Íslensk erfðagreining hefur enn á ný boðist til að hjálpa til við skimanir fyrir COVID-19 á landamærum. Útlit er fyrir að þörf fyrir skimun sé að fara yfir afkastagetu veirufræðideildar Landspítalans og hefur ÍE boðist til að hlaupa undir bagga þar til afskastageta veirufræðideildar verður orðin nægileg, en það verður líklega ekki fyrr en í október.
Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á COVID-upplýsingafundi dagsins. „Þetta framlag Íslenskrar erfðagreiningar er mjög mikilvægt,“ sagði Þórólfur. Hann hefur sent heilbrigðisráðherra minnisblað varðandi áframhaldandi aðgerðir gegn faraldrinum. Er í raun mælt með óbreyttum aðgerðum og að skimanir á landamærum haldi áfram í óbreyttri mynd.
Fjögur innanlandssmit greindust í gær og leiðir raðgreining í ljós að um sömu veiru er að ræða og í öðrum smitum undanfarið sem öll tengjast sömu hópsýkingunni. Tæplega 500 sýni voru tekin hjá veirufræðideildinni í gær.
Tæplega 800 manns eru núna í sóttkví en enginn liggur á sjúkrahúsi með veiruna.
Í gær voru 2.100 farþegar skimaðir á landamærum en 2.800 komu til landsins. Enginn er með staðfest eða virkt smit en tveir eru í biðstöðu.
Skimu Íslenskrar erfðagreiningar hefur staðið yfir síðan 29. júlí og hefur ÍE skimað um 4.400 manns. Fimm hafa greinst með veiruna.