Í nýju minnisblaði sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sendir heilbrigðisráðherra í dag er lagt til að öllum keppnisíþróttum verði frestað í tvær vikur. Í annan stað verður veitingahúsum lokað kl. 21 á kvöldin en ekki 23. Fjöldatakmarkanir verða áfram 20 en undanþágum þar fækkað: Undanþága fyrir 50 manns við kirkjulegar útfarir og 30 manns í framhaldsskólum og háskólum.
Þessar nýju takmarkanir gilda fyrir höfuðborgarsvæðið. Þar verður 2 metra reglan enn fremur innleidd aftur.
Þórólfur segir að þessar tillögur séu gerðar í von um að takist að sveigja faraldurinn niður aftur. 99 greindust með veiruna í gær sem er hæsta talan yfir einn sólarhring síðan um mánaðamótin mars/apríl.
Hluti af skýringunni á því hvað margir greindust í gær er sá að mun fleiri voru skimaðir en daginn áður. Hlutfall sýktra á meðal skimaðra er 5% og hefur verið það undanfarið. Þórólfur sagði að mikil fjölgun greindra undanfarna sólarhringa sé áhyggjuefni en hann vonast til að þessar hertu aðgerðir leiði til þess að kúrfan sveigist niður aftur.