn síður möguleikinn á að ýkja söguna, því allir vita á rauntíma allt sem sagt er, svo ef þú hagar þér eins og fáviti er það komið inn á einhvern miðil um leið. Fólk þarf því að læra að haga sér, sem er gott og blessað nema fyrir sögurnar, þær verða ekki eins skemmtilegar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Vilborg pólfari stígur fram í máli fjallaleiðsögumannsins – „Ég ein af þeim konum sem um ræðir“

Vilborg pólfari stígur fram í máli fjallaleiðsögumannsins – „Ég ein af þeim konum sem um ræðir“
Fréttir
Í gær

Segja fanga setta í einangrun að óþörfu – „Covid veiran lokuð inni á Litla-Hrauni“

Segja fanga setta í einangrun að óþörfu – „Covid veiran lokuð inni á Litla-Hrauni“
Fréttir
Í gær

Helga María: „Finnst okkur þetta bara allt í lagi?“

Helga María: „Finnst okkur þetta bara allt í lagi?“
Fréttir
Í gær

Framkvæmdastjórn SÁÁ fordæmir hegðun Einars

Framkvæmdastjórn SÁÁ fordæmir hegðun Einars