Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, ætlar að höfða mál gegn Hafdísi Helgu Ólafsdóttur sem kærunefnd jafnréttismála taldi að ráðherrann hafði brotið á þegar að gengið var fram hjá henni við ráðningu í embætti ráðuneytisstjóra.
Til þess að ógilda umræddan úrskurð virðist Lilja þurfa að höfða mál gegn sjálfri konunni. Þetta kemur fram í kvöldfréttum RÚV.
Lögmaður Hafdísar Helgu segir um málið:
„Það verður að segjast að þetta kemur á óvart. Umbjóðandi minn var ekki að búast við þessu þegar hún kærði þessa ákvörðun til kærunefndar jafnréttismála. Ég veit ekki til þess að þetta hafi gerst áður, að ráðherra höfði mál persónulega gegn aðila sem kærir ákvörðun ráðherra,“
Þá kemur fram í svörum ráðuneytisins að Lilja hafi leitað sér lögfræðiálits vegna málsins. Henni hafi verið bent á lagalega annmarka í úrskurði nefndarinnar, auk þess sem hann bjóði upp á lagalega óvissu.