fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Nágranni frá helvíti dæmd út úr íbúð sinni – Fólk og hundar hafa sofið í sameigninni

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 17. desember 2020 15:50

Héraðsdómur Reykjavíkur. Mynd: DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt konu til að flytja út úr íbúð sinni og selja hana. Er þetta gert að kröfu húsfélagsins þar sem konan býr sem sótti mál gegn henni. Ástæðurnar eru síendurtekið ónæði af völdum konunnar. Lýsir það sér í geltandi hundum að næturlagi í íbúð konunnar og hávaða frá gestagangi hjá konunni um nætur. Drukknir gestir konunnar hafa fundist sofandi í sameign hússins og þar hafa einnig sofið hundar. Grunur leikur á að fíkniefnasala sé stunduð í íbúð konunnar.

Í dómnum eru tilgreind tugir atvika frá 2019 og fram eftir þessu ári, þegar lögregla hefur hefur verið kölluð til að húsinu og hún hefur þurft að hafa afskipti af konunni vegna næturhávaða frá henni, gestum hennar og hundi. Eitt dæmigert tilvik úr dómnum hljómar svo:

„Hinn 22. janúar 2020 kl. 08:37 hafi verið tilkynnt um mikil öskur og brothljóð. Þegar lögregla hafi mætt á staðinn hafi stefnda verið gólandi og inni í íbúðinni hafi verið nokkrir einstaklingar.Stefnda hafi viljað fá ákveðinn mann út úr íbúðinni sem hafi þá þegar verið farinn út. Stefnda hafi haft samband við lögreglu kl. 12:09 og sagt umræddan mann sofandi í geymslu hússins. Hann hafi verið fjarlægður af lögreglu í kjölfarið.“

Eitt kvöldið var tilkynnt til lögreglu um óvelkominn mann í húsinu sem enginn treysti sér til að vísa burtu. Lögregla mætti þá á staðinn og vísaði manninum burt en hann var augljóslega undir áhrifum vímuefna.

Einu sinni var tilkynnt um líkamsárás í íbúð konunnar og ljóst er af lestri dómsins að þarna hefur mikið gengið á í langan tíma.

Þá segir enn fremur í dómnum:

„Hinn 12. apríl 2020 kl.00:23 hafi verið tilkynnt um hávaða úr samkvæmi hjá stefndu. Lögregla hafi hringt í stefndu og hún hafi lofað að lækka tónlistina. Kl. 07:39 hafi síðan enn á ný borist kvartanir vegna hávaða úr íbúð stefndu. Annar tilkynnandinn hafi tjáð lögreglu að um væri að ræða „dóppartý“og að íbúar væru smeykir við að fara fram á sameiginlegan stigagang. Þá væru börn ekki í rónni vegna ástandsins.“

Konan taldi skilyrði útburðarkröfu gegn sér ekki vera uppfyllt því senda þurfi viðvörun út með skriflegum og sannanlegum hætti til þess að beita megi lagaákvæði sem kveður á um að fólk sé skyldað til að flytja úr eigin húsnæði. Það kom hins vegar fram að konan hafði fengið bréf þessa efnis afhent.

Konan bar fyrir sig veikindum sem hefðu haft alvarleg áhrif á hana og sambúð við ofbeldismann og hafi hún af þeim sökum ekki getað spornað við því ónæði sem skapaðist í húsnæði hennar.

Héraðsdómur kvað upp þann dóm að konuni sé skylt að flytja ásamt öllu sem henni tilheyrir út úr íbúðinni innan eins mánaðar frá dómsuppsögn. Einnig beri henni að selja eignarhlut sinn í húsinu innan þriggja mánaða frá dómsuppsögu.

Loks ber konunni að greiða húsfélaginu 1,1 milljón króna í málskostnað.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt