fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Eyjamenn reiðir Gaupa – Kristinn lýsir hneykslun – „Ásakanir sem ég bíð eftir að Guðjón sanni“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 19. febrúar 2020 12:56

Eyjamenn eru ekki ánægðir með ummæli Gaupa. Til vinstri má sjá hvernig hið dæmigerða júggabragð virkar en þá grípur varnarmaðurinn í fót sóknarmannsins. Afleiðingarnar geta verið hættulegar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Handknattleiksdeild ÍBV í Vestmannaeyjum hefur farið fram á viðbrögð frá HSÍ vegna ummæla sem íþróttafréttamaðurinn Guðjón Guðmundsson, Gaupi, lét falla í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport á mánudagskvöld. Þetta kemur fram á vef Eyjafrétta.

Guðjón var að lýsa leik Selfoss og Aftureldingar ásamt Guðlaugi Arnarsyni þegar talið barst að svokölluðu júggabragði. Um er að ræða alræmt og stórhættulegt leikbrot þegar varnarmaður grípur í fót hornamanns sem er að koma inn úr horninu.

Missa jafnvægið í loftinu

Afleiðingarnar geta verið hættulegar og enda oftar en ekki með því að sóknarmaðurinn missir jafnvægið í loftinu. Eins og bent er á í frétt Eyjafrétta þarf oft ekki mikla snertingu til þegar menn eru í loftinu og á talsverðri ferð. Myndband af dæmigerðu júggabragði, eins og það er kallað, má sjá hér neðst í fréttinni:

Guðjón sagði í útsendingunni orðrétt: „Eyjamenn eru klókir í þessu. Þeir gera þetta mikið, takið eftir.“

Stórar ásakanir

Eyjamenn eru verulega óhressir með þessi ummæli og lýsti Kristinn Guðmundsson, annar þjálfara ÍBV, vonbrigðum og hneykslun með ummælin í samtali við Eyjafréttir. „Að halda því fram að leikmenn ÍBV taki kerfisbundið þátt í að framkalla eitt alvarlegasta brot handboltasögunnar, og það reglulega, eru stórar ásakanir! Ásakanir sem ég bíð eftir að Guðjón sanni með myndböndum, sem hann hlýtur að hafa afar gott aðgengi að.“

Kristinn bætti við að þessi ummæli dæmi sig sjálf en þau væru samt þess eðlis að rýrð væri kastað á ÍBV auk þess sem vegið væri að starfsheiðri þjálfara og persónum leikmanna.

„Við höfum farið fram á viðbrögð af hálfu HSÍ og mér þætti eðlilegt að Guðjón bæðist afsökunar á þessum ummælum á sama vettvangi og þau voru látin falla,“ segir hann.

Sagt í hita leiksins

Eyjafréttir ræddu einnig við Gaupa sem sagði að þetta hefði verið sagt í hita leiksins. Hann sagðist þó ekki vilja nefna nein ákveðin atvik þar sem leikmenn ÍBV hafa beitt bragðinu. Hann sagðist þó hafa aðgang að öllum leikjum deildarinnar síðustu ár og gögnin tali sínu máli.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Hvalur sprakk í tætlur

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sanna birtir ferðasögu: Var lengur í strætisvagninum en í fermingarveislunni – „Það var gott að fá þessa strætóreynslu“

Sanna birtir ferðasögu: Var lengur í strætisvagninum en í fermingarveislunni – „Það var gott að fá þessa strætóreynslu“
Fréttir
Í gær

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”