Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Sigurði Inga Jóhannssyni, samgönguráðherra, að flug til Eyja hafi verið á markaðsforsendum svo ríkið geti ekki stigið inn nema með þeim almennu ráðstöfunum sem nú eru í undirbúningi.
Haft er eftir honum að hann bindi miklar vonir þær aðgerðir sem kynntar verða á næstu dögum um niðurgreiðslur í innanlandsflugi en þær byggja á hinni svokölluðu „skosku leið“. Hún felur í sér að íbúar tiltekinna svæða á landsbyggðinni fá allt að þrjár flugferðir, fram og til baka, á mun lægra verði en verið hefur fram að þessu. 200 milljónir króna eru eyrnamerktar þessu verkefni á þessu ári og 600 milljónir á því næsta. Sigurður sagði vonandi verði hægt að fljúga aftur til Eyja þegar þessar aðgerðir koma til framkvæmda.
Eins og fram hefur komið í fréttum var öllu starfsfólki Herjólfs sagt upp nýlega. Fram hefur komið að 400 milljónir króna vanti inn í reksturinn til að endar nái saman. Í Morgunblaðinu kemur fram að helming þessarar fjárhæðar megi rekja til þess að ríkið hafi ekki efnt skuldbindingar sínar. 200 milljónir hafi svo tapast vegna kórónuveirufaraldursins því bæði farþega- og vöruflutningar hafa dregist saman.
Haft er eftir Sigurði Inga að mikilvægt sé að Vegagerðin og Vestmannaeyjabær nái samkomulagi um túlkun þjónustusamningsins um rekstur Herjólfs.