fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Sif Sigmars: „Samherji er eins og kynlífs-költið“

Ritstjórn DV
Laugardaginn 22. febrúar 2020 10:44

Highbury í Islington Sif við bókasafnið í hverfinu sínu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sif Sigmarsdóttir, einn þekktasti pistlahöfundur landsins, líkir Samherja við sértrúarsöfnuðinn Nxivm í pistli í Fréttablaðinu í dag. Hún fer yfir sögu költsins sem hún segir hafa misnotað dómstóla í eigin þágu. Hún veltir því fyrir sér hvort hrein sannleiksást liggi að baki þegar lögfræðingar Samherja sendi bréf til RÚV.

Sif byrjar á að fara yfir sögu Nxivm. „Í mars árið 2017 bankaði kanadísk leikkona, Sarah Edmondson, að dyrum á einbýlishúsi í Albany-borg í Bandaríkjunum. Sarah var félagi í sjálfsstyrkingarsamtökum sem kölluðust Nxivm. Það átti að vígja hana inn í DOS, sérstaka kvennahreyfingu Nxivm sem var aðeins fyrir útvaldar. Hinum megin við dyrnar beið martröð. Nxivm var stofnað árið 1998 af Keith Raniere. Keith var sagður haldinn undragáfum. Hann kvaðst hefði verið altalandi eins árs, vera með margar háskólagráður og spila á píanó eins og konsertpíanisti. Yfirlýst starfsemi Nxivm var að hjálpa fólki að ná árangri í lífi og starfi. Raunveruleikinn var þó annar,“ lýsir Sif.

Sif lýsir svo hryllingnum sem meðlimir hópsins urðu fyrir. „Í júní í fyrra dæmdi alríkisdómari í Bandaríkjunum Keith Raniere sekan um fjölda glæpa, þar á meðal fjárglæfrastarfsemi, kynlífsþrælkun og mansal. Við réttarhöldin var Nxivm lýst sem sértrúarsöfnuði þar sem konum var gert að stunda kynlíf með leiðtoganum, þær voru sveltar, féflettar og heilaþvegnar. Konurnar í kvennahreyfingunni DOS voru auk þess brennimerktar með upphafsstöfum Raniere. En hvernig gat starfsemi sem Nxivm þrifist óáreitt í tvo áratugi? Raniere nýtti sér sígildar sálfræðiaðferðir til að hafa stjórn á félögum samtakanna. Hann skikkaði þá auk þess til að láta sér í té viðkvæmar persónuupplýsingar, svo sem nektarmyndir og leyndarmál, sem nýta mátti gegn meðlimum ef þeir yfirgæfu söfnuðinn. En þá er ekki allt talið,“ segir Sif.

Hún segir þetta költ hafa notað málaferli til að þagga niður í gagnrýni. „Eftir að Sarah Edmondson var brennimerkt árið 2017 gekk hún úr söfnuðinum. Í kjölfarið kærði Nxivm Söruh til lögreglu fyrir að valda fyrirtækinu fjárhags- og orðsporshnekki. Árum saman hafði Nxivm notað málaferli til að kveða niður gagnrýnisraddir. Í krafti sterkrar fjárhagsstöðu samtakanna ofsótti Raniere þá sem gengu úr félagsskapnum, sem og blaðamenn sem fjölluðu gagnrýnið um Nxivm, með tilhæfulausum ásökunum. Málaferlin sem einnig áttu að vera öðrum víti til varnaðar leiddu ósjaldan til þess að hinir ákærðu urðu gjaldþrota vegna lögfræðikostnaðar,“ segir Sif.

Fyrrnefnd Sarah lét þetta ekki stöðva sig og að lokum var Raniere handtekinn. Nú víkur sögu að Samherja. „Í vikunni sem leið bárust fréttir af því að sjávarútvegsfyrirtækið Samherji hefði hótað RÚV málshöfðun vegna fréttar um „meintar“ mútugreiðslur Samherja í Namibíu. Sagði lögfræðingur fyrirtækisins umfjöllunina „refsiverða“ og geta haft í för með sér fangelsisvist. Þá sagði í bréfinu að „framganga af þessu tagi“ gæti valdið tjóni sem væri bótaskylt og réðust fjárhæðir „af þeim viðskiptahagsmunum og orðspori sem er undir“. Áskildi Samherji sér „rétt til að höfða mál“. Vel má vera að hrein sannleiksást knýi Samherja áfram í bréfaskiptum sínum við RÚV. En annar möguleiki er þessi: Samherji er eins og kynlífs-költið,“ segir Sif.

Hún segir mál Nxivm sýna tvennt: „Sagan af Nxivm er dæmi um tvennt. Annars vegar hvernig fjársterkir aðilar nota dómstóla til að kveða niður gagnrýni og hræða aðra til þagnar. Hins vegar hversu mikilvægt er að fjölmiðlar beini kastljósinu að misgeðfelldum starfsháttum þessara sömu fjársterku aðila þrátt fyrir hótanir. Því rétt eins og Sarah Edmondson komst að: Það er svo oft sem yfirvöld kæra sig kollótt um réttlætið fyrr en óréttlætið hefur verið afhjúpað á forsíðum blaðanna.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi