Maður var í gær við Héraðsdóm Reykjaness sakfelldur fyrir ofbeldisbrot gegn lögreglumönnum í Reykjanesbæ í vor, sem og fyrir ólöglega vopnaeign.
Tveir lögreglumenn urðu fyrir ofbeldi mannsins. Hann kýldi annan þeirra í andlitið og skallaði hann aftur fyrir sig í andlitið. Hlaut lögreglumaðurinn brot í kanti á tönn og yfirborðssprungu á fleti sömu tannar. Einnig var hann með mikla verki í kjálka beggja vegna.
Hinn lögreglumanninn skallaði maðurinn í andlitið með þeim afleiðingum að hann hlaut roða og bólgu yfir vinstra kinnbeini.
Þá var maðurinn ákærður fyrir að hafa í vörslu sinni og reyna að selja gasknúna skammbyssu og skotfæri.
Það varð hinum ákærða til refsilækkunar að hann játaði brot sín skýlaust og sýndi iðrun í garð lögreglumannanna sem hann hafði ráðist á.
Var hann dæmdur í 90 daga skilorðsbundið fangelsi. Hann þarf að greiða á sakarkostnað upp á rúmlega 320.000 krónur og gasskammbyssan er gerð upptæk.