Jón Ívar Einarsson, prófessor við læknadeild Harvard-háskóla, hefur vakið athygli fyrir skrif sín um kórónuveirufaraldurinn í Morgunblaðinu. Grein sem Jón birti um síðustu helgi vakti hörð viðbrögð en þar sagði hann stjórnvöld hafa gengið of langt með „lokun“ landsins, þ.e. með því að krefjast tvöfaldrar skimunar hjá þeim sem koma til landsins með 5-6 daga sóttkví inn á milli.
Í nýrri grein í Morgunblaðinui í dag bendir Jón á að dánartíðni af völdum COVID-19 sé mjög lág og hafi farið lækkandi, líklega vegna þess að yngra fólk sé að smitast í annarri bylgju faraldursins:
„Þetta gefur tilefni til ákveðinnar bjartsýni og skýrir e.t.v. að hluta þá staðreynd að á meðan tíðni smita á heimsvísu hefur verið í línulegum vexti, hefur kúrfa dauðsfalla verið flöt. IFR er einn af þeim þáttum sem þarf að taka tillit til þegar teknar eru ákvarðanir um samfélagslegar aðgerðir út frá heildrænu sjónarmiði. Vissulega eru afleiddir kvillar Covid líka mikilvægir og þarf að rannsaka það betur. Það er hins vegar ekki heillavænlegt að keyra á hræðsluáróðri til lengdar því fólk á Íslandi er skynsamt og vel upplýst og ef gögn styðja ekki skilaboðin þá fjarar smám saman undan samstöðunni. Það er líka mikilvægt að stjórnmálamenn taki ákvarðanir sínar byggðar á nýjustu og bestu upplýsingum.“
IFR skammstöfunin sem Jón notar hér að ofan er stuðull fyrir dánartíðni þeirra sem sýkjast af COVID-19, ekki bara þeirra sem greinast með veiruna. Sú dánartíðni er aðeins 0,21%.
Jón segir að áfram sé mikilvægt að viðhafa stífar smitvarnir innanlands en sú aðgerð að setja þá sem koma til landsins í sóttkví sé röng. Telur hann þá aðgerð vera utan meðalhófs. „Ég tek það skýrt fram að ég er ekki að tala fyrir því að opna landamærin upp á gátt, heldur að halda áfram með tvöfalda skimun í bili og taka upp heimkomusmitgát í stað sóttkvíar,“ segir Jón.
Jón telur að dánartíðni Covid hafi verið ofmetin:
„Það er mikilvægt að litið sé heildrænt yfir sviðið og að opna umræðuna. Ég hef persónulega engra hagsmuna að gæta, nema það að ég vona að teknar séu ákvarðanir sem eru heillavænlegar fyrir okkar frábæra land og þjóð. Við vitum að það er óraunhæft að við komum til með að búa í veirufríu landi og neikvæð umræða sem elur á ótta er ekki heillavænleg til langframa. Ég tel að nýjustu gögn bendi til að dánartíðni Covid hafi verið ofmetin, en við erum nú að ganga í gegnum eitt mesta efnahagsáfall sögunnar og því afar mikilvægt að hlúa að innviðum, andlegri heilsu og lágmarka skaðann fyrir sem flesta.“