Markaður Fréttablaðsins skýrir frá þessu. Um leið var hlutafé Árvakurs aukið úr tæplega 55 milljónum í tæplega 65 milljónir. Fréttablaðið segir að ekki komi fram í tilkynningunni hvernig hlutafjáraukningin skiptist á milli hluthafa en samkvæmt skráningu á eignarhaldi Árvakurs á vef Fjölmiðlanefndar er það óbreytt frá í fyrra.
Stærstu hluthafarnir eru Ramses, í eigu Eyþórs Laxdal Arnalds, og Íslenskar sjávarafurðir, í eigu Kaupfélags Skagfirðinga. Hvort félag um sig á 20% hlut í félaginu. Hlynur A, félag sem tengist Guðbjörgu Matthíasdóttur aðaleiganda Ísfélags Vestmannaeyjar, á rúmlega 16% í Árvakri og Ísfélagið á rúmlega 13% hlut. Legalis, félag í eigu Sigurbjarnar Magnússonar, á rúmlega 12% hlut í Árvakri.
Hlutafé Þórsmerkur hefur breyst nokkrum sinnum á undanförnum misserum í takt við slæma afkomu Árvakurs. Það var lækkað um milljarð síðasta sumar til að mæta tapi fyrri ára en á sama tíma var hlutafé Þórsmerkur aukið um 200 milljónir til að bæta fjárhagsstöðu félagsins. Tap Árvakurs var 415 milljónir 2018 og 282 milljónir 2017.