fbpx
Þriðjudagur 24.nóvember 2020
Fréttir

Umboðsmaður Alþingis krefur Svandísi um svör vegna sóttvarnaráðstafana

Heimir Hannesson
Föstudaginn 23. október 2020 15:40

mynd/Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sóttvarnaaðgerðir ríkisins eru nú til skoðunar hjá umboðsmanni Alþingis eftir fjölda kvartana. Í bréfi umboðsmanns til ráðherra segir að lögin séu á köflum tvíræð og að umboðsmaður hafi lagt til í upphafi faraldurs að lagaleg staða aðgerðanna yrði skoðuð.

Samkvæmt heimildum DV er umboðsmaður Alþingis nú með til skoðunar „margvíslegar fyrirspurnir“, sem borist hafa umboðsmanni undanfarið vegna sóttvarnaráðstafana og ýmissa fjárhagslegra stuðningsaðgerða vegna COVID-19 faraldursins.

Í bréfi Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns Alþingis, til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra frá því í september, sem DV hefur undir höndum, kemur fram að þó að hann hafi ekki enn tekið kvartanirnar formlega til efnislegrar meðferðar sé ekki loku fyrir það skotið að það verði gert. Segir í bréfinu: „Því er ekki að leyna að í ýmsu hefur þurft að fara varlega við að greiða úr þessum fyrirspurnum og erindum borgaranna þar sem lagareglur, reglur sem stjórnvöld hafa sett um þessi mál, ákvarðanir, tilmæli og leiðbeiningar stjórnvalda um framkvæmd þessara mála hafa ekki verið að öllu leyti fyllilega skýr.“ Segir hann jafnframt að hafa þurfi í huga að tekist er á við áður óþekktan smitsjúkdóm í fólki.

Þá segir í bréfinu að umboðsmaður og starfsfólk hans hafi skoðað lög og reglur sem gilda um sóttvarnaráðstafanir hins opinbera og heimildir opinberra stofnana til inngrips í líf almennings. Kemur þar fram að hann telji ákvæðin sem um þetta fjalla „að hluta til skýr en um önnur atriði geti risið vafi um merkingu hugtaka og hvað fellur undir tilteknar heimildir“.

„Stjórnskipan byggir á lagaheimildum“

Sú regla gildir hjá umboðsmanni Alþingis, að hann tekur almennt ekki mál til skoðunar nema að kvartandi hafi „tæmt“ allar kæruleiðir innan stjórnsýslunnar fyrst. Segir umboðsmaður um þetta í bréfi til ráðherra að stuttur gildistími aðgerðanna hafi getað haft áhrif á vilja fólks til þess að fara með sín mál í gegnum svifaseinar kæruleiðir stjórnsýslunnar.

Þá segir umboðsmaður að „hvað sem líður nauðsyn og þörfinni á því að grípa til sóttvarnaráðstafana byggir stjórnskipun Íslands og lagaumgjörð um valdheimildir stjórnvalda á tilteknum kröfum um lagaheimildir til inngripa í líf og frelsi borgaranna.“

Að því er fram kemur í bréfinu hafði Tryggvi Gunnarsson samband við forsætisráðuneytið strax í upphafi faraldursins. Mun hann hafa tjáð skoðun sína á því að tilefni væri til að fara yfir hvort gildandi lagaheimildir væru fullnægjandi með tilliti til þeirra inngripa sem ráðist var í. Segir Tryggvi í bréfi sínu að óvissa um lagagrundvöll til slíkra aðgerða gæti orðið til þess að veikja viðbragðsgetu hins opinbera, en líka bakað ríkinu skaðabótaábyrgð vegna tjóns af völdum aðgerða hins opinbera sem ekki byggja á sterkum lagalegum grundvelli.

Fólk í sóttkví svipt frelsi

Ein kvörtunin sem borist hefur umboðsmanni snýr að lögmæti þess að setja fólk í sóttkví. Vísar kvartandi þar í 67. grein stjórnarskrárinnar um að frelsissvipting af hálfu hins opinbera verði að byggja á lagaheimild. Enn fremur byggir kvartandi kvörtun sína á ákvæðum um atvinnufrelsi.

Umboðsmaður krefur í bréfi sínu ráðuneytið um, ásamt öðru, svör við því hvort úttekt, sem hann lagði til, hafi verið framkvæmd og þá hver niðurstaða hennar hafi verið. Enn fremur óskar hann eftir afstöðu ráðuneytis um hvort þörf sé á að breyta núgildandi ákvæðum sóttvarnalaga.

Ljóst er að kvartanir þessar eru líkast til aðeins upphaf málaferla af völdum sóttvarnaráðstafana hins opinbera. Aðgerðir hins opinbera eru með öllu fordæmalausar og mörg lagaákvæði nýtt í fyrsta sinn. Fastlega má búast við að reynt verði á lögmæti eins eða fleiri aðgerða fyrir umboðsmanni eða dómstólum á næstu misserum.

Aðgerðir undirbúnar

Slíkt hefur þegar raungerst víða í Evrópu. Þannig sagði DV frá því í vikunni að dómstólar í Madrid hefðu fellt úr gildi víðtækar takmarkanir á ferða- og samkomufrelsi einstaklinga í borginni þar sem með aðgerðunum þótti verið að traðka á mannréttindum þeirra. Þá felldi dómstóll í Berlín úr gildi reglur um takmarkanir á opnunartíma skemmtistaða þar sem þær þóttu fara fram úr meðalhófi. Var veitingahúsunum því frjálst að hafa opið lengur, en áfengisbannið sem sett var samhliða takmörkun á opnunartíma knæpa og öldurhúsa í Berlín hélt velli.

Þá sagði DV einnig frá því í vikunni að smitrakningarteymi almannavarna hefði verið afhent nöfn og eftir atvikum símanúmer á annað hundrað manna í tengslum við rakningu hópsmits sem kom upp á bar í miðbæ Reykjavíkur. Voru þar kortafyrirtækin Borgun og Valitor sem afhentu gögnin. Eru áhöld uppi um hvort kortafyrirtækjunum hafi verið heimilt að afhenda lögreglu þessar upplýsingar. Óskina um upplýsingarnar byggði ríkislögreglustjóri á heimild sem í lögum er veitt sérstakri samstarfsnefnd um sóttvarnir sem aldrei hefur verið skipuð, og áliti Persónuverndar sem segir sóttvarnalæknir hafi þá sömu heimild. Standa því spurningar eftir ósvaraðar um lögmæti framsals slíkra heimilda til söfnunar persónuupplýsinga úr hendi lækna til lögreglu.

Hefur DV jafnframt heimildir fyrir því að hóteleigendur séu uggandi yfir lengd sóttvarnaaðgerða á íslenskum landamærum. Vísa þeir til þess að lagaheimild til tvöfaldrar skimunar á landamærunum sé tvíræð og að aðgerðirnar kunni að fara fram úr meðalhófi, enda mætti vafalaust nálgast sömu niðurstöðu með vægari úrræðum. Hefur skaðabótamál borist til tals meðal sumra og eru slík mál nú til skoðunar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum
Stúlkan er fundin
Fréttir
Í gær

„Þessi bylgja sem við höfum verið að eiga við undanfarið er komin vel niður“

„Þessi bylgja sem við höfum verið að eiga við undanfarið er komin vel niður“
Fréttir
Í gær

Maður sem flytur inn flugelda sakaður um ítrekað ónæði – „Þú ert ófær um að taka tillit til bæði manna og málleysingja“

Maður sem flytur inn flugelda sakaður um ítrekað ónæði – „Þú ert ófær um að taka tillit til bæði manna og málleysingja“
Fyrir 2 dögum

Fugl í búri – „Ó, aumingja Svarthöfði. Mikið er hans böl“

Fugl í búri – „Ó, aumingja Svarthöfði. Mikið er hans böl“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Goðsagnirnar ósammála – „Ekki misskilja mig“

Goðsagnirnar ósammála – „Ekki misskilja mig“
Fréttir
Fyrir 2 dögum
Fimm smit í gær