Á ellefta tímanum í gærkvöldi var maður handtekinn í Árbæjarhverfi en hann er grunaður um tilraun til þjófnaðar á hjólbörðum. Vitni komu að manninum þegar hann var að losa hjólbarða undan bifreið. Maðurinn var ölvaður og var hann vistaður í fangageymslu.
Á sjötta tímanum í gær var maður í annarlegu ástandi handtekinn á stofnun í Bústaðahverfi. Hann er grunaður um líkamsárás. Hann er sagður hafa ráðist á starfsfólk sem hlaut minniháttar áverka. Maðurinn var vistaður í fangageymslu.
Eldur kom upp í rútu í Vogahverfi á fimmta tímanum í nótt. Rútan var alelda er að var komið. Ekki er vitað um eldsupptök en málið er í rannsókn.
Fjórir ökumenn voru handteknir í gærkvöldi og nótt, grunaðir um að vera undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.