fbpx
Laugardagur 04.apríl 2020
Fréttir

Steina og Kolbrún sagðar ekki hafa bara verið að kyssast í Grafarvogslaug – „Sumt starfsfólkið er í áfalli“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 26. febrúar 2020 13:28

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Atvik sem varðar ungt par í Grafarvogslaug fyrr í mánuðinum, þær Steinu Daníelsdóttur og Kolbrúnu Ósk Ólafsdóttur, er að draga dilk á eftir sér í Menningar-, íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkurborgar (MÍTR). Óhætt er að segja að deilt sé um atvikið og eftirmála þess.

Í tilkynningu Steinu og Kolbrúnar og í fréttum fjölmiðla um málið var dregin upp sú mynd að starfsmaður sundlaugarinnar hafi ávítt þær fyrir að kyssast. Sagði hann við þær að aðrir sundlaugargestir hefðu kvartað yfir því að þær væru að haga sér á óviðeigandi hátt. Í frétt Fréttablaðsins um málið þann 13. febrúar kemur einnig fram að annað samkynhneigt par hafi orðið fyrir sambærilegu áreiti starfsfólks laugarinnar árið 2017.

Borgarfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Sósíalistaflokksins lögðu fram eftirfarandi ályktun um máið á fundi Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs (MNLR) þann 13. febrúar, en þar er starfsfólk sundlaugarinnar sakað um fordóma:

„Samkvæmt mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar eiga allar manneskjur að njóta mannréttinda án tillits til kynhneigðar, uppruna, þjóðernis, stéttar, tungumáls, litarháttar, trúarbragða, lífs-, stjórnmálaskoðana, trúleysis, kyns, kynvitundar, kyntjáningar, kyneinkenna, aldurs, fötlunar, holdafars, líkamsgerðar, heilsufars, atgervis eða annarrar stöðu.

Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðráðisráð ítrekar mikilvægi þess að íbúar njóti þjónustu borgarinnar án þess að eiga hættu á fordómum og mismunun. Það er andstætt mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar og óásættanlegt að starfsfólk borgarinnar beri fordómafull skilaboð til gesta sundlauga eins og átti sér stað í Grafarvogslaug í febrúar 2020. Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð lítur svo á að tækifæri sé til að bæta þjónustu borgarinnar í takti við mannréttindastefnuna og hvetur menningar-, íþrótta- og tómstundaráð til að bregðast skjótt við.“

Saka ráðið um ómaklega árás á starfsfólk Grafarvogslaugar

Óhætt er að segja að þessi ályktun hafi fallið í grýttan jarðveg hjá fulltrúum minnihlutans í Menningar-, íþrótta- og tómstundaráði (MÍTR) en þar var ályktunin tekin fyrir á fundi síðastliðinn mánudag. Er MNLR sakað um að vega að æru starfsfólks Grafarvogslaugar og kveða upp dóma án þess að kynna sér málavexti. Fulltrúi Miðflokksins í MÍTR ályktar eftirfarandi um þetta:

„Fulltrúi Miðflokksins lýsir furðu sinni vegna ályktunartillögu Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Sósíalistaflokks Reykjavík  á fundi mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs þann 13. febrúar 2020 vegna atviks sem átti sér stað í sundlaug Grafarvogs.

Að setja fram slíka ályktun án þess að fyrir liggi nokkur vitneskja um hvað raunverulega átti sér stað eru í besta falli forkastanleg vinnubrögð.

Þarna er án fyrirvara vegið að starfsfólki laugarinnar fyrir það eitt að sinna starfi sínu.

Slík vinnubrögð og Mannréttinda, nýsköpunar og lýðræðisráð sýnir hér er ráðinu til vansa.

Ljóst er að þarna var með órétti vegið að stafsmanni á grundvelli einhliða fréttar fjölmiðils.

Öll orð umræddra flokka, um að standa vörð um  starfsfólk borgarinnar þegar að þeim er vegið eru hjómið eitt.

Fulltrúi Miðflokksins  hafnar téðri ályktun og óskar eftir því að umrætt ráð dragi ályktunina til baka.“

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í ráðinu eru ekki eins harðorðir en þó gagnrýnir í sinni bókun:

„Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka að öll eru velkomin í sundlaugar borgarinnar. Á sama tíma telja þeir mikilvægt að ráð í umboði borgarstjórnar kanni málsatvik eftir þeim leiðum sem mögulegar eru áður en um þau er ályktað opinberlega, sérstaklega þegar þau fjalla um hegðun starfsmanna.“

Segir málið snúast um allt annað en koss

DV ræddi málið við Baldur Borgþórsson, borgarfulltrúa Miðflokksins og fulltrúa flokksins í MÍTR. Baldur segir ályktun MNLR byggjast á einhliða og villandi upplýsingum um málið og fordæmir þau vinnubrögð að senda frá sér ályktun af þessu tagi án þess að kynna sér málið.

„Þetta snerist um allt annað en koss. Samkvæmt þeim upplýsingum sem fram komu á fundinum á mánudaginn þá snýst málið um allt annað en koss. Það er bara stutt og laggott. Um var að ræða ósæmilega hegðun miðað við aðstæður. Við verðum að átta okkur á því að fjöldi sundlaugargesta leitaði til starfsfólksins. Sumt starfsfólkið er í áfalli vegna aðdróttana meirihluta ráðsins í sinn garð,“ segir Baldur og bætir í:

„Að Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð skuli senda svona frá sér án þess að hafa nokkrar haldbærar upplýsingar um atvikið, án þess að tala við kóng né prest og hafa ekkert samband við starfsfólk sundlaugarinnar, þykja mér sláandi vinnubrögð og þetta gerir mig dapran. Mér leið eins og ég hefði fengið kjaftshögg á fundinum, að ábyrgt fólk í svona stöðu skuli fella slíka áfellisdóm yfir blásaklausu fólki.“

Baldur leggur áherslu á að allir þurfi að sýna af sér viðeigandi hegðun á almannafæri og það hafi ekkert með kynhneigð að gera. „Ég er grjótharður stuðningsmaður jafnra réttinda fyrir alla og hef verið það frá blautu barnsbeini, ég var alinn þannig upp. Rétt er rétt og allir verða að haga sér í samræmi við aðstæður.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Í gær

Margrét Gnarr sýnir hvernig er hægt að æfa með ferðatösku

Margrét Gnarr sýnir hvernig er hægt að æfa með ferðatösku
Fréttir
Í gær

Kolbrún segir að Áslaug hafi sýnt dómgreindarleysi: „Athugasemd hennar um að einmitt nú sé þörf á netverslun með áfengi lýsir léttúð“

Kolbrún segir að Áslaug hafi sýnt dómgreindarleysi: „Athugasemd hennar um að einmitt nú sé þörf á netverslun með áfengi lýsir léttúð“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ískyggilegt ástand hjá hjúkrunarfræðingum í COVID-faraldrinum – Sumir sofa aðeins tvo tíma á sólarhring

Ískyggilegt ástand hjá hjúkrunarfræðingum í COVID-faraldrinum – Sumir sofa aðeins tvo tíma á sólarhring
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Víðir kvíðir páskunum með tilheyrandi ferðalögum„Áhyggjuefni ef fólk fer að hópast mikið saman“

Víðir kvíðir páskunum með tilheyrandi ferðalögum„Áhyggjuefni ef fólk fer að hópast mikið saman“