Þrír menn voru fyrir helgi sýknaðir af ákæru og bótakröfu vegna alvarlegrar líkamsárásar á Hlöllabátum árið 2017.
Klukkan hálf eitt að nóttu til var lögregla kölluð til vegna hópslagsmála á Hlöllabátum á Ingólfstorgi í miðbæ Reykjavíkur. Þegar lögregla kom á staðinn var þar á staðnum maður sem hafði orðið fyrir nokkuð alvarlegri árás. Gaf hann þá skýringu að ráðist hafi verið á hann þegar hann reyndi að stilla til friðar í átökum annarra.
Í tilraunum sínum til að stilla til friðar hrinti hann einum árásarmanninum. Fór þá að þrír menn réðust á friðarstillinn. Er lögregla kom á staðinn var brotaþoli vankaður og með mikla áverka í andliti. Ráðist hafði verið á brotaþola með krepptum hnefum og sparkað í andlit hans er hann lá. Hlaut brotaþoli af þessu töluverða áverka. Á slysadeild greindi læknir hann með áverka og bólgur á vinstra gagnauga, marbletti á hægri olnboga og hnjám og leiddi sneiðmyndataka brot á andlitsbeinum í ljós. Þá var hann greindur með kurlað eða hliðrað augntóttargólfsbrot og brot á vanga og kinnkjálkabeinum og heilahristing.
Rannsókn lögreglu leiddi þá á spor þriggja manna sem voru yfirheyrður um miðjan nóvember, um tveim vikum eftir árásina. Tveir ákærðu eru tvíburar og voru 19 ára er árásin átti sér stað. Kemur fram í dómnum að þeir séu altalandi á íslensku, en sá þriðji, 21 árs, talar enga íslensku.
Í niðurstöðu dómsins er vikið að sönnunargögnum í málinu. Þar kemur fram að skoðuð hafi verið snapchat upptaka af árásinni, vitnisburður fjölda vitna og skýrslutaka af ákærðu. Í dómnum stendur að vitnisburður sumra vitna hafi verið í „hrópandi ósamræmi“ við skýrslugjöf ákærðu. Dómurinn rekur svo í löngu máli hvernig skilyrðum sönnunarfærslu er ekki fullnægt. Framburður vitna þótti, sem fyrr segir, á reiki og lýsing á árásarmönnum „ýmist engin eða óljós og misvísandi.“
Í ljósi þess voru ákærðu, allir þrír, sýknaðir og bótakröfu fórnarlambs vísað frá dómi. Dóminn má sjá hér í heild sinni.